10.03.1971
Efri deild: 61. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 52 í C-deild Alþingistíðinda. (2417)

84. mál, hlutdeild starfsmanna í stjórn atvinnufyrirtækja

Jón Árm. Héðinsson:

Herra forseti. Ég vil undirstrika það, sem kom fram hjá síðasta ræðumanni, að ég skil afgreiðsluna og þann anda, sem var í n., sem jákvæðan gagnvart þessum hugmyndum, hins vegar kom það fram, að þetta væri í mótun. Það væri ekki rétt að knýja fram ákveðnar hugmyndir, ef hægt væri að ná frjálsum samningum, sem væru nokkuð í þeim anda, sem frv. gerir ráð fyrir. Eðlilega verða alltaf skiptar skoðanir um það, hversu langt á að ganga og ég vil einmitt taka undir þá hugmynd ræðumanns, að ríkið, hið opinbera, hafi forustu í þessum efnum. Það er að gerast í Noregi, það er að gerast í Noregi varðandi hinn opinbera þátt og það er örugglega fyrirmynd, sem við gætum leitað nokkuð til. Hitt verður alltaf deiluatriði, hversu langt á að ganga, þegar einkaaðilar eiga hlut að máli. En ef ég man rétt, þá var í áramóta grein hæstv. forsrh. fjallað um þetta nokkuð og ég skil hans skrif svo, að hann a.m.k. persónulega sé því mjög hlynntur og vitnaði í eldri sjálfstæðismenn, sem töldu þetta mikilvæga mál til þess að leysa samstarf atvinnuveitenda og launþega í fyrirtækjum. Þannig að ég held, að það fari ekki á milli mála, að þessi hugmynd fær byr og í trausti þess lögðum við það til, að hæstv. ríkisstj., sem væntanlega verður mynduð að kosningum loknum á eðlilegan hátt, — hver hún verður vitum við auðvitað engin, á þessu stigi, — taki þetta alvarlega til athugunar.

Og áður en ég fer hér úr ræðustól vil ég líka lýsa stuðningi mínum við hugmynd 3. þm. Vestf. einmitt um það, að það sé athugað gaumgæfilega, að þessar stóru opinberu stofnanir, þó að þær séu ekki beinir atvinnuveitendur sem slíkir, gefi mönnum kost á því, að það sé athugað, að mönnum sé gefinn þar kostur á því að eiga aðild að stjórn þessara stofnana, en stjórnarmenn þessara stofnana eru oft kosnir pólitískt eða eftir tilnefningu vissra hagsmunahópa og venjulega eiga launþegarnir, sem oft eru margir tugir, þar engan forsvarsmann eða aðila í stjórn. Sem sagt niðurstaðan verður sú, að þessar hugmyndir eiga örugglega jákvæðan stuðning og í trausti þess leggjum við til, að þessu máli verði vísað til hæstv. ríkisstj.