19.11.1970
Efri deild: 19. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 48 í C-deild Alþingistíðinda. (2411)

84. mál, hlutdeild starfsmanna í stjórn atvinnufyrirtækja

Jón Árm. Héðinsson:

Herra forseti. Aðeins nokkur orð, en þó einkum til þess að þakka þær undirtektir, sem frv. hefur fengið hjá tveimur hv. þm. Ég tel mjög mikilvægt að fá þennan stuðning, vegna þess að mér sýnist þá, að það sé upphaf að byr í gegnum þingið fyrr eða síðar, með hvaða hætti svona mál kunna að skipast, en það mun tíminn leiða í ljós. Hitt er mikilvægt og það veit hv. 7. landsk. þm., að vel er fyrirtækjum stjórnað eða bezt, sé gott samstarf á milli launþeganna eða starfsmanna í fyrirtækjum og forstjóra og stjórnar og við teljum, flm., að það sé spor fram á við, því að vissulega eru í dag mjög margir hæfir menn til stjórnunar, sem eru beinir launþegar og starfsmenn fyrirtækja, mjög vel þjálfaðir menn. Þeir hafa líka vaxið upp í fyrirtækjunum og þekkja betur gang mála í fyrirtækjum, heldur en forstjórinn. Það verður bara að viðurkennast: Og í stórfyrirtækjum er gífurlega þýðingarmikið og fer sívaxandi, að tengsl starfsfólksins við framkvæmdastjóra og stjórn sé góð, þetta séu ekki aðilar, sem ná varla til hvers annars. Í dag í þessum stóru vaxandi fyrirtækjum er stjórnunin og ráðstöfun hennar á fjármunum og framkvæmd vinnu eitt af grundvallaratriðum þess, að fyrirtækið geti gengið vel.

Ég tel, að með því að gefa hinum óbreyttu launþegum í fyrirtækinu aðild að stjórn sé stigið spor fram á við.

En það er auðvitað vandamál að koma því fyrir og við eigum eftir að reka okkur á ýmis atriði, sem eru erfið í framkvæmd. En ég tel, að það sé skynsamleg stefna. Og ég vil minna á það, að eftir margra ára baráttu fengu sjómenn sinn fulltrúa í stjórn Síldarverksmiðja ríkisins. Ég veit ekki annað, en það hafi verið talin skynsamleg ráðstöfun. Þetta er grundvallaratriðið, sem ég legg áherzlu á og ég held, að þetta atriði eigi vaxandi skilningi að mæta víða um lönd. Framkvæmdin getur svo hér á Íslandi, vegna þess að fyrirtæki eru upp byggð með sérstökum hætti, orðið erfið. Og ég vil taka undir þau orð hv. 7. landsk. þm., að við þurfum að leita umsagnar sem allra víðast. Það er nauðsynlegt. En ég held, að það sé spor fram á við að leysa með aðild að stjórn af hálfu launþeganna ýmis vandamál, sem koma upp og sérstaklega, þegar fyrirtæki eru að stækka, því að mörg fyrirtæki hafa stækkað hér blessunarlega vel, en hafa kennt margra vaxtarverkja. Og ég er þeirrar skoðunar, að með því að hafa tök niður í starfsliðið í gegnum svona mann leysum við sumt af þessum vandamálum.

Nei, grundvallaratriðið er, að við fáum hér eitthvað, sem þokar okkur áleiðis í betri stjórnun og atriði, sem leysir mörg vandamál, sem koma upp. Það mun tíminn sýna fyrr eða síðar, að þetta er gott.

Ég vil ekki fara að karpa um ýmis önnur smáatriði, með hvaða hætti og hverjir eiga að stjórna og hvernig þessi fulltrúi skal vera kjörinn. Það er vandamál, hvaða starfssvið hann hefur, en 1. flm., 3. landsk. þm., bent á það, að í stjórn fyrirtækja ræður auðvitað meiri og minni hl. og það þarf að setja þessum hugsanlega fulltrúa ákveðið svið eða taka það fram, með hvaða hætti hann á að sitja fundina, en engu að síður tel ég þetta æskilegt spor. Fyrirtæki hér á Íslandi eru ekki mjög mörg með yfir 50 manna starfslið, en þó nokkur og ég veit um það, það hefur komið fram hér, að t.d. .eitt fyrirtæki, sem ríkissjóður hefur lagt mikið lið, það er Álafoss, þyrfti sannarlega að hafa oft og tíðum, eftir því, sem ég hef heyrt, góð tengsl við sitt starfslið. Það er eitt einfalt dæmi. Mörg önnur hefðu gott af því að hafa betri tengsl við sína starfshópa, þó að minni væru.

Ég vil sem sagt þakka fyrir þær undirtektir, sem þetta frv. hefur fengið. Við flm. erum þess meðvitandi að margt þarf að athuga í sambandi við málið. Ég tek undir orð 1. flm., að það er rétt að fara hægt af stað. Aðalatriðið er, að við stefnum hér að framkvæmd mála, sem er til hagsbóta fyrir atvinnulífið í landinu.