14.12.1970
Neðri deild: 30. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 2105 í B-deild Alþingistíðinda. (2253)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir o.fl.

Gísli Guðmundsson:

Herra forseti. Ég kvaddi mér aftur hljóðs eiginlega vegna þess, að hér tók til máls hv. 5. þm. Reykv., sem er stjórnarformaður Flugfélags Íslands, og hann ræddi sérstaklega um starfsemi Flugfélagsins innanlands, þ.e.a.s. innanlandsflugið. Og þegar ég heyrði hann flytja þá ræðu, fékk ég ekki orða bundizt. Í því sambandi langar mig til að segja hér frá þróun í innanlandsflugmálum, sem átt hefur sér stað í þeim landshluta, sem ég nefndi áðan og hefur orðið út undan með snjómokstur á vetrum, þ.e.a.s. á Norðausturlandi. Fyrir nokkrum árum var skipulagi flugferða frá Flugfélagi Íslands komið í það horf, að flugvélar höfðu viðkomu tvisvar í viku á flugvöllunum á Kópaskeri, Raufarhöfn og Þórshöfn og eitt sumarið var þetta komið það vel á veg, að ferðirnar voru þrjár vikulega, a.m.k. að sumrinu. Hér hefur smátt og smátt orðið mjög dapurleg breyting á og vildi ég gjarnan, að formaður Flugfélagsins tæki það til athugunar, af því að við erum svo heppnir, að hann á hér sæti og tekur þátt í þessum umr.

Fyrsta breytingin var sú, að lagðar voru með öllu niður viðkomur á Kópaskeri, en þar er nú allgóður flugvöllur. Næst kemur svo það, að ferðunum til Raufarhafnar og Þórshafnar var fækkað úr þremur niður í tvær á viku og var ekki mikið yfir því kvartað. En síðar kom að því, að þessum tveim ferðum á viku var fækkað niður í eina. Flugvélarnar komu aðeins við einu sinni í viku á flugvöllunum á Raufarhöfn og Þórshöfn. Og nú bætist það ofan á, að það er breytt áætlunardegi fyrir þessa flugvelli, þannig að flugdagurinn er sunnudagur. En á sunnudögum stendur þannig á, a.m.k. á öðrum þessum stað, að landssímastöðin er ekki opin á þeim tíma, sem flugvélarnar eru að fljúga frá Akureyri austur, og á þeim tíma, sem þær hafa viðdvöl á flugvellinum, þannig að það er ekki hægt að ná sambandi milli þeirra, sem nota flugvöllinn, á þessum tíma. Þetta er alveg furðuleg ráðstöfun. Ég hef nú þrásinnis og við reyndar fleiri þm. úr Norðurl. e. snúið okkur til Flugfélags Íslands, ekki til formannsins, heldur til framkvæmdastjórnarinnar, með beiðni um úrbætur í þessum málum. Enn hefur það ekki borið neinn árangur og því nota ég nú tækifærið, þegar samgöngumálin eru hér til meðferðar utan dagskrár, til þess að minna á þetta mál og í áheyrn formanns Flugfélagsins, sem sæti á hér í hv. d.

Það er áreiðanlega rétt, sem hv. 5. þm. Austf. sagði hér áðan, að það þarf að endurskipuleggja flutningana um landið. En þá held ég, að eitt af því, sem mundi koma í ljós við endurskoðun á þessu kerfi og endurskipulagningu, væri það, að þetta fyrirkomulag með hringferðirnar sé úrelt og held ég, að þessi hv. þm. hafi ekki skoðað það mál nægilega nákvæmlega, — það sé úrelt og hitt sanni nær, að í hverjum landshluta, t.d. á Vestfjörðum, á Norðurlandi og á Austfjörðum væru skip, sem sérstaklega sinntu þörfum þessara landshluta, flyttu vörur þangað, sem þeir landshlutar þurfa að koma þeim og sæktu vörur á þá markaði, sem þessir landshlutar vilja skipta við, og að þessi skip væru staðsett í hlutaðeigandi landshlutum, sem þau eiga að þjóna. Þetta held ég, að kæmi mjög til athugunar. Hins vegar kunna að vera á þessu ýmsir erfiðleikar, sem kunna að koma í ljós, þegar farið verður að endurskoða þessi mál. Ég er algerlega samþykkur hv. 5. þm. Austf. um það, að það þurfi að endurskoða og endurskipuleggja flutningakerfið í heild. En varðandi Norðurland höfum við þm. úr Norðurl. e., eins og ég sagði áðan, þegar fyrir löngu flutt till. til þál. varðandi endurskipulagningu að því er Norðurland varðar og fengið hana samþykkta á Alþ. fyrir nokkrum árum, þó að árangurinn hafi orðið litill hingað til, því miður.