17.03.1971
Neðri deild: 63. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 9 í C-deild Alþingistíðinda. (2377)

133. mál, Fiskiðja ríkisins

Frsm. minni hl. (Lúðvík Jósefsson):

Herra forseti. Ég hef gefið út sérstakt nál., sem ekki er búið að útbýta enn þá, en kemur hér eflaust á næstu mínútum, en í því nál. legg ég til, að frv. verði samþ. óbreytt.

Aðalefni þessa frv. er það, að komið verði á fót sérstöku fyrirtæki á vegum ríkisins, sem reki verksmiðju til vinnslu úr ýmiss konar sjávarafla og að þetta fyrirtæki skuli bera nafnið Fiskiðja ríkisins. Megintilgangur með stofnun slíks fyrirtækis er sá, að það hafi á hendi forustu í tilraunastarfsemi og um allar nýjungar í rekstri á sviði hvers konar fiskvinnslu, hvort heldur sem er í frystingu, niðursuðu, niðurlagningu eða annarri vinnslu úr sjávarafla. Jafnframt er svo gert ráð fyrir því, að þetta fyrirtæki, Fiskiðja ríkisins, sem gæti annazt rekstur á allmörgum verksmiðjum víðs vegar á landinu, taki við stjórn og rekstri niðurlagningarverksmiðju ríkisins á Siglufirði. Í frv. er svo gert ráð fyrir því, að þessi stofnun fái allverulega fjárhags fyrirgreiðslu til að sinna sínum verkefnum og m.a. því, að ríkissjóður leggi fram 8 millj. kr. á ári í næstu 5 ár, til þess að þessi stofnun geti haldið uppi sinni tilraunastarfsemi og annazt markaðsöflun fyrir framleiðslu af þessu tagi.

Það er auðvitað alger misskilningur, að þetta frv. sé fyrst og fremst flutt til þess að leysa úr þeim vanda, sem niðurlagningar verksmiðja ríkisins á Siglufirði er í. Það hefði auðvitað verið hægt að vera búið að leggja fram hér frv. um rekstur þeirrar verksmiðju fyrir löngu síðan, eins og lofað hafði verið og leysa það mál eitt út af fyrir sig. En flm. þessa frv., sem hefur verið flutt hér nokkrum sinnum áður á vegum Alþb.—þm., telja, að hér sé um miklu stærra og meira verkefni að ræða, en aðeins rekstur einnar verksmiðju, sem fyrir er í landinu nú. Hér er um það að ræða að veita nýgræðingi í okkar framleiðslu nokkurn stuðning — þeim nýgræðingi, sem hefur verið að reyna að ryðja brautina á sviði niðursuðu og niðurlagningar og meiri fullvinnslu fiskaflans í landinu.

Við vitum það allir, að Íslendingar standa langt að baki flestum öðrum fiskveiðiþjóðum í því að fullvinna sinn fiskafla. Enn er það svo, að við sjóðum aðeins örlítið niður af okkar fiskafla og leggjum tiltölulega mjög lítið niður í dósir. Ég hygg, að heildarútflutningurinn á þessum vörum hafi numið rétt rúmlega 140 millj. kr. á s.l. ári, en hefði auðveldlega getað numið 1—2 milljörðum og hefði átt að gera það, ef við hefðum verið hlutfallslega jafnstórir í þessari grein, miðað við okkar framleiðslu í heild og t.d. frændur okkar Norðmenn eru á þessu sviði. Það liggja auðvitað ákveðnar ástæður til þess, að okkur hefur miðað svona seint í okkar fullvinnsluiðnaði. Eins og aðstæður eru hér, eru sáralitlar líkur til þess, að nokkuð rætist úr í þessum efnum, ef ekki kemur til veruleg forusta af hálfu ríkisins. Dreifðar og tiltölulega smáar framleiðslustöðvar hér og þar um landið ryðja ekki þá braut, sem þarna þarf að ryðja. Til þess eru engar líkur. Það gildir allt annað söluskipulag fyrir niðursuðuvörur og niðurlagningarvörur heldur en t.d. fyrir frystar eða saltaðar fiskafurðir. Niðursuðuvörur eru að jafnaði seldar í tiltölulega litlu magni í einu og dreifast alla jafna til mjög margra kaupenda, en hins vegar hefur sala á frystum fiskafurðum og söltuðum lengst af verið með þeim hætti hér hjá okkur, að við seljum þar heilu skipsfarmana í einu. Það er því enginn vafi á því, að hér þarf að byggja upp nýtt söluskipulag fyrir þessa framleiðslu og það söluskipulag hlýtur að kasta nokkuð mikið. Það verður ekki komizt inn á nýja markaði með þessa vöru, sem auðvitað er óþekkt í byrjun, nema lagt verði í mikinn auglýsingakostnað til þess að vinna vörunni álít. Ég sé enga leið til þess að komast yfir þennan vanda aðra en þá, að ríkið komi til og aðstoði þá, sem þegar eru byrjaðir á minni háttar framleiðslu á þessu sviði, veiti þeim fjárhagslegan stuðning og alveg sérstaklega stuðning á framleiðslu eða kunnáttusviði í sambandi við þessa framleiðslu.

