19.11.1970
Efri deild: 19. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 39 í C-deild Alþingistíðinda. (2408)

84. mál, hlutdeild starfsmanna í stjórn atvinnufyrirtækja

Sveinn Guðmundsson:

Herra forseti. Frv. það, sem hér er flutt um hlutdeild starfsmanna í stjórn atvinnufyrirtækja, er algert nýmæli hér á landi og þótt víðar væri leitað. Mér finnst ekki aðeins, að frv. orki tvímælis, heldur að það sé fráleitt og hugsunin bak við frv. vægast sagt lítið grunduð. Í 1. gr. frv. er tekið fram, að frv. taki til atvinnufyrirtækja, er hafi að jafnaði yfir árið 50 starfsmenn eða fleiri, sama að sjálfsögðu hvort um er að ræða hlutafélög, samvinnufélög eða atvinnurekstur ríkis eða sveitarfélaga, enda lúti fyrirtækin sérstakri stjórn eða stjórnarnefnd. Sem dæmi má nefna einkarekstur, sem verður ekki líklega þess stjórnarmanns aðnjótandi, við skulum segja einkarekstur, þar sem einn eigandi eða einn stjórnandi er að fyrirtækinu. Þar er um enga stjórnarnefnd að ræða. Mér er ekki kunnugt um, að sérstakar stjórnarnefndir séu við skulum segja hjá samvinnufélögunum. Er það ekki þannig, að forstjórinn rekur viðkomandi verksmiðjur án stjórnarnefndar, eða er þá ætlunin hjá hv. flm., að t.d. einn fulltrúi frá starfsmönnum hverrar verksmiðju SÍS, sem hefur yfir 50 starfsmenn að meðaltali yfir árið, fái sæti í stjórn Sambandsins í þeim tilfellum, að viðkonnandi verksmiðja lúti ekki sérstakri stjórn?

Í 2. gr. frv. eru ákvæði um kosningu stjórnarfulltrúa viðkomandi atvinnufyrirtækis, að slíkt kjör skuli fara fram í janúar–febrúar ár hvert. Nú er það svo um mörg atvinnufyrirtæki, að þau starfa aðeins hluta úr árinu. Rekstur sumra fyrirtækja er enginn eða nær enginn, þegar þessi árlega kosning á að fara fram. Sem dæmi má nefna síldarverksmiðjurnar á Norður– og Austurlandi, þegar þær voru í mestum blóma. Flutningur starfsmanna hér á landi milli atvinnufyrirtækja er líklega margfalt meiri heldur en víða annars staðar, sem m.a. veldur hinn árstíðabundni atvinnurekstur landsmanna. Hætt er því við, að umskipti slíkra stjórnar meðlima yrðu ekki síður ör og undir hælinn lagt, hvaða tilgangi slíkt ætti að þjóna, að nýir menn kæmu í stjórn fyrirtækjanna jafnvel án þekkingar og reynslu á rekstrinum eða starfsemi félaganna. Ef þetta er virkilega hugsun flm., er þá ekki einnig hugsun þeirra, að atvinnurekstur eða stjórnendur stærri fyrirtækja, sem hafa t.d. 50 starfsmenn að meðaltali á ári, fái sína fulltrúa í viðkomandi launþegafélögum? Mér er nær að halda, að það hljóti að vera rökrétt hugsun í framhaldi af þessu. Að t.d. útgerðarmaður fiskibáta, eins og annar flm. þessa frv., fengi aðild að stjórn þess frystihúss, sem þeir skipta við, t.d. ef hann leggur upp ákveðið aflamagn á ári. (JÁH: Maður er mjög feginn.) Ég skil það ósköp vel. Ég tel, að lýðræðið á vinnustað sé málefni, sem aðilar vinnumarkaðarins eiga sjálfir að semja um, eins og gert hefur verið á Norðurlöndum, þó ekki í þessu formi, heldur með samstarfsnefndum, en löggjafinn sé ekki aðili til að setja um það fastskorðuð lög eða reglur, eins og hér er kveðið á um, enda mjög dregið í efa, að slíkt samræmist íslenzkri stjórnarskrá. Enn þá er eignarréttur virtur á Íslandi og hér er gengið of langt í takmörkun hans. Fulltrúi launþega í stjórn á þar atkvæðisrétt um meðferð fjármála annarra manna, en á enga fjárhagsábyrgð að bera sjálfur né heldur hans umbjóðendur. Ég fæ ekki séð, að slík aðild launþega að stjórnun fyrirtækja fái samrýmzt eignarréttarhugmyndum Íslendinga almennt og rétti vinnuveitenda til þess sjálfir að ákvarða og stjórna sínum atvinnurekstri.

Þar sem fyrirkomulag í átt við það, sem hér er hugsað, hefur verið reynt í lýðfrjálsum löndum, hefur það gefizt vægast sagt misjafnlega. Hitt er svo annað mál, að persónulega tel ég æskilegt, að með breyttum aðstæðum yrði stofnað til samstarfsnefnda launþega og vinnuveitenda hinna stærri og meðalstórra fyrirtækja. Þar mundu vinnuveitendur, fulltrúar þeirra og fulltrúar launþega ræða málefni fyrirtækisins, vinnuskilyrði og ýmsan aðbúnað á vinnustað, nýmæli í rekstri og vinnubrögðum og fyrirhugaða stefnu stjórnenda í málefnum atvinnufyrirtækisins. Þannig mundu fulltrúar starfandi launþega fá tækifæri til að kynnast afkomu fyrirtækisins, vandamálum og framtíðarhorfum, leggja orð í belg og koma sínum sjónarmiðum á framfæri og að sjálfsögðu kæmi vinnuveitandinn sínum sjónarmiðum á framfæri, ekki síður þeim, sem snúa að launþeganum. Og af því að ég minntist á samstarfsnefndir, þá má upplýsa það, að á Norðurlöndum, t.d. í Danmörku, hafa slíkar nefndir starfað í stærri atvinnufyrirtækjum um 25 ára skeið og eflaust margt gott af því samstarfi hlotizt. Enn fremur má upplýsa, að fyrir tug ára var stofnað til nefndar milli heildarsamtaka vinnuþiggjenda og vinnuveitenda hér á landi, Alþýðusambandsins og Vinnuveitendasambandsins, einmitt til þess að gera till. um samstarfsnefndir innan atvinnufyrirtækja. Í þeirri nefnd áttu sæti, ef ég man rétt, núv. menntmrh., Gylfi Þ. Gíslason, og hv. 6. þm. Sunnl., Karl Guðjónsson. Frá þessum tíma liggur einmitt fyrir till. um reglur um samstarfsnefndir, sem að mínum dómi væri sú rétta leið, sem aðilar vinnumarkaðarins ættu sjálfir að athuga nánar.

Herra forseti. Ég skal ekki andmæla því, að þetta frv. fái þinglega meðferð og sé vísað til n. Það eru hins vegar tilmæli mín til þeirrar n., sem fær frv. til umsagnar, að leitað sé álits sem flestra, sem málið varðar, bæði beint og óbeint, einnig að n. kynni sér rækilega þá annmarka, sem slík lagasetning hefur gagnvart íslenzkri stjórnarskrá.