10.03.1971
Efri deild: 61. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 51 í C-deild Alþingistíðinda. (2415)

84. mál, hlutdeild starfsmanna í stjórn atvinnufyrirtækja

Steingrímur Hermannsson:

Herra forseti. Mér sýnist með þessu frv. hreyft mjög merku máli, sem ég tel, að þurfi að huga vel að. Ég stend hér upp til þess að beina því til flm. og þá hæstv. ríkisstj., en hún fær málið til meðferðar, hvort ekki sé rétt að taka þetta einnig til athugunar í sambandi við ýmsar stofnanir á vegum hins opinbera. Ég get skýrt frá því hér, að þetta er mjög á dagskrá t.d. í sambandi við rannsóknastofnanirnar, sem hafa fjölda manna í sinni þjónustu og svo er vitanlega um fleiri stofnanir og hefur komið fram ákveðinn vilji frá starfsmönnum að fá aðild að stjórnun slíkra stofnana. Mér sýnist, að það mætti vel fylgjast með þeirri athugun, sem gert er ráð fyrir, að þarna fari fram.

Ég vil annars lýsa stuðningi mínum við till. n., nál., að þessu sé vísað til hæstv. ríkisstj. Þetta er mjög í mótun núna og þarf eflaust að athuga vel, hvernig þessu verður hentugast fyrir komið og ég er raunar dálítið efins um það, að það beri að binda það í lögum fyrir stofnanir allar, þetta er dálítið breytilegt frá einni stofnun til annarrar og væri að mörgu leyti æskilegra, að það væri ekki svo fast bundið, heldur nokkur samningsréttur eða ákvörðunarréttur hjá einstökum stofnunum og fyrirtækjum í þessu sambandi. En fyrst og fremst vildi ég vekja athygli á sem sagt öðrum stofnunum en atvinnufyrirtækjum.