Þó að lög verði sett hér um niðurlagningarverksmiðju á Siglufirði og sú verksmiðja að meira eða minna leyti leyst úr þeim mikla vanda, sem hún hefur verið í lengst af, þá er gefið mál, að heildarvandamálið, sem er að aðstoða niðursuðuiðnaðinn sem heild, stendur eftir óleyst. Og það er mjög hætt við því, að stuðningur ríkisins við eina verksmiðju út af fyrir sig, eins og niðurlagningarverksmiðjuna á Siglufirði, verði æríð mikill, ef á að vinna að málinu á þann hátt.

Það er alger misskilningur, sem hér kom fram hjá hv. frsm. meiri hl. sjútvn., að Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins geti tekið að sér þau störf, sem rætt er um í þessu frv. Sú stofnun er þannig uppbyggð, að það er ekki gert ráð fyrir því, að hún hafi neinn rekstur með höndum. Þar er um vísindastofnun að ræða — stofnun að ræða, sem veitir hinum einstöku fyrirtækjum vissa þjónustu eftir því, sem hún kemst yfir, en starfslið hennar er mjög fámennt. Hún getur gert minni háttar tilraunir og hefur tæki til þess, en hún hefur engin tæki til þess að taka upp neitt, sem gæti heitið framleiðsla á nýjum vörutegundum, svo að hægt væri að reyna að vinna slíkum vörum markað á grundvelli þess, að þar sé raunverulega um framleiðslu að ræða. Það er enginn vafi á því, að við þurfum á Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins að halda, þó að hér komi til rekstur af því tagi, sem gert er ráð fyrir með þessu frv., eða þó að hér kæmi upp allvíðtækur rekstur einstaklinga á sviði niðursuðu eða niðurlagningar eða annarrar fiskvinnslu. Við eigum ekki að blanda Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins inn í sjálfan reksturinn, enda mundi hún um leið missa það gildi, sem hún hefur nú sem hrein ríkis— og kontrolstofnun, sem gefur vottorð um framleiðslu hinna einstöku fyrirtækja, ef hún væri komin inn í reksturinn að meira eða minna leyti.

