08.03.1971
Neðri deild: 58. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 55 í C-deild Alþingistíðinda. (2424)

144. mál, námslán og námsstyrkir

Frsm. meiri hl. (Benedikt Gröndal) :

Herra forseti. Menntmn. hefur haft til meðferðar 144. mál, sem er frv. til l. um breyt. á l. um námslán og námsstyrki, flutt af Magnúsi Kjartanssyni og Þórarni Þórarinssyni. Samkv. þessu frv. mundi l. um námslánasjóð verða breytt, eins og segir í 1. gr. og sett tímamark fyrir því, hvenær sjóðurinn geti fullnægt allri fjárþörf námsmanna umfram tekjur þeirra. N. hefur fengið álitsgerðir um þetta, sem minni hl. prentar með áliti sínu, en meiri hl. menntmn. hefur gert till. um, að málinu verði vísað til ríkisstj.

Fyrst eftir að námslánasjóður tók til starfa, mun hann aðeins hafa getað veitt námsmönnum aðstoð, sem svaraði til rúmlaga 30% af því, sem talið var vera umframfjárþörf þeirra. Síðan hafa orðið stórstígar framfarir á þessu sviði og nú munu lán þessi nema 64–66% af umframfjárþörf, enda þótt tala þeirra, sem lánanna njóta, hafi einnig hækkað mjög mikið og sé nú um 1.700. Veturinn 1969—1970 óskaði menntmrh. þess við stjórn Lánasjóðs íslenzkra námsmanna, að hún athugaði, hve mikið fé sjóðurinn mundi þurfa til að geta náð marki laganna á skólaárinu 1974–1975 miðað við óbreytt verksvið. Till. sjóðsstjórnar um fjárveitingar fyrir skólaárið 1970—1971 voru við þetta miðaðar og veitti Alþ. nægilegt fé til að stíga þetta skref þá.

Undanfarin ár hefur starfssvið þessa sjóðs aukizt mjög mikið. Í upphafi náði það aðeins til Háskóla Íslands, erlendra háskóla, tækniskóla og hliðstæðra erlendra stofnana. Síðan hafa lögin verið, látin ná til Tækniskóla Íslands, Kennaraskóla Íslands, framhaldsdeildar Búnaðarskólans á Hvanneyri og flugvirkjanema. Munu 10—-12% af fjárþörfinni í ár stafa af útvíkkun kerfisins síðan 1967. Það er verksvið þessa sjóðs, m.ö.o. til hvaða námsmanna aðstoð hans skuli ná, sem kalla má hið alvarlegasta óleysta verkefni í sambandi við sjóðinn. Um þetta verksvið eru skiptar skoðanir og allstórir hópar námsmanna knýja nú dyra hjá sjóðnum og óska eftir því, að starfsemi hans verði útvíkkuð og látin ná til þeirra. Bent er á það, að það sé allmikið misræmi í því að geta enga aðstoð veitt nemendum í efsta bekk menntaskóla, en geta veitt þeim strax næsta ár sem 1. árs nemendum í háskóla mikla hjálp — nú 2/3 af umframfjárþörf og fer hækkandi. Það er bent á það, að sumir nemendur Tækniskólans njóti fullrar aðstoðar, en aðrir engrar. Það er bent á, að stúdentar í kennaranámi njóti þar engrar aðstoðar. Það hefur verið á það bent, m.a. hér á Alþ., að nemendur Stýrimannaskólans og Vélskólans njóti þarna engrar aðstoðar, sem væri þó eðlilegt, að þeir fengju.

Af þessu verður ljóst, að það er enn þörf á að endurskoða námslánakerfið og athuga, hvort hægt er að útvíkka það og þá til hve stórra hópa, eða hvernig hægt er að leysa vandamál þeirra aðila, sem ég nú nefndi og sjálfsagt ýmissa annarra. Enda þótt fyrir liggi skýrt mörkuð stefna sjóðsstjórnar og menntmrh. um að veita þeim, sem þegar eiga aðgang að sjóðnum, fulla aðstoð eigi síðar en 1974–1975, þá telur meiri hl. menntmn. ekki hyggilegt að lögfesta slík réttindi um 100% aðstoð við þá, sem nú njóta þessa sjóðs, á meðan svo margir knýja dyra og fá þar enga aðstoð, þótt stundum sitji þessir nemendur í sama skóla og stefni að svipuðu eða sama marki. Af þessum sökum er það till. meiri hl. menntmn., að frv. verði á hinn vinsamlegasta hátt vísað til ríkisstj.