10.03.1971
Efri deild: 61. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 51 í C-deild Alþingistíðinda. (2416)

84. mál, hlutdeild starfsmanna í stjórn atvinnufyrirtækja

Ólafur Jóhannesson:

Herra forseti. Þegar þetta mál var hér til 1. umr., lýsti ég fylgi mínu við þá hugmynd, sem þetta frv. byggist á. Nokkrir aðrir létu svipaða skoðun í ljós. Ég held, að það megi draga þá ályktun af þeim umr., sem fram fóru við 1. umr. þessa máls, að það sé meirihluta fylgi hér við þá stefnu, sem þetta frv. er byggt á. Hins vegar kom það fram við þessa 1. umr. einnig, að sjálfsagt þyrfti þetta frv. ýmiss konar athugana við og það væri ekki séð fyrir öll atriði, sem gætu komið upp í sambandi við þetta mál í þessu frv. Og var á það bent m.a., ef ég man rétt, af hv. 4. þm. Norðurl. e., sem benti á ýmis atriði, sem þyrftu að koma til athugunar í þessu sambandi. Og ég er þeirrar skoðunar, að þetta mál þurfi athugunar við. Það sé ekki auðvelt að setja löggjöf um þetta í skyndi. Þess vegna get ég alveg fallizt á þá till. í þessu máli, sem hv. n. gerir, að málinu sé vísað til ríkisstj. En það er nú nokkur reynsla fyrir því hér, hvað það þýðir, að máli sé vísað til ríkisstj. Því miður þýðir það nú í mörgum tilfellum, að það sé svona heldur vægari dauðdagi fyrir mál, heldur en að fella það beinlínis. En ástæðan til þess, að ég stóð hér upp er sú, að ég vil undirstrika það og leggja áherzlu á það, að ég met þessa afgreiðslu í ljósi þess, sem komið hefur fram við þær umr. um þetta mál, sem hér hafa farið fram, þannig að það sé virkilega gert ráð fyrir því, að ríkisstj. taki þetta mál til meðferðar og láti athuga það og undirbúa frv. um þetta efni til þess að leggja fyrir Alþ. Og ég hefði að vísu kosið, að það hefði komið skýrar fram í nál. og mér sýnist, að það hefði mátt gera það miðað við þær undirtektir, sem þetta mál hefur fengið hér.

Auðvitað hef ég síður en svo á móti því, að það sé beðið eitthvað með þetta á meðan athugun fer fram á málinu af hálfu vinnumarkaðarins og það er sjálfsagt að gefa þeim tóm til þess. En ég get tekið undir orð hv. 1. flm., 3. landsk. þm., að ég er nú hræddur um, að það geti orðið nokkuð seinfarin leið í þessu efni, ef það á að bíða alveg eftir því, að aðilar vinnumarkaðarins komi sér saman um þetta mál og a.m.k. má draga þá ályktun af því, sem hér hefur komið fram frá þeim heildarsamtökum vinnumarkaðarins í sambandi við vinnuveitendur, sem vitnað var til hér áðan. Ég held, að þeir séu ekki viðbúnir því að eiga í samningum um þetta mál. Ég held þess vegna, að það verði að horfast í augu við það, að löggjöfin verði að láta þetta mál til sín taka og marka í því stefnu, fyrr getur verið álitamál, hvernig þær reglur eiga nánar að vera og hversu ítarlega hann á að fara út í það. En ég held sem sagt, að það hafi komið hér fram, að það er meirihluta fylgi við þá hugmynd, sem þetta frv. er byggt á og þá er nokkuð til í því, sem hér hefur verið bent á, að hér er vissulega um tvo aðila að ræða, sem standa atvinnurekanda megin, það eru annars vegar ríkið og opinber fyrirtæki, sem reka ýmis fyrirtæki og stofnanir,— og svo hins vegar einkafyrirtæki. Ég held, að það væri ekkert fjarri lagi, að ríkið og hin opinberu fyrirtæki gengju hér á undan með góðu fordæmi og að það væri mörkuð sú stefna þar, að hafa þann hátt á, sem gert er ráð fyrir í þessu frv., að starfsmenn við þau fyrirtæki fengju með einhverjum hætti hlutdeild í stjórn þessara fyrirtækja.

En að endingu vil ég enn undirstrika það, sem var aðal tilefni þess, að ég stóð hér upp, að ég skil þessa afgreiðslu alveg á ákveðinn hátt, ég skil hana sem jákvæða afgreiðslu nefndarinnar og að málinu sé vísað til ríkisstj. með þeim tilgangi, að, að því sé unnið eitthvað í þá stefnu, sem í þessu frv. felst.