Ég hef oft minnzt á það áður, þegar þessi mál hafa verið rædd hér á Alþ., að það væri mín skoðun, að ekki yrði hægt að koma upp neinni teljandi niðursuðu og niðurlagningu hér í landinu án beinnar þátttöku ríkisins á einn eða annan hátt. Þetta þýðir þó ekki það, að ég geti ekki vel hugsað mér, að einstaklingsfyrirtæki taki þátt í þessari framleiðslu. Ég held, að það sé engin ástæða til þess að draga á neinn hátt úr því, að upp komi víðs vegar í landinu fyrirtæki á þessu sviði á svipaðan hátt og frystihús, sem ýmist eru rekin af samvinnufélögum, hlutafélögum eða beinlínis af einstaklingum, hafa risið upp. Ég tel sjálfsagt að hlúa að því, eins og hægt er, en það þarf ekki á neinn hátt að útiloka það, að ríkið hafi forgöngu í þessum efnum með því að styðja við bakið á slíkum rekstri, aðstoða hann í sambandi við markaðsöflun og leiðbeiningarstarfsemi. Það var einmitt það, sem gerðist á sínum tíma í sambandi við okkar frystiiðnað, þegar hann var að vaxa hér upp. Það höfðu þá að vísu nokkrir einstaklingar ráðizt í að koma upp frystihúsum og hefja þar nokkurn rekstur, en það var forganga ríkisins, sem réð úrslitum um það, að hér tók að vaxa að nokkru ráði hraðfrystiiðnaður í landinu og það tókst að byggja upp sölusamtök fyrir þennan iðnað. Ég gæti prýðilega fallizt á það, að þegar svo væri komið, að niðursuðu— og niðurlagningar framleiðslan væri komin verulega á legg og allmörg fyrirtæki væru starfandi í landinu, þá byggðu þau upp sölusamtök sín á milli, á svipaðan hátt og frystiiðnaðurinn hefur gert nú í dag og tækju þá að einhverju leyti í sínar hendur það verkefni, sem ríkið hefði haft á fyrstu og erfiðustu árunum. Það var einmitt þetta, sem gerðist í sambandi við frystiiðnaðinn. Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna yfirtók á sínum tíma þann rekstur, sem rekinn var af fiskimálanefnd á vegum ríkisins og sem ruddi brautina á sínum tíma í sambandi við frystiiðnaðinn. Ég held, að eins og högum háttar hjá okkur í þessum efnum og ef hér á að koma upp nokkur teljandi fullvinnsluiðnaður úr sjávarafla, þá sé nauðsynlegt að taka á málunum á svipaðan hátt og gert var í sambandi við frystiiðnaðinn. Ég veit, að þeir fáu aðilar, sem þegar hafa komið sér upp verksmiðjum til niðursuðu og niðurlagningar, eru nú allir í miklum vanda staddir einmitt í sambandi við það að ráða við markaðsmálin og geta fengið þá fyrirgreiðslu í sambandi við leiðbeiningar á vinnslu, sem þeir þekkja ekki allt of mikið til, eins og skiljanlegt er á fyrstu árum þessa reksturs hér. Þeir eru allir í vanda staddir í þessum efnum, og þeir eru á þeirri skoðun, að það sé nauðsynlegt að fá aðstoð frá ríkinu í einu eða öðru formi til þess að ráða fram úr þeim vanda, sem þessi iðnaður stendur í nú.

Ég held, að þeir fordómar, sem vissir aðilar hafa ævinlega á öllum ríkisrekstri, séu með öllu ástæðulausir í þessum efnum. Þó að komið yrði upp ríkisfyrirtæki af þeirri gerð, sem lagt er til í þessu frv., þá lokast það ekki á nokkurn hátt fyrir einstaklingunum að taka þátt í þessum rekstri. Á sínum tíma höfðum við hér og höfum reyndar enn, síldarverksmiðjur ríkisins. Þar var um mjög mikilvægan rekstrarþátt að ræða, en auðvitað varð það ekki til þess að loka á neinn hátt fyrir það, að einstaklingar gætu komið upp sínum síldarverksmiðjum og unnið í fullri og eðlilegri samkeppni við þetta ríkisfyrirtæki. En ég held líka, að það sé enginn vafi á því, að Síldarverksmiðjur ríkisins hafi á sínum tíma unnið mjög þarft verk í því að ryðja brautina í þessari vinnslu og sá stuðningur, sem verksmiðjurnar nutu frá ríkinu, var auðvitað afgerandi í þessum efnum.

Ég skal svo ekki hafa fleiri orð um þetta. Hér er greinilega um það að ræða, hvort menn aðhyllast það, að þörf sé á því, að stuðningur ríkisins komi hér til og það sé þörf á því að lyfta þessum iðnaði upp á hærra stig en nú er, eða hvort menn sætta sig við að búa við það ástand, sem við höfum búið við í þessum efnum að undanförnu og láta sér nægja að lifa í voninni um það, að eitthvað verði gert fyrir eina litla verksmiðju, sem nú er rekin á einum stað á vegum ríkisins.

Herra forseti. Ég legg til, að frv. verði samþ. óbreytt.