28.10.1970
Sameinað þing: 6. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 2136 í B-deild Alþingistíðinda. (2276)

Úrsögn úr þingflokki

Karl Guðjónsson:

Herra forseti. Í gær skrifaði ég þingflokki Alþb. svo hljóðandi bréf:

„Alþingi, 27. okt. 1970. Til ítrekunar og skriflegrar staðfestingar á því, sem ég tjáði formanni þingflokks Alþb. í gærmorgun og þingflokksfundi síðdegis í gær, dreg ég hér saman þessi meginatriði:

Til Alþb. var upphaflega stofnað til að vinna að aukinni og bættri samstöðu hinnar verkalýðssinnuðu hreyfingar á Íslandi. Þetta hlutverk Alþb. hefur mér alltaf verið hugstætt, og þegar augljóst varð á síðustu árum, að til forráða í því voru komin öfl, sem greinilega unnu gegn þessum markmiðum, var það mér ekki að skapi. Gerði ég þó ýmsar tilraunir til að fá Alþb. til að taka forustu um að efla jákvæða samstöðu vinstri manna í landinu, en þær urðu allar að Íúta í lægra haldi fyrir valdi þeirra sundrungarmanna, sem m.a. höfðu uppi opinberar kröfur um það í Þjóðviljanum 1967, að af Alþb. yrðu höfð 40% löglegra atkv. þess í Reykjavík, af því að þann hóp töldu þeir vont Alþb.-fólk. Ekki tel ég ástæðu til að rekja allar tilraunir, sem í þessa átt fóru, en ég minni á síðustu till. mína og minna samherja í framkvæmdastjórn Alþb. til þess að freista þess að gera Alþb. trútt stefnuhlutverki sínu. Sú till. var þannig:

„Fundur í framkvæmdastjórn Alþb., haldinn 27. sept. 1968, samþykkir að gera alvarlega könnun á því, hverjir möguleikar kunna að vera á bættri samstöðu verkalýðssinna og vinstri manna í landinu, bæði á sviði hinnar almennu kjarabaráttu verkalýðsstéttanna og á vettvangi stjórnmálanna. Til þess að framkvæma þessa könnun kýs framkvæmdastjórnin nefnd, er taki þegar til starfa. Í þessu augnamiði verði leitað eftir samvinnu og/eða skipulagslegri einingu við Alþfl. og aðrar hreyfingar vinstri manna, sem til slíkra viðræðna væru fúsar. N. miði störf sín við það, að málið eða veigamiklir þættir þess verði tilbúnir til ákvörðunar á landsfundi þeim, sem ákveðinn hefur verið hinn 1. nóv. n. k., eila verði landsfundinum frestað.

Karl Guðjónsson. Magnús T. Ólafsson.

Guðjón Jónsson. Sigurður Guðgeirsson.“

Ekki var till. þessari sinnt í einu eða neinu, enda yfirráð Alþb. þá þegar komin í hendur þeirra afla, sem snúizt höfðu gegn upphaflega áformuðu hlutverki þess.

Nú fyrir fáum dögum sendir svo Alþfl. þingflokki Alþb. bréf, þar sem hann býður viðræður um stöðu vinstri hreyfingar á Íslandi. Bréf þetta las formaður þingflokks Alþb. mér í síma s.l. föstudagskvöld ásamt drögum að svarbréfi, sem hann hafði gert, og spurðist fyrir um samþykki mitt við svarið. Ég kvaðst vera því mótfallinn og taldi, að svara ætti jákvætt og gera allt, sem unnt væri, til að umr. þessar yrðu uppbyggilegar og efldu samstöðu vinstri manna. En fyrst og fremst taldi ég þó, að bréfið ætti að taka fyrir til umr. og afgreiðslu á þingflokksfundi. Bauðst formaður þá til að halda þingflokksfund kl. 11 á laugardagsmorgun. Tjáði ég honum, að ég gæti ekki komið til fundar á þeim tíma, þar eð ég hefði heitið mínum stéttarsamtökum, Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, því að vinna fyrir þau um helgina og væru fundir, sem ég yrði á, þegar boðaðir á Siglufirði laugardaginn 24. okt. og á Blönduósi sunnudaginn 25. okt., en strax eftir helgina væri ég reiðubúinn til þingflokksfunda. Lauk þar tali okkar. En þegar ég kom til Reykjavíkur að nýju, sé ég, að svarið hefur verið sent og birt í blaði þeirra ráðamanna Alþb. Átaldi ég formanninn fyrir þessi vinnubrögð og kvað það lágmarksrétt þm., að ekki yrði gengið fram hjá eindreginni ósk hans um þingflokksfund um stórmál, sem ekkert lá á að afgreiða með svona skjótum hætti. Tel ég, að þm., sem svo er lítilsvirtur í þingflokki sínum, að slíkri ósk hans er ekki anzað, hafi heldur ekki skyldur til að fara eftir samþykktum þess sama þingflokks og jafngildi þessi vinnubrögð því brottvísun þm. úr þingflokknum. Mun ég því ekki telja mig í þingflokki Alþb. hér eftir, en lita á mig sem þm. utan flokka. Kjósendum mínum, sem og öllum íbúum Suðurlandskjördæmis, mun ég eftir sem áður vinna allt það gagn, sem ég má, enda ber sundurþykkja mín og þingflokks Alþb. engan skugga á milli mín og þeirra. Ekki breytir hún heldur stjórnmálalegum hugmyndum mínum, utan hvað hún er að sjálfsögðu þáttur í lífsreynslu minni, og lífsreynslu skyldi enginn vanmeta.

Með kveðju,

Karl Guðjónsson.

Til þingflokks Alþýðubandalagsins.“

Herra forseti. Þetta er að vísu bréf til þingflokks Alþb., en eftir atvikum tel ég rétt og mér skylt að birta það á þingi.