04.02.1971
Efri deild: 45. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 2128 í B-deild Alþingistíðinda. (2270)

Starfshættir Alþingis

Einar Ágústsson:

Herra forseti. Mig langar til þess í upphafi þessa fundar að fá að segja örfá orð um vinnutilhögun hér á hv. Alþ. í vetur. Við höfum líka til þess góðan tíma. Allir fundir, sem hér hafa verið haldnir í þessari hv. d. síðan framhaldsþingið hófst, hafa ekki staðið nema í nokkrar mínútur og það er ekkert útlit fyrir það, að í dag verði heldur lengri fundur. Það er því aðgerðarleysið, sem setur svipmót sitt á störf okkar hér í hv. Ed. nú um þessar mundir.

Verkefni þd. virðast mér ákvarðast af þrennu: Í fyrsta Íagi dugnaði og áhuga einstakra þm. við að flytja þingmál. Þm. þessarar hv. d. hafa það sem af er þessu þingi flutt 25 frv. Sum þeirra eru veigamikil, þannig að afgreiðsla þeirra ætti að geta haldið okkur að vinnu þó nokkuð lengi, ef við sinntum því. Þau eru fallin til þess að veita okkur viðfangsefni, mörg þeirra. Í öðru lagi finnst mér vinnan ákvarðast af því, hvað hæstv. ríkisstj. og ráðh. leggja mikið af málum fyrir þd. Í því efni hefur verið geysilegt ósamræmi milli þd. á þessu þingi og líklega meira en oftast nær áður. Hæstv. ríkisstj. hefur lagt fyrir Alþ. á þessum vetri nokkur, allmörg viðamikil mál. Ég get nefnt lagabálka um menntamál, sem að ýmsu leyti fela í sér byltingu í þeim málum á mörgum sviðum, vegamál, verðstöðvunarmál, það er mál, sem vekur athygli a.m.k., hversu veigamikið sem það kann að verða, þegar til kastanna kemur, og virkjanamál, svo að ég nefni eitthvað. Ég geri ekki tæmandi upptalningu á þessu, en ég segi það, að ekkert af þessum stórmálum hæstv. ríkisstj. hefur verið lagt fram í Ed., ef undan er skilið frv. um Landsvirkjun, sem verður að flokkast undir stórmál, þar sem verulegar fjárhæðir er þar um að tefla. Mér finnst, að hér séu ekki notaðir kostir deildaskiptingarinnar.

Það er mikið talað um að gera Alþ. að einni málstofu, og kannske verður það gert, ég veit það ekki. En alla vega er ekki búið að því, og meðan deildaskiptingin er fyrir hendi eru það sjálfsögð vinnubrögð að mínum dómi að notfæra sér kosti hennar. En kostir deildaskiptingar eru augljóslega aðallega tveir. Það er í fyrsta lagi það, að mál fá vandaðri athugun, og oft hefur það nú komið að góðu haldi, held ég, að til var önnur deild; þegar búið var að afgreiða mál í annarri d., og svo þá hitt að jafna vinnuna, að mál geta fengið þinglega athugun í n. víðar en á einum stað. Þessa kosti finnst mér, að hæstv. ráðh. beri að nota. Ráðh. hafa málfrelsi og tillögurétt í báðum þd. jafnt, þótt þeir greiði ekki atkv. nema í annarri. Og það er ekki nein algild regla, á ekki að vera það a.m.k., að ráðh. kynni þau mál, sem undir þá heyra, einungis í þeirri d., þar sem þeir hafa atkvæðisrétt. Ég vil þess vegna skora á hæstv. ráðh. að jafna þessari vinnu milli deildanna.

