08.03.1971
Neðri deild: 58. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 63 í C-deild Alþingistíðinda. (2429)

144. mál, námslán og námsstyrkir

Frsm. minni hl. (Magnús Kjartansson):

Herra forseti. Ég þarf ekki miklu við það að bæta, sem ég hef hér áður sagt. Engu að síður langar mig til þess að vekja athygli hv. alþm. á því, sem hæstv. menntmrh. sagði hér áðan. Hann sagðist telja þá yfirlýsingu, sem hann gaf hér í haust, svo mikilvæga og bindandi, að hver ríkisstj., sem á eftir kæmi, væri skuldbundin til að fylgja þeirri stefnu að auka fjárveitingar til Lánasjóðsins eins ört og hann talaði um í haust, þannig að hann gæti vaxið upp í fulla stærð á næstu 3—4 árum. Hæstv. ráðh. sagði, að hver ríkisstj. væri siðferðilega skuldbundin til þess að gera þetta. En þá er mér spurn: Hvers vegna má þá ekki samþykkja þetta frv., þar sem Alþ. tæki þessa ákvörðun, sem hæstv. ráðh. telur, að búið sé að binda í raun og veru? Hvaða rök geta þá mælt gegn því að samþykkja þetta frv.? Og það, sem hæstv. ráðh. segir hér, er allt annað en meiri hl. n. segir. Meiri hl. n. telur, að þetta sé ekki tíma bært, vegna þess að það þurfi að gera sitthvað annað. En hæstv. ráðh. segir, að þetta sé þegar ákveðið. Það er því búið að skuldbinda komandi ríkisstj. siðferðilega að gera þetta. En þá er það eina eðlilega að festa þetta í lög. Það liggur í hlutarins eðli.

Ég skal ekki deila við hæstv. ráðh. um baráttu námsmanna frekar, en við höfum gert hér áður. Það er að sjálfsögðu ekki á mínu valdi að kveða upp úrskurð um það, hvað kann að hafa gerzt í hugarfylgsnum þessa hæstv. ráðh. og félaga hans, meðan sú barátta stóð sem hæst. Ég vil þó endurtaka það, að ég persónulega er sannfærður um það, að sú gerbreytta stefna, sem hæstv. ríkisstj. tók upp í þessu máli, var bein afleiðing af þessari baráttu. Og ég er ekki einn um að hafa þessa skoðun. Ég fullyrði, að yfirgnæfandi meiri hluti landsmanna er þessarar skoðunar líka. Þetta hefur komið fram í mjög mörgum greinum í blöðum á mjög athyglis verðan hátt. Menn hafa verið að spyrja: Er ekki hægt að koma neinu fram á Íslandi nema með því að grípa til aðgerða sem þessara? Er ekki hægt að fá hæstv. ríkisstj, til þess að fallast á málefni með eðlilegum rökum? Þarf að koma til einhverra óvenjulegra aðgerða til þess að hæstv. ríkisstj. sjái að sér? Þetta er afstaða fólksins í landinu. Þannig metur fólkið í landinu þetta. Þetta vil ég segja hæstv. ráðh.