19.11.1970
Efri deild: 19. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 34 í C-deild Alþingistíðinda. (2406)

84. mál, hlutdeild starfsmanna í stjórn atvinnufyrirtækja

Flm. (Jón Þorsteinsson):

Herra forseti. Ég flyt ásamt hv. 5. landsk. þm. lagafrv. það, sem hér er til umr., sem fjallar um hlutdeild starfsmanna í stjórn atvinnufyrirtækja. Ákvæði frv. taka einvörðungu til hinna stærri fyrirtækja eða m.ö.o. þeirra fyrirtækja, sem mesta þýðingu hafa fyrir atvinnulíf okkar. Stærð fyrirtækjanna er hér metin eftir starfsmannafjölda og miðað við starfsmannátöluna 50 eða fleiri, en vitanlega er sú tala matsatriði.

Rekstrarform atvinnufyrirtækja hér á landi er með ýmsu móti. Algengast er hlutafélagaformið, þar sem hluthafarnir, eigendur fjármagnsins í félaginu stjórna fyrirtækinu og ráða starfsemi þess. Oftast eru hlutafjáreigendurnir í hverju fyrirtæki eða eigendur að meiri hl. hlutabréfanna mjög fámennur hópur, en þessir fáu menn geta þó haft öll ráð fyrirtækisins í sinni hendi. Fjármagnið ber að meta að verðleikum, en áhrif þess mega ekki vera svo sterk, að aðrir þættir framleiðslunnar séu í reynd áhrifalausir. Þegar litið er til atvinnufyrirtækja, sem rekin eru á hlutafélagsgrundvelli, þá hlýtur sú spurning að vakna, hvort réttlátt sé til frambúðar að láta hluthafana eina, sem fjárhagslega séð bera ekki persónulega ábyrgð á rekstrinum, ráða svo miklu, en starfsmenn fyrirtækjanna engu, sem hljóta þó að hafa verulegra hagsmuna að gæta um það, hvernig fyrirtæki er rekið og hvernig því vegnar. Reyndar er það svo, að fjármagn atvinnufyrirtækja, sem rekin eru af hlutafélögum, kemur iðulega aðeins að litlu leyti frá hluthöfunum sjálfum, heldur er það fengið að láni frá bönkum og öðrum opinberum sjóðum, stöku sinnum að vísu með persónulegri ábyrgð hluthafa. Það er því sparifé almennings, sem hlutafélögin og ýmis önnur atvinnufyrirtæki í landinu hafa til ráðstöfunar. Lánastofnanir í landinu munu nú gera meira af því en áður, að fylgjast með rekstri og afkomu atvinnufyrirtækja, sem þær lána fé til og er það vel. Lánastofnanir geta líka sett ýmis skilyrði fyrir lánveitingum, skilyrði um uppbyggingu fyrirtækjanna og endurbætur á rekstri þeirra. Þannig má segja, að lánveitingavaldið hafi tök á því að öðlast nokkurn íhlutunarrétt um stjórn og rekstur fyrirtækjanna, en hér er það eins og áður fjármagnið eitt sem ræður, en vinnan kemur þar ekki við sögu.

Annað rekstrarform atvinnufyrirtækja hérlendis, sem er talsvert notað, er samvinnufélagaformið. Samvinnufélögin eru um margt frábrugðin hlutafélögunum. Samvinnufélögin eru opin öllum, sem fullnægja tilteknum skilyrðum. Félagsmenn samvinnufélags eru því að jafnaði miklu fleiri, en félagsmenn hlutafélags. Í samvinnufélagi njóta allir félagsmenn réttar á félagsfundum, en í hlutafélögunum er rétturinn misjafn og miðast við hlutafjáreign. Menn geta ekki selt og keypt rétt til þátttöku í samvinnufélagi á sama hátt og hlutabréf ganga kaupum og sölum. Markmið samvinnufélaganna er að eiga viðskipti við félagsmenn sína og efla hagsæld þeirra með því að veita þeim hagstæð viðskiptakjör. Í reynd eiga þó samvinnufélög margháttuð viðskipti við utanfélagsmenn. Áhrif fjármagnsins á stjórn og rekstur samvinnufélaga eru ekki eins sterk og áberandi og hjá hlutafélögunum, en í báðum tilvikum eiga starfsmenn fyrirtækjanna enga aðild að stjórn þeirra.

Þriðja rekstrarformið, sem ég geri hér að umtalsefni, eru svo opinberu fyrirtækin, sem eru í eigu ríkis og sveitarfélaga. Hér á ég að sjálfsögðu við atvinnufyrirtæki, en ekki þjónustustofnanir, þótt glögg skil séu þar ekki ávallt á milli. Opinberu fyrirtækin á að mínu viti að reka á hliðstæðan hátt og vel rekin einkafyrirtæki, þ.e.a.s. þau eiga að skila hagnaði, þjóna vel hagsmunum viðskiptavina sinna og vera samkeppnisfær, þar sem um samkeppnisaðstöðu er að ræða. Opinberum fyrirtækjum er að jafnaði stjórnað af nefndum, ráðum og stjórnum, sem kosnar eru af sveitarstjórn eða Alþ. eða skipaðar af ríkisstj. Stjórnendur fyrirtækjanna eru því fulltrúar almannavaldsins, en starfsmenn fyrirtækjanna eiga ekki aðild að stjórn þeirra fremur en fyrirtækja, sem rekin eru af hlutafélögum og samvinnufélögum. Hvert sem rekstrarform atvinnufyrirtækis er, þá er viðhorf starfsmanna til þess svipað. Þeir líta á fyrirtækið sem vinnuveitanda sinn, þeir hafa áhuga á, að fyrirtækið dafni og geti veitt þeim varanlega atvinnu og búið þeim góð launakjör. Þeir líta á það sem mikinn ávinning, að öðlast hlutdeild í stjórn þess.

