14.12.1970
Neðri deild: 30. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 2104 í B-deild Alþingistíðinda. (2252)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir o.fl.

Vilhjálmur Hjálmarsson:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð. Ég dreg ekki á nokkurn hátt í efa frásögn hv. 2. þm. Vestf. af ástandinu þessa dagana og síðustu vikurnar. Hins vegar kemur mér þetta ekkert á óvart. Við höfum horft upp á það á undanförnum árum, hvernig starfsemi Skipaútgerðar ríkisins hefur svo að segja verið brotin niður með því að selja skipin fyrir fram, áður en önnur ný komu í staðinn, með því að gera ekkert til þess að auðvelda að meðhöndla og afgreiða vörur hér í Reykjavík og á margan hátt með því að vanrækja að byggja fyrirtækið upp. Ástandið nú þarf engum að koma á óvart. Ég er ekki alveg viss um, að það sé rétt að fordæma hringferðafyrirkomulagið. En ég skil það vel, að það geti verið óhentugt Vestfjörðum, að stóra skipið hefur nú í haust farið allar ferðir úr Reykjavík austur um land. Hef ég ekki fremur en hann skilið, hvers vegna það fyrirkomulag er upp tekið. En það kemur raunar fleira til, sem torveldar vöruflutninga, eins og hér hefur raunar verið minnzt á, fleira heldur en vanbúnaður Skipaútgerðarinnar til þess að sinna sínu hlutverki og það er breytt tilhögun bæði hjá Eimskipafélaginu og hjá Skipadeild Sambandsins. Ég vil alveg fyllilega taka undir þær áskoranir, sem hér hafa komið fram til hæstv. samgmrh. um að beita sér fyrir úrbótum á þeim vettvangi, beita áhrifum sínum í þá átt, að skipafélögin bæti ráð sitt að því er varðar framflutning innfluttrar vöru.

Ég vil einnig leyfa mér að taka undir það, sem hér hefur sagt verið um vanbúnað íslenzkra flugvalla. Okkur er það vel kunnugt, þm., sem höfum öðru hverju farið til flugmálastjórnarinnar að ræða um aðgerðir á vissum flugvöllum, að það hafa verið ákaflega takmörkuð fjárráð til þessara hluta. Það er vafalaust rétt, sem hér hefur komið fram um ljósaútbúnað á ýmsum flugvöllum. Ég veit um suma persónulega. Og hitt hefur maður horft upp á líka, að jafnvel allra frumstæðustu hreinlætiskröfum er ekki fullnægt og það á flugvöllum eins og á Hornafirði, þar sem ekki aðeins fer í gegn mikill fjöldi heimafólks, því að sjálfsagt er þetta nú aðalfólksflutningaleiðin út úr Skaftafellssýslum, heldur einnig mikill fjöldi erlendra ferðamanna, og það er engin hreinlætisaðstaða inni á þessum flugvelli, engin. Þetta er nánast furðulegt.

Ég skal svo ekki hafa þessi orð öllu fleiri, en ég vil þó aðeins nota þetta tækifæri til þess að árétta það, sem ég hef áður sagt hér, og leggja áherzlu á það við flutning tveggja þingmála, — annað er um skipulag vöruflutninga, en hitt um strandferðaskip til farþegaflutninga — árétta það, að það verður að skipuleggja betur en nú er vöruflutningana. Það verður að efla sjóflutningana, beina til þeirra meira flutningamagni en nú er gert, ekki einasta á þeim tímum, þegar ómögulegt er að brjótast um heilt vegakerfi með vörurnar, heldur verður að reyna að beina flutningum að þessum leiðum miklu meira heldur en nú hefur verið gert. Og ég vil einnig árétta það, að það er ómetanlegt öryggi og ómetanleg þjónusta fyrir strjálbýlið, fyrir fjarðabyggðirnar, alveg sérstaklega á Austfjörðum og Vestfjörðum, að haldið sé uppi ferðum með góðu farþegaskipi og alveg sérstaklega á þeim tíma, þegar ótryggastar og erfiðastar eru ferðirnar á landi og í lofti.