08.03.1971
Neðri deild: 58. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 61 í C-deild Alþingistíðinda. (2428)

144. mál, námslán og námsstyrkir

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Mér þykir vænt um, að í þessari seinni ræðu hv. þm. skuli hafa kveðið við nokkuð mildari tón en í þeirri fyrri. Nú dró hann enga dul á það, að það væri mikið ánægjuefni, að ríkisstj. skuli hafa tekið myndarlegar, en nokkru sinni fyrr, á málaleitunum stjórnar Lánasjóðsins nú á þessu ári. Hann hefði gjarnan mátt bæta því við, finnst mér, að það væri líka ánægjuefni, að alveg skýlausar og skýrar yfirlýsingar hafa verið gefnar um það, að áfram skuli halda á þeirri braut, sem nú er í fyrsta skipti mörkuð, á árinu 1971 og ná þannig því markmiði, sem óskað hefur verið eftir, á 3—4 árum. Ég held a.m.k., að námsmenn telji þetta vera ánægjuefni og hafi enga rökstudda ástæðu til að ætla annað en hvaða ríkisstj., sem kemur hér til með að sitja að völdum að loknum næstu kosningum, muni fylgja þessari ótvíræðu og skilyrðislausu yfirlýsingu, sem ég hef gefið fyrir hönd núv. ríkisstj. Það er auðvitað mergurinn málsins fyrir námsmennina.

Hitt teljum við skylt að leiðrétta. Í fyrsta lagi ummæli hans um það, að ég og fleiri ráðh. hafi farið hér með hótanir í garð námsmanna fyrir atburði, sem áttu sér stað erlendis og hann, að því er mér skildist líka, taldi hana hafa verið óheppilega og óæskilega, einkum og sér í lagi fyrir námsmennina sjálfa. Það, sem hann hlýtur að eiga við í þessu efni, var það, að sa.a daginn og .nokkrir stúdentar ruddust inn í sendiráðið í Stokkhólmi og tóku það herskildi var borin fram fsp. til mín hér í fjarvist utanrrh., hvað hefði gerzt þennan morgun í Stokkhólmi. Ég hafði haft fregnir af því fyrir hádegi og um hádegis leitið og gaf um það skýrslu, eins og ég var beðinn um og mín sjálfsagða skylda var. Í þeirri ræðu lét ég í ljós þá skoðun, sem ég hafði þá og hef enn, að þessa atburði bærí mjög að harma, þeir væru mjög vítaverðir og það væri skoðun mín, að þessir stúdentar hefðu síður en svo orðið landi sínu til sóma, heldur þvert á móti vakið á sér og því óheppilega athygli. Því bæri tvímælalaust að harma slíkan atburð, og .ég óskaði þess, að til annars slíks kæmi ekki aftur síðar. Sem betur fer dró ekki til neinna jafn alvarlegra tíðinda öðru sinni, en um samkomuhald á víðavangi og nálægt opinberum sendiráðum var að ræða.