Efni þessa frv. er í stuttu máli það, að starfsmenn atvinnufyrirtækja, sem hafa að jafnaði 50 starfsmenn eða fleiri í þjónustu sinni, eiga rétt á að kjósa einn fulltrúa úr sínum hópi í stjórn fyrirtækisins til viðbótar þeim stjórnarmönnum, sem skipaðir eru eða kjörnir á annan hátt. Eigi skiptir máli í þessu sambandi, hvort fyrirtæki er rekið af hlutafélagi, samvinnufélagi, ríki eða sveitarfélagi, en réttur starfsmanna til að kjósa fulltrúa í stjórnina er þó að sjálfsögðu bundinn við fyrirtæki, er lúta sérstakri stjórn eða stjórnarnefnd. Fulltrúi starfsmanna í stjórn fyrirtækis á að njóta þar sömu réttinda og aðrir stjórnarmenn, þar með talinn atkvæðisréttur á stjórnarfundum og samkv. frv. skal félmrn. með reglugerð setja fyllri ákvæði um framkvæmd l. og skera úr ágreiningi, sem upp kann að koma.

Svo sem í grg. með frv. segir, er það markmið frv. að styrkja aðstöðu launastéttanna í atvinnulífinu gagnvart eigendum fjármagnsins, að dreifa hinu efnahagslega valdi og auka samábyrgð vinnuveitenda og launþega. Það er ljóst, að í hendi stjórnenda hinna stærri atvinnufyrirtækja er mikið efnahagslegt vald saman komið. Er ekki rétt að dreifa þessu valdi með því að fá launþegum í hendur beina hlutdeild að því? Er ekki skynsamlegt að gera launþegana samábyrga vinnuveitendum um rekstur atvinnufyrirtækjanna? Mundi slík ráðstöfun eigi líkleg til að skapa gagnkvæmt traust og setja niður kjaradeilur? Eiga ekki starfsmennirnir rétt á að hafa aðgang að sem öruggustum upplýsingum um hag og afkomu fyrirtækis, er þeir vinna hjá? Er ekki sennilegt, að þekking þeirra og reynsla kæmi að góðum notum við stjórn fyrirtækisins? Er það ekki sameiginlegt hagsmunamál eigenda og starfsmanna eins fyrirtækis, að því sé sem bezt stjórnað?

Öllum þessum spurningum ber að svara játandi og á þeirri afstöðu byggist flutningur þessa frv. Við, sem þetta frv. flytjum, gerum okkur þess ljósa grein, að hér er um algert nýmæli að ræða, þar sem eigi er við neina reynslu að styðjast. Af þeim sökum er mikið vandaverk að semja lagareglur um þetta efni og mörg álitamál rísa. Ég nefni sem dæmi það ákvæði 2. gr. frv., að fulltrúi starfsmanna í stjórn atvinnufyrirtækja skuli kosinn til eins árs í senn. Hér kæmi vel til álita að kjósa hann í hverju tilviki til jafnlangs tíma og aðra stjórnarmenn, en kjörtími stjórnarmanna í atvinnufyrirtækjum getur verið ærið misjafn eftir því, hvers konar fyrirtæki um er að ræða.

Annað dæmi má nefna. Í frv. er hugtakið atvinnufyrirtæki ekki skilgreint, enda getur það verið torvelt, einkum þegar um ríkisstofnanir er að ræða. Samkv. frv. mundi félmrn. skera úr ágreiningi um þetta efni. Með þessu frv. er í raun réttri lagt til, að gerðar verði breytingar á l. um hlutafélög og l. um samvinnufélög, svo og l. um einstök ríkisfyrirtæki. E.t.v. er ekki nægilega vel um þessa hnúta búið í frv. Með hliðsjón af þessum atriðum erum við flm. frv. fúsir til að endurskoða einstök ákvæði frv. og fallast á lagfæringar og breytingar, svo framarlega sem grundvallarhugsun frv. verði ekki raskað. En hvað sem því líður, er það skoðun mín, að hvernig sem lög um þetta efni yrðu úr garði gerð í upphafi, þyrfti óhjákvæmilega að endurskoða slíka löggjöf innan fárra ára í ljósi reynslunnar.

Ég hef ekki undir höndum neinar skrár yfir íslenzk atvinnufyrirtæki og starfsmannafjölda þeirra. Því vil ég leyfa mér að nefna nokkur atvinnufyrirtæki, sem ég tel líklegt, að féllu undir ákvæði frv., ef að lögum yrði, en þau eru þessi: Eimskipafélag Íslands, Loftleiðir, Álverksmiðjan í Straumsvík, Flugfélag Íslands, Álafoss, Slippstöðin á Akureyri, Skipaútgerð ríkisins, Sementsverksmiðjan, Áburðarverksmiðjan, Sláturfélag Suðurlands, Bæjarútgerð Reykjavíkur, Útgerðarfélag Akureyringa, olíufélögin, Samband ísl. samvinnufélaga og öll stærstu kaupfélög landsins. Þau fyrirtæki, sem hafa 50 starfsmenn eða fleiri í þjónustu sinni, eru þó að sjálfsögðu miklu fleiri. Það er lausleg ágizkun mín, að af samþykkt þessa frv. mundi leiða, að um það bil 10 þús. launþegar í landinu yrðu aðnjótandi hlutdeildar í stjórn atvinnufyrirtækja.

Herra forseti. Ég legg svo til, að þessu frv. verði vísað til 2. umr. og hv. heilbr.- og félmn.