08.03.1971
Neðri deild: 58. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 56 í C-deild Alþingistíðinda. (2425)

144. mál, námslán og námsstyrkir

Frsm. minni hl. (Magnús Kjartansson):

Herra forseti. Við alþm. erum býsna vanir því, að hæstv. ráðh. séu ósparir á fögur orð, þegar við spyrjum þá um almenna afstöðu þeirra til ýmissa vandamála, t.d. í fyrirspurnatímum Alþ. Fyrr á þessu þingi spurði ég hæstv. menntmrh. um stefnu hans og hæstv. ríkisstj. að því er varðar aukið fjármagn til Lánasjóðs námsmanna. Hæstv. ráðh. greindi frá því, að með síðustu fjárveitingu ætti það að vera tryggt, að sjóðurinn gæti fullnægt þörfinni að 2/3, og hann taldi, að með þeim hraða, sem nú væri kominn á fjárveitingar til sjóðsins, ætti að vera hægt að ná því marki á næstu þremur árum, að sjóðurinn fullnægði þeim upphaflegu kröfum, sem til hans voru gerðar, þ.e. að hann stæði straum af árlegum námskostnaði, þegar eðlilegt tillit hefði verið tekið til aðstöðu nemenda til fjáröflunar. Hæstv. ráðh. sagðist telja, að, að þessu marki bæri að stefna, þ.e.a.s. halda þeim vaxtarhraða á fjárveitingum til sjóðsins, sem markaður hefur verið í fjárlagafrv. fyrir árið 1971. Þetta taldi hæstv. ráðh. vera sína stefnu og væntanlega hefur hann mælt þetta í umboði hæstv. ríkisstj. En hæstv. ráðh. benti réttilega á það, að það væri komið undir ákvörðunum Alþ., hvort hægt væri að framkvæma þessa stefnu. Mér þótti rétt að taka hæstv. ráðh. á orðinu og láta á það reyna, hvort það væru heilindi á bak við þessi almennu ummæli og því flutti ég ásamt hv. þm., Þórarni Þórarinssyni, þessa litlu brtt. við frv. til l. um námslán og námsstyrki, þar sem ákveðið er að halda einmitt þessum vaxtarhraða, sem hæstv. ráðh. mælti með, svo að sjóðurinn gæti fullnægt allri fjárþörf námsmanna með þessum fyrirvörum, sem getur um í l., á skólaárinu 1974—-1975. Þetta var sem sé einvörðungu till. um það, að Alþ. féllist á þessa stefnu menntmrh.

Ég verð því að segja, að ég varð ákaflega undrandi, þegar það kom í ljós, að meiri hl. menntmn., þm. Sjálfstfl. og Alþfl., lögðust gegn því, að þetta frv. yrði samþ. og þeir leggja í staðinn til, að því verði visað til hæstv. ríkisstj. Sem sé, málsmeðferðin er þessi, að fyrst kemur hæstv. ráðh. hér og segir: Þetta er undir ákvörðun Alþ. komið, við getum ekkert í þessu ákveðið í ríkisstj. nema Alþ. taki sína ákvörðun: Og síðan á Alþ. að koma og segja: Við getum ekki tekið neina ákvörðun, við vísum þessu til ríkisstj. Þegar ég benti á þetta í n., þá komst hv. þm., Eysteinn Jónsson, svo hnyttilega að orði, að spyrja, hvort ég kynni ekki boltaleik. Og það er einmitt það, sem þarna er að gerast, þarna er verið að iðka boltaleik, leikaraskap í alvarlegu máli. Það kemur sem sé í ljós, að það var engin alvara á bak við þessi ummæli hæstv. menntmrh., því að ef honum hefði verið alvara með þetta, ef hann hefði haft eitthvað á bak við sig, þegar hann mælti þessi orð hér, þá hefði hann að sjálfsögðu tryggt það, að þetta frv. yrði samþykkt.

