14.12.1970
Neðri deild: 30. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 2100 í B-deild Alþingistíðinda. (2249)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir o.fl.

Gísli Guðmundsson:

Herra forseti. Hv. 2. þm. Vestf. hefur hafið hér umr. utan dagskrár um samgönguerfiðleika á Vestfjörðum, og dreg ég ekki í efa, að hann hafi þar rök fyrir sínu máli, enda minnist ég þess, að hér á Alþ., meira að segja nú á þessu þingi, er nú situr, hafa verið uppi tillögur um úrbætur í strandferðamálum Vestfirðinga, tillögur um sérstakt Vestfjarðaskip, ef ég man rétt. Ég hygg, að það hafi verið til umr. fyrir fáum dögum. En mig langar til þess að nota tækifærið til þess að taka undir það, sem hv. þm. sagði, að það skipulag, sem nú er á strandferðunum, að gera ráð fyrir hringferðum skipanna kringum landið, sem allar hefjast í Reykjavík, þarf áreiðanlega endurskoðunar við. Og ekki þætti mér ótrúlegt, að í framtíðinni væri það heppilegasta fyrirkomulagið, að þau strandferðaskip, sem eiga að þjóna einstökum landshlutum, væru staðsett hvert um sig í þeim landshluta, sem þau eiga að þjóna, en þessum skipakosti sé ekki saman safnað hér í höfuðborginni. Ég vil í þessu sambandi leyfa mér að minna á það, að fyrir nokkrum árum fluttum við þm. úr Norðurl. e. till. til þál. þess efnis, að athugaðir yrðu möguleikar á því, að gert væri út sérstakt Norðurlandsskip til strandferða og að það væri gert út frá Akureyri. Þessi till. var samþ. Nú á þessu þingi gerði ég fsp. um þetta mál til hæstv. samgmrh., hvað því liði og fékk að vísu nokkur svör, en svör, sem sýndu það eigi að síður, að þetta mál hafði lítið verið athugað, litil rannsókn verið gerð og sú rannsókn var engan veginn miðuð við þá möguleika, sem gera má ráð fyrir að yrðu fyrir hendi í sambandi við slíkt skip með breyttu skipulagi. Þær fáu upplýsingar, sem fyrir lágu, miðuðu aðeins við það skipulag, sem nú er, en ekki það, sem við gerðum ráð fyrir.

En úr því að farið er að tala um samgöngumál hér utan dagskrár, þá vil ég leyfa mér að minna á það, að á ofanverðu síðasta Alþ. var kvartað yfir því hér á þingfundi við hæstv. samgmrh., að snjómokstur á vegum á Norðausturlandi væri algerlega ófullnægjandi. Og það var sérstaklega bent á það í því sambandi, að á Norðausturlandi væri svo ástatt, að fleiri en eitt læknishérað væri læknislaust og fólki væri ætlað að leita læknisþjónustu í önnur héruð, en oft væri þannig ástatt, að ekki væri fært á landi milli þessara staða, sökum þess að vegir tepptust af snjó. Og það var vakin athygli hæstv. ráðh. á því í þessum umr., að snjómokstur á vegum á Norðausturlandi mundi alls ekki vera með eðlilegum hætti miðað við það, sem tíðkast annars staðar á landinu. Hæstv. ráðh. tók þessu eiginlega vel, þó að hann gæfi ekki ákveðin svör, en upplýsti þá, að reglur um snjómokstur, sem munu vera til hjá vegamálastjórninni, en hafa ekki verið birtar hér á Alþ., væru í endurskoðun. Það er ekki sanngjarnt að fara að bera fram fsp. hér til hæstv, ráðh., þar sem hann hefur engan undirbúningstíma til þess að svara, en ég vil láta í ljós þá von mína, að þessari endurskoðun á snjómokstursreglunum fari nú að verða lokið eða sé e.t.v. lokið og að þá megi menn á Norðausturlandi vænta úrbóta í þessu efni og einhverra reglna um snjómokstur, sem teljast megi sambærilegar við það, sem tíðkast annars staðar á landinu á langleiðum og þjóðbrautum.