16.12.1970
Neðri deild: 34. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 331 í B-deild Alþingistíðinda. (230)

18. mál, kirkjuþing og kirkjuráð

Frsm. (Gunnar Gíslason):

Herra forseti. Eins og sjá má á þskj. nr. 216, sem er nál. menntmn. þessarar hv. d., leggjum við sex nm. til, að þetta frv. verði samþykkt, en einn hv. nm., hv. 6. þm. Reykv., lætur málið lönd og leið. Eins og hæstv. kirkjumálaráðh. gat um hér við 1. umr. málsins, er frv. flutt til staðfestingar á brbl., sem voru gefin út á s. l. sumri vegna kosninga til kirkjuþings, en eins og þm. muna, voru samþ. hér á síðasta þingi lög um breytta skipan prestakalla og prófastsdæma, en prófastsdæmin höfðu verið kjördæmi til kosninga til kirkjuþings, og það þótti rétt, að svo yrði áfram, eftir að breytingin var gerð á prófastsdæmunum. Það er aðalefni frv. að leggja til, að prófastsdæmin verði kjördæmi, þegar kosið er til kirkjuþings.

Enn fremur gerir frv. ráð fyrir því að gera kosningu varamanna auðveldari, þ. e. að aðalmaður og tveir varamenn séu kjörnir á einum og sama kjörseðli. Áður voru þeir kosnir sitt í hverju lagi, en nú er lagt til, að þeir séu kosnir á einum kjörseðli, og sá, sem er ritaður efstur á kjörseðilinn, fær heilt atkvæði, annar 2/3 hluta atkvæðis og sá þriðji 1/3. Þetta er efni þessa frv., og eins og ég sagði, leggur meiri hl. n. til, að það verði samþ., eins og það liggur fyrir.