Hv. þm. Benedikt Gröndal kom með þær aths. við þetta frv., að það væru ákaflega margir, sem ekki hefðu aðgang að Lánasjóði námsmanna og sem vissulega þyrftu á mikilli fjárhagsaðstoð að halda. ,Þetta er alveg rétt. Við erum rétt aðeins að byrja á þessari fjárhagsaðstoð við námsmenn. Okkur vantar t.d. algerlega kerfi fyrir bilið eftir grunnskóla samkv. hinni nýju skipan og fram að háskólanámi. Nemendur á þessu skeiði þurfa tvímælalaust á fjárhagsaðstoð að halda, bæði þeir, sem verða að fara frá heimilum sínum og stunda nám annars staðar og eins þeir, sem búa við erfiðan fjárhag á heimilum sínum. Við verðum að koma með kerfi til þess að leysa þennan vanda. Þetta hefur verið gert í allríkum mæli í nágrannalöndum okkar, t.d. í Svíþjóð, Danmörku, Noregi og Finnlandi. Þar er búið að koma upp slíku kerfi og við komumst ekki hjá því að gera þetta. .Fyrir þessu þingi liggur raunar frv. um upphaf að slíku kerfi um sérstakan námskostnaðarsjóð. Það er meira að segja á dagskrá deildarinnar í dag. En í sambandi við það mál hefur gerzt hið sama. Stjórnarþm., hv. þm. ríkisstj. í menntmn., hafa lagt til, að einnig því frv. verði vísað til ríkisstj. Það er enginn raunverulegur áhugi á því að leysa það mál heldur, ekki einu sinni að hefjast handa um það. Hins vegar á að nota vanda þessara nemenda, sem eru í menntaskólum og ýmsum hliðstæðum skólum og heyra ekki undir reglurnar um Lánasjóð námsmanna, sem röksemd gegn því, að Lánasjóður námsmanna fái meiri fjárveitingar. Þetta eru auðvitað engin rök. Það eru engin rök gegn því, að Lánasjóður námsmanna fái auknar fjárveitingar, að það séu aðrir námsmenn, sem séu enn verr staddir, því að það er ekki nokkur minnsta trygging fyrir því, að ríkisstj. ætli að veita neitt fé til þeirra þarfa og raunar fæst nú vitneskja um hið gagnstæða með afstöðu hennar til frv. um námskostnaðarsjóð.

Þessu frv. var vísað til þriggja aðila til umsagnar, eins og kemur fram á þskj. minni hl. n. Stúdentaráð Háskóla Íslands lýsir yfir stuðningi við ofangreint lagafrv. svo langt sem það nær. Samband ísl. námsmanna erlendis fagnar frv. og leggur enn einu sinni áherzlu á samþykkt þess,- og Lánasjóður íslenzkra námsmanna segir að lokum :

„Að sjálfsögðu vill stjórn Lánasjóðs ísl. námsmanna leyfa sér að láta í ljós þakklæti sitt til hins háa Alþingis fyrir væntanlegt samþykki þess á till. til fjárlaga fyrir sjóðinn á næsta ári jafnfram því, sem hún væntir þess, að hið háa Alþ. og ríkisstj. muni á næstu árum tryggja, að hinu umtalaða markmiði l. um námslán og námsstyrki, sem grundvöllur hefur nú verið lagður að, verði náð á næstu 3–4 árum.“

Sem sagt, þessir þrír aðilar fallast allir á efni þessa frv. Það er enginn aðili, sem mælir gegn því nema hv. stjórnarþm. Við skulum vissulega gera okkur það ljóst, að þó að fjárveitingar verði auknar í sjóðinn að þessu marki, sem frv. gerir ráð fyrir, þá fer því mjög fjarri, að vandi námsmanna sé leystur. Þar blasa við mikil og víðtæk verkefni engu að síður. :Ég er t.d. þeirrar skoðunar, að það fái ekki staðizt til frambúðar, að þessi sjóður byggi eins mikið á lánum og hann hefur gert. Lánabyrði sú, sem menn eru með að loknu löngu námi, er ákaflega þung. Og hún er ein af forsendum þess, að það eru gerðar kröfur um mjög há laun fyrir þá menn, sem hafa orðið að stunda langskólanám. Þessar kröfur eru eðlilegar, þegar svona þungir baggar eru lagðir á menn á námsárunum. Þetta hlutfall er miklu óhagstæðara hér á Íslandi, en það er í ýmsum grannlöndum okkar. Þar er veitt mun meira af styrkjum, heldur en við gerum og ég er þeirrar skoðunar, að næsta verkefni okkar í sambandi við þennan sjóð hljóti að verða það að breyta þessu hlutfalli, þannig að styrkupphæðirnar hækki hlutfallslega í samanburði við lánin, svo að þessar ofurþungu byrðar skulda hvíli ekki svo þungt á námsmönnum að loknu námi. Það er sem sé ekki verið að leggja til með þessu frv., að allur vandi verði leystur í einu vetvangi. Það er aðeins verið að leggja til, að stigið verði skref, sem er núna innan seilingar og sem hæstv. menntmrh. mælti með fyrr á þessu þingi.