14.12.1970
Neðri deild: 30. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 2107 í B-deild Alþingistíðinda. (2255)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir o.fl.

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Í sambandi við þau tilmæli og áskoranir, sem beint hefur verið til mín um að kynna mér þessi mál, þá vil ég segja það, að ég mun gera það. Ég mun leitast við að kynna mér þessi mál og reyna að vinna að þeim úrbótum, sem mögulegar eru, því að vitanlega er hér um vandamál að ræða. En samgöngur um Ísland hljóta alltaf að verða nokkrum erfiðleikum bundnar, sérstaklega á þeim árstíma, sem nú er. Við horfum stundum á kvöldin á veðurspárnar og veðurkortin og það er oft, sem er stormur út af Vestfjörðum. Og þess vegna er það rétt, að það verður erfitt að treysta á flugið, þannig að það verði alltaf hægt að halda þar áætlun. Það eru þrír sæmilegir flugvellir á Vestfjörðum, á Ísafirði, Patreksfirði og Þingeyri. Þingeyrarflugvöllinn er búið að lengja núna, þannig að hann á að verða mjög sæmilegur og Ísafjarðarflugvöllur út af fyrir sig góður. En sá galli er á þessum flugvöllum í fjörðunum, að það er ekki hægt að koma við þverbrautum og það er þröngt og vont að komast niður, ef dimmviðri er eða stormasamt. Og því er það, að menn þurfa ekki að láta sér bregða, þótt ekki verði unnt að halda áætlun. Flugvellina þarf náttúrlega að bæta, sums staðar vantar ljós, en það er unnið árlega eftir því, sem fé er til, til þess að bæta þá. En ég skal viðurkenna, að það væri æskilegt að fá meira fjármagn í flugvelli heldur en við höfum fengið. En menn eru sammála um það, að þótt flugið leysi mikinn vanda og bæti mjög úr samgöngum hér á landi, þá sé ekki unnt að treysta á það eitt og það þurfi þess vegna fleira að koma til. Við vitum, að vegirnir teppast stundum fljótt á haustin, fjallvegirnir, og þetta á ekki við bara um Vestfirði, þetta á við um Austurland, Norðurland og jafnvel allt landið, og þess vegna er þetta erfiðleikum bundið að halda uppi stöðugum samgöngum.

Hér var áðan minnzt á snjómokstur og kvartað undan því, að það væri ekki mokað reglulega eða nógu oft. En það þarf líka fjármagn til þess, og það er rétt, sem hér var sagt, að snjómokstursreglurnar, sem nú eru í gildi, hafa verið í athugun og endurskoðun hjá vegamálastjóra og um leið og gerðar eru tillögur um það að breyta snjómokstursreglunum, þá er einnig með því reiknað, hvað það kostar að framfylgja breyttum og nýjum reglum. Það dugar ekki að setja þær reglur, sem ekki er svo hægt að fylgja. Og sannleikurinn er náttúrlega sá, að það er raunalegt, þegar búið er að moka langan veg gegnum þykka fönn, að kannske á sama deginum fyllist þetta aftur og verður ófært á ný, en ærna fjármuni hefur það kostað að komast í gegnum fönnina. Það er ekkert undarlegt, þótt menn beri fram óskir um úrbætur í þessum efnum, því að það að vera lokaður inni og vera samgöngulaus og einangraður er náttúrlega mjög slæmt og dugar ekki í nútímaþjóðfélagi. Þess vegna eru menn sammála um að bæta úr þessu. Það hefur verið talað hér um strandferðirnar og samgöngur á sjó, og einn hv. þm. sagði, að það væri ekki von á góðu, vegna þess að Skipaútgerð ríkisins hafi verið brotin niður, ekki hugsað um að byggja fyrirtækið upp. Þetta er nú, held ég, of stórt til orða tekið, og sannleikurinn er nú sá að það er verið að byggja þetta fyrirtæki upp með því, að það fær nú á einu ári eða rúmlega það tvö ný og myndarleg strandferðaskip. Og þegar nýja Esja kemur í gagnið, væntanlega í febrúarmánuði, verður vitanlega miklu auðveldara að bæta úr strandferðunum. Og nú upp úr áramótunum verður gerð ný áætlun, þar sem nýja Esja verður sett inn, og ég er alveg sannfærður um það, að það verða mikil viðbrigði, þegar farið verður að fylgja þeirri nýju áætlun. Það verður mikil bót á ráðin frá því, sem verið hefur, þegar það skip kemur líka í gagnið. Það má segja, að það hefði e.t.v. átt að taka leiguskip,þangað til nýja Esja kemur. Það var nú ekki gert. Ég hef ekki heyrt háværar raddir um þörfina á því.

Um það hvernig þessir flutningar eru skipulagðir, — hringferðirnar eru fordæmdar — þá vil ég kynna mér það og hafa hönd í bagga með þegar nýja áætlunin verður samin og hlusta vandlega á þá, sem reynsluna hafa í þessum efnum, og þá verður reynt að taka þann kostinn, sem beztur er, til þess að veita sem bezta þjónustu þeim, sem þjónustunnar eiga að njóta.

Ég held, að það sé nú ástæðulaust að hafa öllu fleiri orð um þetta. Ég skil, að menn verða leiðir, þegar samgöngurnar lokast. Það er skiljanlegt, að þegar ferðir falla niður svona rétt fyrir jólin og fólk og póstur bíður og kemst ekki í áfangastað, þá er alveg eðlilegt, að menn kvarti og kveini, og við skulum ætla og vona, að einmitt það, að menn láta í sér heyra og gera aths., verði til þess að flýta fyrir úrbótum og farið verði að hugsa um þessi mál, kannski meira heldur en annars hefði verið, ef allir hefðu þagað. Og þess vegna er það, að ég skrifa á bak við eyrað, eins og þar stendur, það, sem hér hefur verið sagt, og vil hugsa um það, hvernig úr því megi bæta. Ég get engu lofað um það, að reglum Eimskipafélags Íslands eða Sambands ísl. samvinnufélaga verði breytt aftur í það horf, sem áður var, fólkinu á ströndinni til þæginda. Hitt er annað mál, að það er sjálfsagt að athuga það mál, tala við forstöðumenn þessara skipafélaga og vita, hvort þeir væru fáanlegir til þess að veita á ný svipaða þjónustu og þeir áður gerðu. Og það verður að viðurkenna, að skipafélögin hafa þannig gengið til baka í góðri þjónustu frá því, sem var áður, en þetta eru ekki ríkisfyrirtæki og því tæplega á valdi stjórnarvaldanna að fyrirskipa þeim, hvernig þau haga sínum flutningum.