10.03.1971
Efri deild: 61. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 49 í C-deild Alþingistíðinda. (2413)

84. mál, hlutdeild starfsmanna í stjórn atvinnufyrirtækja

Frsm. (Jón Árm. Héðinsson) :

Herra forseti. Heilbr.-– og félmn. hefur fjallað um frv. um hlutdeild starfsmanna í stjórn atvinnufyrirtækja á fundum hjá sér og þar var sameiginleg niðurstaða þeirra, er viðstaddir voru, að leggja til, að frv. verði vísað til hæstv. ríkisstj. Nokkrar umr. urðu um þetta mál og leitað var umsagna þriggja aðila vinnumarkaðarins: Vinnuveitendasambands Íslands, sem leggst gegn frv. og segir orðrétt, með leyfi forseta:

„Vér teljum, að fyrrgreint frv. eigi ekki að samþykkja, enda mun það ekki í samræmi við skoðanir fleiri aðila vinnumarkaðarins, sem mest hafa um málið fjallað.“

Stjórn Sambands ísl. samvinnufélaga var einnig sent frv. Þeirra afstaða er jákvæð um hugmyndina um samstarf og að reyna að finna lausn á sambandi milli stjórnenda eða eigenda og launþega og rekja þeir það nokkuð í bréfi til n., en segja að lokum:

„Samkvæmt þessu hefur framkvæmdastjórn Sambandsins nú mál þetta til meðferðar. Hefur því að sjálfsögðu ekki verið tekin ákvörðun um, á hvern hátt Samband ísl. samvinnufélaga telur heppilegast að leysa þessi mál, en það kemur fram, að þeir eru helzt næst hugmyndinni um samstarfsnefndir.“

Í svari ASÍ kemur fram, að miðstjórnin fagnar auknum skilningi og áhuga á þessu mikilvæga máli, sem kemur fram í ofangreindu frv., en segir svo síðar í bréfinu:

„Miðstjórnin telur vænlegra, að málið þróist hér á líkan hátt og átt hefur sér stað á Norðurlöndunum, einkum í Noregi, með samstarfsnefndum í fyrirtækjum og atvinnugreinum.“

Þessu til viðbótar vil ég geta þess, að í Osló var haldin ráðstefna dagana 2.–4. nóv. s.1., þar sem 5 þátttakendur frá íslenzka vinnumarkaðinum eða aðilar vinnumarkaðarins áttu kost á að sitja og taka þátt í umr. og með leyfi forseta, ætla ég að nefna örstutta umsögn í grg., lesa örstutta grg. Þar segir orðrétt:

,Það er sameiginlegt álit íslenzkra þátttakenda, að tímahært sé orðið, að heildarsamtök vinnumarkaðarins marki ákveðna stefnu í samstarfsmálum vinnuveitenda og launþega og hefjist handa um undirbúning málefnasamnings þeirra á milli þar að lútandi. Að dómi þátttakenda yrði það vænlegra til árangurs, að samtök vinnumarkaðarins tækju frumkvæðið á þessu sviði, heldur en að löggjafinn gripi í, án þess að reynt yrði til fullnustu, hvort samningaleiðin er fær eða ekki.“

Það kemur í ljós, eða kom fram á þessari ráðstefnu að í Noregi hafa menn hallazt að því, að í stórfyrirtækjum ríkisins væri eðlilegt, að launþegarnir ættu aðild að stjórninni, en hins vegar eru uppi skoðanir um það, að þegar um einkafyrirtæki er að ræða, þá væri lausnin á hinum svokölluðu samstarfsnefndum. Vegna þess að mismunandi hugmyndir eru um þetta form, komst heilbr.— og félmn. að þeirri niðurstöðu sameiginlega, eins og ég nefndi áðan, að rétt væri að vísa þessu frv. og því efni, sem það fjallar um, til hæstv. ríkisstj. og er hér með lagt til, að svo verði gert.