23.02.1971
Sameinað þing: 27. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 2111 í B-deild Alþingistíðinda. (2261)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir o.fl.

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Þó að fsp. þessi sé flutt utan dagskrár hér, þá hef ég ekkert á móti því að svara hv. þm. Það er alveg rétt, sem hann sagði, að ég skýrði hér frá því fyrr í vetur, að stefnt væri að því, að nýja fasteignamatið gæti tekið gildi 1. marz. Það byggðist á því, að gert var ráð fyrir, að lokið yrði þá úrskurði á öllum kærum og landsnefndin hefði þá einnig lokið sínu starfi. En nú standa sakir þannig, að þetta mun ekki reynast auðið, þannig að það mun taka a.m.k. einn mánuð og jafnvel tvo mánuði að þessu verði lokið til fulls, þannig að nýja fasteignamatið mun ekki taka gildi fyrr en í fyrsta lagi 1. apríl, en mér þykir þó sennilegra 1. maí, til þess að öruggt sé, að frá öllum þeim formsatriðum hafi verið gengið, sem æskilegt er að ganga frá, áður en gildistakan kemur til.

Þá spurði hv. þm. að því, hvað liði endurskoðun ýmissa ákvæða, sem snerta fasteignamatið. Um það er það að segja, að í undirbúningi eru nú viss frv., sem skipta máli í því sambandi, en þetta heyrir undir ýmis rn. Í fyrsta lagi hefur nú verið lagt fyrir Alþ. frv. til l. um breyt. á l. um tekju- og eignarskatt, þar sem gert er ráð fyrir breytingum á eignarskatti miðað við nýja fasteignamatið, og er þess vænzt, að það frv. verði samþ. hér endanlega á þessu þingi. Í öðru lagi mun nú næstu daga verða lagt fyrir Alþ. frv. um endurskoðun á lögum um stimpilgjöld og þinglýsingargjöld. Í þriðja lagi má gera ráð fyrir því, að lagt verði fyrir Alþ. líka innan skamms tíma — þó að það sé ekki á vegum fjmrn. — frv., sem felur í sér almenn ákvæði um það, að fyrst um sinn skuli viðmiðunargjöld, sem ákveðin eru sérstök prósenta af fasteignamati, breytast til samræmis við hið nýja mat, þannig að hækkun verði ekki á þeim fyrr en eftir að þau lög hafa verið ákveðin eða endurskoðuð. Hér er um að ræða ýmiss konar gjöld til sveitarsjóða, en svo sem kunnugt er, hefur nýja fasteignamatið hvorki áhrif á fasteignagjöld né ýmsa aðra skatta til sveitarfélaga á þessu ári, vegna þess að þeir voru á lagðir um síðustu áramót miðað við þágildandi fasteignamat og koma ekki til aftur fyrr en um næstu áramót, en þá þarf að sjálfsögðu að vera búið að endurskoða öll þessi gjöld. Það er þó hugsanlegt, að það séu einstök gjöld, sem breytist á öðrum tímum árs eða heimilt sé að breyta á öðrum tímum árs, og þess vegna hefur þótt æskilegt, að sett yrði til öryggis almennt bráðabirgðaákvæði, eins og ég gat um, ef um slík gjöld væri að ræða. Lög Um erfðafjárskatt munu einnig vera til athugunar í því rn., sem með þau mál hefur að gera. Þetta hygg ég vera þau helztu gjöld, sem eru beinlínis bundin við fasteignamat, þannig að það hefur verið höfð fullkomin hliðsjón af nauðsynlegum breytingum í því efni, enda ljóst mál, að um svo mikla hækkun fasteignamatsins sjálfs er að ræða, að það verður að gera breytingar á viðkomandi gjöldum. En þetta vona ég, að sé nægilegt svar við fsp. hv. þm.