11.12.1970
Efri deild: 29. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 332 í B-deild Alþingistíðinda. (236)

172. mál, almannatryggingar

Sjútvrh. (Eggert G. Þorsteinsson):

Herra forseti. Í Sþ. í gær var umræddu frv., sem hér er til umr., útbýtt. En eigi það að koma að þeim notum, sem til er ætlazt með flutningi þess, þá er nauðsynlegt, að það hljóti afgreiðslu nú fyrir áramót, ef vilji er til þess, sem ég vænti, að sé að fengnum þeim skýringum, sem fylgja í aths. um lagafrv.

Megintilefni þessa frv. er það í fyrsta lagi, að samkv. úrskurði ríkisskattanefndar frá 11. maí s. l. vor er það vefengt, að áratugagömul regla um álagningu á atvinnurekendur í sambandi við tryggingu starfsfólks hafi við lög að styðjast. Ég dreg það í efa. Þetta frv. — eða 1. gr. þess — gerir ráð fyrir því, að þessi áratugagamla regla, sem viðhöfð hefur verið, verði staðfest. Ég vil taka það skýrt og ákveðið fram, að hún þýðir í engu aukin álög á atvinnurekendur, nema síður sé, heldur staðfestir þá reglu, sem um áratugaskeið hefur verið fylgt í þessum efnum. Um þetta er fjallað í 1. og 2. gr. frv.

Tilefni 3. gr. frv. er það, að af lögfræðingum er dregið í efa, að sú heimild, sem í lögum er, að hækka megi bætur lífeyristrygginga almannatrygginganna miðað við hækkun grunnkaupstaxta fólks í fiskvinnu, eins og það er orðað þar, geti komið til framkvæmda, eins og til er ætlazt, með hálfsamþykktum fjárlögum, þ. e. fjárlögum eftir 2. umr., en í þeim er gert ráð fyrir 8.2% hækkun á lífeyrisbótum almannatrygginga um næstu áramót. Það þýðir, að á þessu ári hafi verið teknar þrjár ákvarðanir um hækkun bóta — í ársbyrjun 5.4%, í júní s. l. 20% og 8.2% miðað við fjárlögin, eins og þau eru nú við meðferð þeirra hér á Alþ. Við þetta yrði hækkun bóta á þessu tímabili orðin um 33.6%, og er það talið vafasamt, að ráðh. geti samkv. gildandi lögum, þar sem verður einungis að miða við grunnkaupstaxta, látið taka gildi þá 8.2% hækkun, sem fjárlögin gera í rauninni ráð fyrir. Þess vegna er orðinu „grunnkaupstaxta“ í núgildandi lögum breytt í dagvinnukaup.

Þetta er meginefni þessa máls, og eins og ég segi, flutt til að taka af öll tvímæli eða efasemdir um það, að ráðh. hafi umræddar heimildir í reglugerð, og í framtíðinni með gildistöku þessa frv. er ráðh. heimilt að miða við dagvinnukaupið, þ. e. bæði grunnkaupstaxtahækkun og vísitöluhækkun, sem kynni að verða á tilteknum tímabilum. Frv. er þess vegna ákaflega auðvelt meðferðar. Ég vænti þess, að sú hv. n., sem málið fær hér til umræðu, afgreiði það svo skjótt sem kostur er á, til þess að bægt sé að afgreiða málið fyrir jólaleyfi Alþ. í báðum deildum þess.

Ég legg til, herra forseti, að að lokinni þessari umr. verði frv. vísað til 2. umr. og hv. heilbr.- og félmn.