04.02.1971
Efri deild: 45. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 2134 í B-deild Alþingistíðinda. (2274)

Starfshættir Alþingis

Ólafur Jóhannesson:

Herra forseti. Ég skal ekki bæta miklu við það, sem hér hefur verið sagt um þessi mál, en get þó tekið undir það, sem fram hefur komið hjá hv. 11. þm. Reykv. og hv. 4. þm. Norðurl. e. En það var viðvíkjandi þessu atriði, sem minnzt var á, að umsagnir bærust nokkuð seint frá opinberum aðilum, sem ég vildi aðeins segja nokkur orð.

Ég held nú, að í fyrsta lagi sé nokkur munur á því, hver frv. eru send til umsagnar. Ég held, að það sé, án þess að ég hafi nú tölur við höndina eða hafi rannsakað það sérstaklega, heldur fátítt, að stjórnarfrv. séu send til umsagnar. Þó er það í einstaka tilfellum. En langoftast hygg ég, að stjfrv. séu afgreidd án þess að vera send nokkrum opinberum aðilum til umsagnar. Það er að sjálfsögðu á valdi n., en oft óska hæstv. ráðh. eftir því, að sínum málum sé sérstaklega hraðað, og stundum gefst þar af leiðandi ekki mikið tóm til þess að senda slík mál til umsagnar. En í öðru lagi er auðvitað sú alsökun oftar fyrir hendi, að þar hafa þeir opinberu aðilar, sem helzt mundi vera til að dreifa, fjallað um málið. Það eru því þmfrv., sem einkum eru send til umsagnar, og þá kem ég að merg málsins. Hinar opinberu stofnanir, sem fá þessi frv. til umsagnar, virðast af einhverjum ástæðum og ekki reyndar mjög óskiljanlegum, ef maður athugar það, hafa komizt á þá skoðun, að það lægi ekki neitt sérstaklega á að láta í té umsögn um þau mál. Þær opinberu stofnanir hafa sjálfsagt haft í huga þá venju, sem hér hefur gilt ár eftir ár, að frv. þm. hafa verið söltuð og ekki afgreidd. Og þetta er auðvitað farið að verka þannig hjá opinberum stofnunum, að þær virða slík tilmæli ekki mjög mikils, lita helzt á þetta sem einhvern hégóma. Ég held þess vegna, að það þurfi að skoða þetta mál enn dýpra, ef á að ráða bót á þessu og taka upp breytta starfshætti að ýmsu leyti.

Ég hef oft talað áður um þá furðulegu starfshætti, sem hér hafa tíðkazt, að stjfrv. hefur verið stórkostlega misjafnlega skipt á milli deilda. Ég vil alls ekki segja, að það sé verra nú en áður, og það má vel vera, að það sé rétt, sem hæstv. fjmrh. sagði, að það væri ekki svo mikill munur á þessu nú að tölunni til, en ég vil bara benda á það, að talan segir ákaflega lítið í þessu sambandi. Það er nokkur munur á þeim stjfrv., sem á að afgreiða hér í dag, þremur stjfrv., sem er þó dálítið að tölunni til, en eru náttúrlega allt smámál þannig skoðað, og á stórum lagabálkum eins og t.d. menntamálafrv., sem nú hafa verið lögð fyrir Nd. Ég held, að það þurfi að verða breyting á í þessu efni. Það situr allt of fast í ráðh. af einhverjum ástæðum, að þeir eigi að leggja fram sín mál í þeirri d., sem þeir eiga sæti. Eins og margoft hefur verið bent á, er þetta auðvitað alger misskilningur. Og auðvitað þarf að vera einhver yfirstjórn í þessu efni, sem hefur tök á því að skipta málum nokkuð jafnt á milli deilda. Það virðist ekki takast fullkomlega hjá hæstv. ráðh. og ríkisstj. og er það kannske afsakanlegt, að þeir hafa ekki þetta mjög í huga.

Þá kem ég að því, sem ég held, að sé eiginlega alveg óhjákvæmilegt að taka til nánari athugunar en hingað til hefur verið gert, og það er starfssvið forseta þingsins. Ég held, að forsetar þingsins, sem eiga að stjórna hér störfum og eiga að vera starfsnefnd fyrir þingið, þurfi að láta þessi mál miklu meira til sín taka en mér virðist þeir hafa gert til þessa. Og það er alveg spurning um það, hvort þeir ættu ekki að geta sagt til um það, hvernig stjfrv. væri skipt á milli deilda, þannig að það væru eðlileg hlutföll í því, úr því að verið er að halda í deildaskiptingu. Það má vel vera, að það sé nokkuð til í þeirri röksemd, sem hæstv. fjmrh. benti á, að það þætti eðlilegt, að þegar lögð væru fram frv. tilheyrandi sömu stjórnsýslugrein, eins og þessi menntamálafrv. nú eru, þá fengju þau samtímis athugun í sömu d. Þó verð ég að segja það, að ég efast mjög um, að þessi rök eigi að öllu leyti rétt á sér. Ég gæti freistazt til að halda, að þegar ein n. fær 3 eða 4 jafnviðamikil frv. eins og þar er um að ræða, þá gæti það stundum í reyndinni farið svo, að hún athugaði fyrsta frv. hvað ítarlegast, en léti svo e.t.v. hin sitja meira á hakanum. Ég efast um að það yrðu nokkuð óskynsamlegri vinnubrögð, að slíkum frv., þó að stundum geti þau verið skyld, væri í frumathugun skipt á milli deilda og á milli nefnda.

Ég vil svo að lokum benda á það, sem ég hef oft bent á áður og ég tel eina af meinsemdunum, sem hér eru ríkjandi í starfsháttum Alþ., en hún er sú, að stjórn þingsins er mjög misskipt. Með stjórn þingsins fer að öllu leyti, bæði að því er varðar forsetastjórn í deildum, formennsku og jafnvel ritarastörf í n., stjórnarmeirihluti eingöngu. En ýmsir mundu telja, að það væri ekki óeðlilegt, að eitthvert hlutfallssjónarmið kæmi þar til álita. Og í þeim þingum, þar sem ég þekki til bezt, eru það alveg viðtekin vinnubrögð, að stjórnarandstæðingar eigi aðild að forsetastjórn þingsins, eigi þar t.d. varaforseta og þessu sé skipt þannig á milli. Og auðvitað er engin ástæða til þess, að það sé alveg sjálfgefið, að formenn í öllum n. þingsins séu úr hópi stjórnarflokksmanna. Þar með er þeim gefin aðstaða til þess að ráða afgreiðslu mála. Ætli það gæti ekki orðið einhver annar svipur á störfum þingsins, ef stjórnarandstæðingar fengju að einhverju leyti aðild þarna að? Það gæti þá a.m.k. hugsanlega komið til greina einhver samanburður á milli nefnda. En aðalatriðið er það, að þessir starfshættir, að naumur stjórnarflokkameirihluti einoki stjórnaraðstöðu í þinginu, eru orðnir algerlega úreltir og frá þeim starfsháttum á auðvitað að hverfa sem allra fyrst.