10.02.1971
Efri deild: 47. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 23 í C-deild Alþingistíðinda. (2393)

65. mál, orkulög

Páll Þorsteinsson:

Herra forseti. Ég vil láta í ljós ánægju yfir því, að hv. iðnn. hefur afgreitt þetta frv. Það má að vísu segja, að n. hafi með því einungis verið að inna af hendi skyldustarf, sem henni ber að gegna hér á hv. Alþ., en með tilliti til þeirrar skýrslu, sem gefin var hér fyrir nokkrum dögum í hv. d. um afköst þn. við afgreiðslu á málum, þá má telja það þakkar vert, að iðnn. hefur afgreitt þetta mál nú þegar og ekki látið það dragast lengur.

Það kemur í ljós, að n. hefur leitað umsagnar rafmagnsveitustjóra um þetta mál og er álitsgerð hans birt sem fskj. með nál. meiri hl. Ég tel þetta einnig vel farið og tel það ávinning að hafa fengið þetta þskj. birt hér á hv. Alþ. Ég hélt því fram, þegar ég mælti fyrir þessu máli við 1. umr., að það væri misræmi á milli þeirrar fjárhagsaðstoðar, sem þeir annars vegar ættu kost á, sem fengju rafmagn frá samveitum og hins vegar þeir, sem yrðu að leysa sín raforkumál með öðrum hætti og þetta. frv. miðaði að því að stíga spor í þá átt að draga úr þessu misræmi. Umsögn frá Rafmagnsveitum ríkisins staðfestir svo vel sem verða má, að þessi skoðun er rétt. Þar er það sett fram tölulega og á svo skýran hátt sem kostur er, að mínum dómi, í hverju þetta misræmi er fólgið. Og niðurstaðan er sú, að miðað við, að heimili noti 21 þús. kw.–stundir af raforku á ári, þá sé kostnaður bóndans við þessa orkunotkun frá samveitu 39.100 kr. á ári og það samsvari 1.86 kr. á hverja kw.–stund. Hjá þeim, sem aflar sér raforku með eigin mótorstöð, sé samsvarandi kostnaður 82.000 kr. á ári eða um 3.90 kr. á hverja kw.—stund. Og hjá þeim, sem aflar sér orku með eigin vatnsaflsstöð, þá geti þessi kostnaður verið allt frá 47.500 kr. til 95.000 kr. á ári, en það samsvari rafmagnsverði 2.25—4.50 kr. á kw.–stund. Í áliti rafmagnsveitustjóra kemur það einnig fram, að, að hans dómi komi það til álita að draga úr þessu misræmi á þann hátt, að samveitur verði lagðar víðar um land, en fram að þessu hefur verið fyrirhugað og þar segir, að Rafmagnsveitur ríkisins hafi gert frumáætlun um rafvæðingu sveitabýla frá samveitum, þar sem sé allt að 4 km vegalengd að meðaltali á milli býla og er niðurstaðan sú, að það muni kosta um 300 millj. kr., og er þá miðað við verðlag vorið 1970 og það, sem eftir stendur af rafvæðingu í byrjun ársins 1971. Tala býla er hér um 860 og er því stofnkostnaður á býli nálægt 350 þús. kr. til jafnaðar. Að þeirri rafvæðingu lokinni standa eftir um 200 býli utan samveitu. Þetta fer mjög í sömu átt og það, sem ég lét í ljós við 1. umr. þessa máls, en þá komst ég m.a. þannig að orð:

„Nú um þessar mundir er unnið að því að leggja rafmagnslínur, þar sem meðalfjarlægð milli notenda er 1—1 1/2 km. og það hefur komið fram í umr. hér á þingi, að stefnt er að því, að næsta skrefið í þessu efni verði að leggja línur um þau byggðarlög, þar sem meðalfjarlægð milli notenda er á bilinu 1 1/2—2 km.

Ég vil vona, að áður en mjög mörg ár líða verði stigin enn stærri skref í þessa átt og línur frá samveitum verði teygðar lengra út um landsbyggðina heldur en á þau svæði, þar sem fjarlægð er 2 km eða minna. En eins og þessi mál horfa nú og jafnvel þó að gengið yrði eitthvað lengra í því að leggja línur frá samveitum, heldur en menn hafa nú sett sér að marki, þá verða samt sem áður byggðarlög á ýmsum stöðum á landinu, sem ekki geta fengið rafmagn á þennan hátt. Og þetta litla frv., sem hér er til umr., miðar að því að bæta aðstöðu þeirra heimila eða þeirra byggðarlaga, sem svo eru í sveit sett.“

