06.04.1971
Neðri deild: 90. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 2117 í B-deild Alþingistíðinda. (2265)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir o.fl.

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Á s.l. hausti mun dr. Bragi Jósefsson hafa snúið sér frá Bandaríkjunum til utanrrn. í sambandi við umsókn, sem hann hafði þá sent til bandarískra aðila um styrk til handa honum og öðrum bandarískum aðilum til rannsókna á áhrifum sjónvarps og annarra fjölmiðlunartækja á Íslandi á afbrot unglinga. Utanrrn. leitaði umsagnar menntmrn. um þetta bréf dr. Braga Jósefssonar, og svaraði menntmrn. utanrrn. 19. nóv. 1969 á þá leið, að það væri því mjög hlynnt, að slík rannsókn færi fram, en benti jafnframt á, að fyrir milligöngu íslenzku UNESCO-nefndarinnar hafi Þorbjörn Broddason félagsfræðinemi á árinu 1967—1968 fengið styrk til þess að rannsaka áhrif sjónvarps á skólabörn hér á landi. Í framhaldi af því skýrði menntmrn. utanrrn. frá því, að enn fremur hafði fengizt styrkur frá sömu stofnun, UNESCO, til þess að rannsaka áhrif sjónvarps á fullorðna. Væri væntanlega æskilegt, að rannsóknir dr. Braga verði, eftir því sem unnt er, samræmdar framangreindum rannsóknum eða samráð haft við stjórnendur þeirra. Síðan var utanrrn. gefið upp heimilisfang Þorbjarnar Broddasonar, sem þá var við nám í Svíþjóð. Hinn 28. nóv. skrifaði dr. Bragi Jósefsson frá Western Kentucky University í Bandaríkjunum menntmrn. svo hljóðandi bréf, með leyfi hæstv. forseta:

„Herra ráðuneytisstjóri.

Með tilvísun til meðfylgjandi afrits til utanrrn. vil ég láta í ljós þakklæti fyrir afstöðu menntmrn. til fyrirhugaðra rannsókna minna á áhrifum sjónvarps og annarra fjölmiðlunartækja á afbrot unglinga á Íslandi. Með mér við undirbúning þessara rannsókna er dr. Thomas P. Dunn, prófessor í þjóðfélagsfræði og massmedia, sem einnig starfar við þennan háskóla. Eins og tekið er fram í bréfi mínu til utanrrn., hef ég einnig haft samband við Þorbjörn Broddason, prófessor Símon Jóh. Ágústsson og rektor Háskóla Íslands, prófessor Magnús Má Lárusson. Þá hef ég haft samband við forstjóra Norræna hússins, Ivar Eskeland, sem hefur allmikla reynslu af sjónvarpsmálum í Noregi. Við undirbúning að heimildasöfnun um sögu sjónvarpsins á Íslandi vænti ég þess að mega njóta góðrar fyrirgreiðslu hjá stjórn útvarpsins, sérstaklega að því er varðar skýrslur um efni, val á efni, fjölda sjónvarpsnotenda og fjölgun, kostnað við sjónvarp og þess háttar. Einnig tel ég mikilsvert að mega vænta ábendinga og tillagna frá rn., ekki sízt varðandi góða starfskrafta. Endanleg styrkumsókn okkar verður lögð fram í marz og munum við senda rn. eintak, svo fljótt sem hægt er.

Til viðbótar bréfi utanrrn. vildi ég mega fara þess á leit við menntmrn. að mega tilgreina stuðning rn. við væntanlega rannsókn, svo og aðstöðu til rannsóknarstarfa í samvinnu við skrifstofu útvarpsins og aðrar stofnanir, er hér koma til greina og heyra undir Stjórnarráð Íslands. Vegna fyrri reynslu af árekstri við orðalag vil ég fullvissa rn. um, að við munum ekki láta frá okkur opinberlega neinar staðhæfingar varðandi rn. án þess að bera það fyrst undir viðkomandi rn. Frekari upplýsingar og ábendingar frá rn. yrðu vel þegnar. Að öðru leyti munum við skýra yður nánar frá gangi þessa máls.

Ég tel hér um mjög athyglisvert verkefni að ræða, og ef úr framkvæmdum verður, ætti að vera gullið tækifæri að nýta góða starfskrafta meðal stúdenta háskólans, en rannsóknir af þessu tagi eru mannfrekar og tímafrekar. Einnig er ekki úr vegi, að nýta megi fyrirhugaðar rannsóknir í kennslu á rannsóknartækni í félagsvísindum, en slíkar rannsóknir eru nauðsynlegar til að kynna og útfæra teoríu fyrirlesarans. Að svo mæltu mun ég ekki hafa þetta lengra að sinni.

Virðingarfyllst,

Bragi Jósefsson.“

Þetta bréf er skrifað 28. nóv. 1969. Rn. svarar þessu bréfi dr. Braga 20. jan. 1970 með þessu stutta bréf í :

„Rn. hefur borizt bréf yðar dags. 28. nóv. s.l., varðandi fyrirhugaðar rannsóknir yðar á áhrifum sjónvarps og annarra fjölmiðlunartækja á afbrot unglinga á Íslandi. Rn. er að sjálfsögðu reiðubúið að veita yður alla þá eðlilegu fyrirgreiðslu við þessar rannsóknir, sem í þess valdi stendur, en eins og þér hafið tekið fram, kemur allur fjárhagslegur stuðningur við rannsóknir yðar frá öðrum aðilum.“

Þetta eru einu bréfaskiptin, sem milli menntmrn. og Braga Jósefssonar hafa farið, og eru orðin meira en ársgömul. Eftir að þetta bréf Braga var skrifað til rn. og rn. skrifaði honum aftur, hefur hann ekkert samband haft við rn. Við höfum engar upplýsingar um, hvaða styrkfjárhæð hér er um að ræða, né heldur hver veitir þennan styrk. Þær eru ekki fyrir hendi hjá rn. og sem sagt, rannsóknarmaðurinn hefur ekkert samband haft við rn. um þessar rannsóknir sínar. Við höfum frétt af þeim, heimsókn hans, eins og hv. þm. tók fram í fsp. sinni, en það er augljóst af þessum samskiptum dr. Braga Jósefssonar og menntmrn., að menntmrn. ber enga ábyrgð á athöfnum hans við þessar rannsóknir, hvað þá á rannsóknunum sjálfum, og hefur ekkert leyfi til slíkra rannsókna veitt eða til þeirra heimsókna í skóla, hvað þá á heimili, sem þarna kann að vera um að ræða. Og rn. hefur raunar aðeins haft óljósar fregnir af hálfu nokkurra skólastjóra. Þeir skólastjórar, sem hafa snúið sér til menntmrn. með fsp. um það, hvort þessi rannsóknarmaður heimsæki skólana í umboði rn., hafa að sjálfsögðu fengið þær upplýsingar, að svo sé ekki.