06.04.1971
Neðri deild: 90. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 2117 í B-deild Alþingistíðinda. (2264)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir o.fl.

Jónas Árnason:

Herra forseti. Ég heiti því að tefja ekki að ráði þennan fund, en ástæðan til þess, að ég kveð mér hljóðs utan dagskrár, er sú, að nú í síðustu viku var á ferðinni maður um Snæfellsnes til þess að afla sér upplýsinga frá skólanemendum, börnum og unglingum. Hann lagði fyrir börn þessi og unglinga hátt á þriðja hundrað spurningar, mjög nærgöngular sumar. Þessi athugun, þessi rannsókn, er skipulögð af dr. Braga Jósefssyni, en með honum starfar Bandaríkjamaður, sem heitir Thomas Dunn, og þeir hafa styrk, segja þeir, til þessarar rannsóknar frá vísindastofnun Bandaríkjanna, og mun þessi styrkur nema 5–6 millj. kr. Á það blað, sem nemendurnir skila sínum spurningum á, eru þeir látnir skrifa nöfn sín, þannig að hér er ekki um að ræða ópersónulega könnun, heldur liggur það fyrir, hver svarar á hverju blaði. Það yrði of langt að rekja hér allar þessar spurningar, en sem dæmi um það, hve nærgöngular þær eru, er t.d., að þarna er spurt: „Er fjölskylda þín áskrifandi að nokkru dagblaði og ef svo er, þá hvaða dagblaði?“ Hérna er greinilega um að ræða athugun á pólitískum skoðunum foreldranna. Margar, margar fleiri slíkar spurningar eru þarna mjög nærgöngular. Það liggur í augum uppi, að hér er um mjög grunsamlega starfsemi að ræða. Að vísu mun látið heita, að þetta sé til þess að kanna, að mér skilst, áhrif sjónvarps á afbrotahneigð unglinga. En það er greinilegt, að þarna er maðkur í mysunni. Það er allt annað, sem vakir fyrir þessum könnuðum. Eins og ég segi, það er margt, sem sætir furðu í þessari athugun, og þó sætir það kannske einna mestri furðu, að Bragi þessi Jósefsson segir, að könnun þessi fari fram með leyfi menntmrn., og þess vegna leyfi ég mér að beina þeirri fsp. til hæstv. menntmrh., hvort það sé satt, að menntmrn. hafi leyft þessa ósvinnu.