28.10.1970
Sameinað þing: 6. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 2137 í B-deild Alþingistíðinda. (2277)

Úrsögn úr þingflokki

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Hv. 6. þm. Sunnl., Karl Guðjónsson, hefur sent þingflokki Alþb. það bréf, sem hann hefur hér lesið. Það barst mér reyndar í hendur nú fyrir nokkrum mínútum eða í upphafi þessa þingfundar, en það breytir engu fyrir mig. Bréfið kemur mér í rauninni ekkert á óvart, nema helzt það úr efni þess þar sem hv. þm. fer óumdeilanlega með rangt mál. Það hélt ég, að hefði verið búið að Íeiðrétta þannig við þm., að hann sæi ekki ástæðu til að endurtaka þær fullyrðingar hér á þennan hátt.

Það hefur legið ljóst fyrir, að Karl Guðjónsson hefur verið með nokkrum hætti sérstæður í okkar þingflokki nú um skeið. Hann hefur ekki viljað telja sig til okkar stjórnmálaflokks, Alþb., og staðið utan þess og verið opinberlega með ádeilur á flokkinn. Hann hefur neitað að vera í framboði áfram á vegum flokksins, og í mínum augum er því það, sem hér hefur gerzt, ekki annað en tylliástæða fyrir því, að hann segir sig nú hér formlega úr þingflokknum. En það kalla ég tylliástæðu að reyna að halda því fram, að við, sem með honum höfum verið í þingflokki, höfum vísað honum á brott úr þingflokknum með okkar starfsháttum.

Það rétta um það tilvik, sem hann hér minnist á, bréfið frá Alþfl., er, að það bréf, sem nú hefur verið birt í blöðum opinberlega og þingflokkur okkar fékk frá Alþfl., barst mér í hendur seint á fimmtudag. Við bárum okkur allir saman í þingflokki Alþb. um svar við þessu bréfi á föstudag, en allan föstudaginn reyndist ómögulegt að ná í Karl Guðjónsson, og það var ekki fyrr en þá um kvöldið, að tókst að ná tali af honum. Svarbréf okkar var lesið yfir honum eins og öðrum úr þingflokknum og honum tjáð, að við vildum svara bréfinu á þessa leið, sem einnig hefur komið fram opinberlega í blöðum. Viðbrögð hans voru þau, að hann sagðist vilja svara bréfinu á jákvæðari hátt en þar væri gert og hann hefði gjarnan viljað, að þingflokksfundur yrði haldinn um málið. Þá bauð ég honum strax upp á þingflokksfund, sem t.d. yrði haldinn kl. 11 á laugardagsmorgun, og eins og kemur fram í bréfi hans, sagði hann, að hann gæti ekki mætt þá á þingflokksfundi, vegna þess að á föstudagskvöld væri hann að fara norður í land og mundi ekki koma fyrr en eftir helgi. Ég gerði honum þá það alveg ljóst, að við teldum nauðsynlegt að svara bréfi Alþfl. strax, þar sem Alþfl. hefði birt bréf sitt til okkar opinberlega í Alþýðublaðinu á föstudag. Það fór því ekkert á milli mála hjá okkur, að Karl Guðjónsson skildi það, að við mundum svara bréfinu á þessa leið, og það var skýrt tekið fram við hann, að afstaða hans, sem var önnur en okkar, skyldi koma fram, ef hann óskaði eftir. Hann óskaði ekki eftir því, og á það legg ég áherzlu, — hann óskaði ekki eftir því, að það yrði beðið með að svara bréfinu til Alþfl., þar til þingflokksfundur yrði haldinn. En hitt gaf auðvitað auga leið, að þar sem við tókum fram, að við værum reiðubúnir til þess að mæta Alþfl. til viðræðna um það mál, sem hann óskaði eftir, en gætum hins vegar ekki mætt á þeim degi, sem Alþfl. hafði stungið upp á, þá þurfti að svara bréfinu tímanlega.

En hv. 6. þm. Sunnl., Karl Guðjónsson, hefur kosið að nota þetta tækifæri til þess að segja sig úr þingflokki Alþb., og við því er ekkert að segja. Það er algerlega hans mál. En það skal liggja ljóst fyrir, að það er hann, sem segir sig úr þingflokknum. Honum hefur ekki verið vikið, honum hefur ekki verið sýnd þar nein lítilsvirðing, honum hefur ekki verið neitað um neinn þingflokksfund og hann fer ekki úr flokknum af þeim ástæðum. En hitt er kannske öllum skiljanlegt, að maður, sem neitar að vera í ákveðnum stjórnmálasamtökum, neitar að bjóða sig fram á þeirra vegum og hefur uppi opinberar deilur gegn þeim stjórnmálasamtökum, kunni að hafa leitað eftir tækifæri til þess að segja sig úr þingflokki slíkra samtaka. Það hefur hv. þm. gert. Mér þykir leitt, að það skuli vera með þessum hætti, en við því er hins vegar ekkert að segja.