Ég fagna því, að það kemur nú ótvírætt fram hjá forstjóra Rafmagnsveitna ríkisins, að hann vill fyrir sitt leyti vinna að því, að samveitur verði lagðar víðar heldur en á þau svæði, þar sem meðal fjarlægð milli notenda er 2 km eða minni. Hann hefur verið að gera sér grein fyrir, eins og áður kom fram, að leggja skuli línur í allt að 4 km meðal fjarlægð milli notenda. Þetta er alveg nýtt og ég man ekki, að það hafi komið fram fyrr hér á hv. Alþ., að fyrirhugað væri að stiga skrefið svo stórt. Ef þetta yrði gert, þá fækkaði að vísu þeim, sem yrðu utan samveitusvæða, en samt sem áður yrði þar um 200 býli að ræða. Í þessu kemur að mínum dómi fram víðsýni hjá þeim embættismanni, sem hér á í hlut. En sá er ljóður á, að valdið til þess að ráða framkvæmd þessara mála er ekki í hans höndum. Og þess vegna er ekki óeðlilegt, að alþm. spyrji: Er hér einungis um óskhyggju að ræða, eða eru hér fyrirætlanir, sem skoða má raunhæfar?

Þá kemur það einnig fram í áliti rafmagnsveitustjórans, að um leið og nýtt mark er sett í þessum efnum, sé full ástæða til að kanna, með hvaða hætti hægt er að fjármagna samveitur og jafnvel hvort hægt er að fjármagna á sama hátt rafvæðingu á tilteknum, einangruðum svæðum — einangraðar samveitur. Í þessum efnum kemur til greina, segir rafmagnsveitustjóri, samhjálp eða samstaða alls raforkuiðnaðarins, vinnsla, dreifing og sala, hliðstætt því, sem nú er hér á landi í málefnum síma, hljóðvarps og sjónvarps. Í mjög mörgum löndum Evrópu er komið á slíkri samstöðu í raforkuiðnaðinum og í öðrum löndum stefnir þróunin í sömu átt. Ég tel þessi ummæli mjög athyglisverð og þetta sé holl ábending hv. þm. til handa, því að ég fæ ekki betur séð, en sú stefna hafi verið uppi hér á hv. Alþ. af hálfu þess meiri hluta, sem úrslitum mála ræður, að torvelda það eða ganga framhjá því, að raforkuiðnaðurinn sé allur rekinn sem ein heild. Í stað þess að ríkið eigi hin stærstu raforkuver sem að sjálfsögðu skila mestum hagnaði inn í raforkuiðnaðinn, þá er skipulagið að verða þannig hjá okkur á þessu sviði, að eignaraðildinni sé skipt á milli margra aðila og ríkið sitji kannske einungis uppi með þær rafmagnsveitur og þau svæði á landinu til orkudreifingar, þar sem minnst von er á hagnaði. Mér sýnist þess vegna, að miðað við þessa heildarstefnu, sem fram kemur í raforkumálum, sé kannske meiri, ástæða en ella, til þess að samþykkja þetta litla frv., sem hér liggur fyrir.

Að lokum vil ég benda sérstaklega á, að þó að þetta frv. verði samþ., þá kemur það ekki í bága við fyrirætlanir um, að samveitur nái víðar heldur en þegar hefur verið ákveðið, vegna þess að í lagagr., sem þetta frv. er stílað inn í, er það skýrt tekið fram, að lán til einkastöðva séu veitt á þeim svæðum, sem samveitum er ekki ætlað að ná til í náinni framtíð og það er orkuráð og e.t.v. einnig ráðh., sem endanlega verður að samþykkja sérhverja lánveitingu af þessu tagi úr orkusjóði, en það eru sömu aðilar ríkisvaldsins og þeir, sem eru að gera áætlanir um, hvar samveitur eigi að leggja. Ég endurtek það, að ég sé ekki, að samþykkt á þessu frv. fari á nokkurn hátt í bága við þær fyrirætlanir, sem kunna að vera uppi um samveitur. Mér sýnist því, að afstaða minni hl. n. til þessa máls sé alveg rökrétt og eðlilegt sé að samþykkja þetta mál. Meiri hl. leggur hins vegar til, að þessu sé vísað til ríkisstj. til nánari athugunar. Nú er það svo, að hér er einungis um það að ræða að ákveða lánakjör sem hlutfall af stofnkostnaði. Þessar hlutfallstölur eru bundnar í lögum og ekki getur ríkisstj. breytt þeim á sitt eindæmi, þannig að hér er um hreint löggjafar atriði að ræða og svo einfalt, að það á að vera mjög auðvelt fyrir hv. þm. að taka afstöðu til þess, án þess að fyrir liggi nánari athugun á því af hálfu ríkisstj. Mér virðist því, að eins og málið er, sé það ekki alls kostar rökrétt að afgreiða frv. á þann hátt að vísa því til ríkisstj.

Ég vil svo að lokum endurtaka það, sem ég sagði í upphafi, að ég læt í ljós ánægju yfir því, hvernig hv. iðnn. hefur unnið að þessu máli, og vil þakka henni fyrir það.