Í þriðja lagi ákvarðast svo vinnan í þd. af vinnutilhöguninni í n. og í þd. að öðru leyti. Það hefur áhrif á verkefnin og afköstin. Og mig langar til þess í örstuttu máli að athuga það, hvernig þessi 25 frv., sem flutt hafa verið í Ed. á þessu þingi, eru á vegi stödd. Það þarf ekki að taka langan tíma, herra forseti, því að málin eru ekki ýkja mörg. En af þessum 25 málum hefur eitt hlotið fullnaðarafgreiðslu í hv. Ed. Það er frv. um aðstoð Íslands við vanþróuðu þjóðirnar eða þróunarlöndin, eins og mig minnir, að það sé orðað, flutt af þm. úr öllum flokkum, hálfgildings stjórnarfrv. og hefur þá fengið forgang með hliðsjón af því væntanlega. Svo hefur einu nál. verið útbýtt í dag. Það er um frv. um eftirlaun aldraðra í stéttarfélögum. En 23 af þessum frv. eru enn þá til athugunar í nefndum. Í október fóru til n. þrjú mál: meðferð ölvaðra manna og drykkjusjúkra, ráðgjafar- og rannsóknarstofnun skólamála og orkulög. Í nóvember fóru til n. 13 mál. Ég ætla ekki að telja þau upp, ég veit, að þm. kannast við þessi mál, og í desember fóru til n. 5 mál. Sum af þessum málum eru mikilsverð, a.m.k. að dómi þeirra, sem flytja þau, og ýmissa fleiri raunar. Svo er skylt að geta þess, að af þessum 25 málum eru tvö mál svo nýlega komin til nefnda, að ekki er með neinni sanngirni hægt að gera kröfur til þess, að nál. eða athugun þeirra liggi fyrir. Það er annars vegar frv. um breytingu á lausaskuldum bænda, sem sent var til n. í fyrradag, og svo er að lokum rétt að geta þeirrar skemmtilegu og lofsverðu undantekningar, sem fólgin er í því, að frv. um sölu eyðijarðarinnar Holts í Dyrhólahreppi, sem fór til n. 27. janúar, er komið þaðan. Það kann að helgast af því, að hv. landbn. sé orðin svo vön að fást við málið, að það taki hana ekki ýkjalangan tíma að gera sér grein fyrir því.

Ég vil þess vegna leyfa mér, herra forseti, að beina þeim tilmælum til hæstv. forseta og formanna í viðkomandi nefndum, — ég er ekkert að gera þar upp á milli nefnda, mér sýnist þær flestar eiga nokkur mál óafgreidd, misjafnlega mörg að vísu, — að tíminn verði nú notaður betur en gert hefur verið og skriður settur á það að afgreiða þessi mál. Í þremur af þessum málum er ég 1. flm. Ég mætti kannske leyfa mér að geta sérstaklega um þau.

Ef hv. þingdeildarmeirihluta sýnist, að það sé óþarfi að tryggja gæzluvistarsjóði raunhæfar tekjur, þannig að hann geti mætt viðfangsefnum sínum án tillits til verðbólgu og annarra búsifja, þá eiga hv. þdm. að segja það og fella það frv., sem ég hef lagt fram um hið gagnstæða. Ef hv. meiri hluta þd., — og fer ég þar ekkert eftir flokkum, það þarf ekki að vera endilega, — sýnist það óþarfi að setja upp ráðgjafar- og rannsóknarstofnun í skólum til þess m.a. að taka upp meiri sálfræðiþjónustu og rannsaka og endurskoða námsefnið, þá leyfi ég mér að fara fram á það vinsamlega við ykkur, að þið segið það, teljið það óþarfa. Ef þið hv. meirihlutaþingmenn teljið, að það sé langbezt að hafa leiklistarskólafyrirkomulagið eins og það nú er, þannig að nánast engri kennslu sé haldið uppi, þá bið ég ykkur allra vinsamlegast að segja það, fella það frv., sem hér er flutt, til þess að það fáist þá niðurstaða um þetta mál.

Nú hefur hæstv. forsrh. tilkynnt okkur og þjóðinni, að stefnt sé að því að ljúka þinghaldi fyrir páska. Það telst mér til að þýði, að nákvæmlega 2 mánuðir af starfstíma Alþingis séu óliðnir að þessu sinni. Það er búið að boða okkur hlé á þingstörfum vegna funda Norðurlandaráðs, stutt að vísu, en lítið verður þó engu að síður gert á meðan það stendur yfir. Þess vegna sýnist mér, að það sé ekki ráð nema í tíma sé tekið að afgreiða þau mál, sem fyrir d. liggja, og ég leyfi mér að síðustu að beina þeirri áskorun til viðkomandi aðila, að það verði gert.