18.03.1971
Neðri deild: 64. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 2140 í B-deild Alþingistíðinda. (2280)

Hæstaréttardómur í handritamálinu

Forsrh. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Þetta er það fyrsta, sem ég heyri um niðurstöður dóms hæstaréttar í Danmörku í handritamálinu, en þegar við vorum á ríkisstjórnarfundi í morgun, var ekki gert ráð fyrir, að niðurstöður dómsins kæmu fyrr en síðar í vikunni og e.t.v. ekki fyrr en eftir helgina. Ég fagna að sjálfsögðu þessari niðurstöðu, en ég vek athygli á því, að þetta var ekki mál á milli Dana og Íslendinga, heldur aldanskt mál á milli handritastofnunarinnar og dönsku ríkisstj., hvort hún væri skaðabótaskyld gagnvart stofnuninni. Málið var því alla vega ráðið um afhendingu handritanna, hvernig sem þessi dómur hefði farið og því verða menn að gera sér grein fyrir. En hitt er rétt, að við stöndum í þakkarskuld við marga góða Dani, bæði fyrir góðvild og skilning í okkar garð í sambandi við meðferð þessa máls og þá sér í lagi við þjóðþingið og dönsku ríkisstj.

Ég vil minna á það, að fyrirrennari minn í starfi, forsrh. Bjarni Benediktsson heitinn, var einn af þeim mönnum, sem ég hygg að segja megi um með sanni, að hvað mest hafi lagt af mörkum til heillavænlegrar niðurstöðu þessa máls. Það var honum hugleikið áhugamál frá öndverðu, enda hafði hann mjög glöggan skilning og góða þekkingu á þeim sögulegu og vísindalegu verðmætum, sem hér var um að ræða.

Meðferð málsins milli danskra aðila fyrir dómi hefur tafið afhendingu handritanna. Stundum hef ég verið spurður að því í Danmörku á þessu tímabili, hvort Íslendingar væru ekki orðnir óþolinmóðir. Ég sagði, að svo væri ekki, við værum búnir að vera lengi án handritanna og gætum vel beðið nokkurn tíma enn, enda væri það almennur skilningur hjá Íslendingum, almenningi á Íslandi, að við létum okkur engu skipta þessa bið í málinu, við mætum meira þær ákvarðanir, sem gerðar hefðu verið af þjóðþinginu, og framkomu dönsku ríkisstjórnarinnar.

Ég sé ástæðu til þess að láta í ljós þakklæti fyrir það til almennings og blaða og annarra fjölmiðla hér á landi, að það hefur aldrei borið á því, að Íslendingar væru að láta í ljós neina óánægju yfir þessari töf. Hitt er svo eðlilegt, að nú fögnum við allir þeirri jákvæðu niðurstöðu, sem orðið hefur í þessu máli, sem er vissulega í samræmi við það, sem við vildum, að orðið hefði.