Ég man ekki, hvort þm. notaði óeirðir um þetta, en af það er ekki rétt, þá leiðrétti ég það hér með, en þann grundvallar misskilning vildi ég leiðrétta, að þetta háttalag mjög takmarkaðs hóps íslenzkra námsmanna erlendis hafi haft nokkur minnstu áhrif á afstöðu ríkisstj. til lánamála stúdenta og nokkur minnstu áhrif á niðurstöðu þeirra mála. Sannleikurinn er sá, að áður en til nokkurra slíkra aðgerða kom, þá hafði ég tjáð stjórn Lánasjóðsins vilja ríkisstj. í þessum efnum, og meðan á óeirðunum stóð, ef ég má nota það orð aftur — meðan á þessum aðgerðum íslenzkra námsmanna erlendis stóð, þá beið ég eftir till. stjórnar Lánasjóðsins. Þær urðu siðbúnar vegna þess, að málið var mjög flókið. Það tilboð, sem ég hafði gert stjórn Lánasjóðsins með vitund ríkisstj., að við vildum verða við þessum tilgreindu óskum hennar, kostaði mikla vinnu og mikla útreikninga af hálfu sjóðsstjórnarinnar. Sú vinna tók miklu lengri tíma en ég hafði reiknað með. En það leið mjög stuttur tími frá því, að ég fékk endanlegar till. sjóðsstjórnarinnar, þangað til það var afgreitt af hálfu ríkisstj. og rn. Því miður man ég ekki dagsetningar í þessum efnum, en ég hef skýrt frá þeim á Alþ. áður. Raunveruleg ákvörðun um stefnuna í málinu var tekin, áður en nokkur aðgerð hófst erlendis og á þeim tíma, sem aðgerðirnar fara fram, þá er stjórn Lánasjóðsins hérna heima að vinna að útreikningum í sambandi við lausn málsins og það tók lágmarkstíma að taka endanlega afstöðu til málsins í rn., af því að ríkisstj. var áður búin að taka efnisákvörðun í málinu.

Því má svo bæta við, að heildarniðurstaðan varð sú, að námsmenn við Háskólann hér heima fengu meiri bót á hlut sínum heldur en námsmenn erlendis fengu. Nú er það vitað, að námsmenn hér heima beittu allt öðrum baráttuaðferðum, en sá tiltölulega litli hópur, sem forustu hafði um það, sem gerðist við erlend sendiráð. Ef þetta væri rétt, sem hv. þm. var að fullyrða, að ríkisstj. hafi látið undan þessum mótmælaaðgerðum við sendiráðið af ótta við það, sem þá gerðist, eða framtíðina, þá skyldi maður halda það, að tilhneiging hafi verið til að gera meira fyrir stúdentana erlendis, en stúdentana hér heima, sem höfðu barizt friðsamlega og kurteislega undantekningarlaust. En efni málsins var það, og það var eitt af því, sem tafði verk Lánasjóðsins, að gera það endanlega upp við sig, hvert skyldi vera hlutafallið á milli stúdentanna hér heima og stúdentanna erlendis. Og niðurstaðan varð sú, að hún lagði til, að meiri bót skyldi verða í þágu stúdentanna heima heldur en erlendis. Þetta til viðbótar hnekkir algerlega því, sem hv. þm. var að halda fram um þetta efni.

Hitt vil ég svo líka segja, að jafn fjarri því og það kvað vera mér að láta aðgerðir stúdentanna erlendis hafa einhver áhrif á það, hversu mikla bót þeir fengju, þá var það jafnfjarri mér að láta þá gjalda þess, hvernig nokkur hluti þeirra hegðaði sér, sem ég engan veginn taldi heppilegt. M.ö.o., þessar aðgerðir höfðu bókstaflega enga þýðingu í sambandi við þá stefnu, sem ríkisstj. tók, enda var hún tekin áður en aðgerðirnar hófust og það er mergurinn málsins.

Að allra síðustu vildi ég leiðrétta það, sem ég sagði áðan. Það er minn misskilningur. Það er rétt, sem hv. þm. sagði, að hér í þinginu komu fram .till. um það að taka inn árabil. Við nánari umhugsun sé ég, að þetta er rétt hjá hv. þm. Þær voru feldar í báðum deildum og ástæðan til þess og það, sem ég hafði í huga, var það, að n., sem frv. samdi og í voru fulltrúar Háskólans, stúdenta og rn., var á einu máli um að hafa gr. eins og hún var, en taka ekki árabil inn í þetta. Þetta villti mér sýn eða olli mínu misminni og ég bið afsökunar á því. En síðan komu till. fram hér, en voru felldar, vegna þess að undirbúningsnefndin með fulltrúum allra aðila, rn., Háskólans og stúdenta, hafði verið á einu máli um, að hún skyldi vera eins og hún var, en ekki tilgreint árabil í henni.