08.03.1971
Neðri deild: 58. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 65 í C-deild Alþingistíðinda. (2432)

144. mál, námslán og námsstyrkir

Frsm. meiri hl. (Benedikt Gröndal) :

Herra forseti. Hv. 6. þm. Reykv. sagði í einni af ræðum sínum, að meiri hl. menntmn. hefði mótmælt efni frv. Ég get ekki látið þessari umr. ljúka svo, að ég taki ekki fram, að þetta er á algerum misskilningi byggt. Í nál. meiri hl. standa þessi orð, með leyfi hæstv. forseta:

„Enda þótt fyrir liggi skýrt mörkuð stefna sjóðsstjórnar og menntmrh. um að veita þeim, sem þegar eiga aðgang að sjóðnum, fulla aðstoð eigi síðar en 1974—1975, telja undirritaðir ekki rétt að lögfesta slík réttindi, meðan mörg vandamál eru óleyst um það, hverjir skuli eiga rétt til aðstoðar Lánasjóðsins og hverjir ekki.“

Kjarninn í afstöðu meiri hl. menntmn. er sá, að í þessum efnum sé ekki mest aðkallandi að lögfesta þetta mark, heldur hitt: Hvað getum við gert fyrir nemendur menntaskólanna og hvenær getum við gert það? Hvað getum við gert fyrir þá nemendur Tækniskólans, sem ekki njóta þessarar sjóðsaðstoðar? Hvað getum við gert fyrir þá kennaranema, sem njóta ekki aðstoðar frá þessum lánasjóði, en sitja við hliðina á öðrum nemendum í sama kennaraskóla, sem njóta þessa sjóðs? Hvað getum við gert fyrir nemendur Stýrimannaskólans og Vélskólans og hvenær getum við gert þetta? Það er ákaflega oft, sem starf okkar hér á Alþ. er ekki að segja já og nei við hugmyndum um það, sem gjarnan mætti gera í þjóðfélaginu. Við erum gjarnan sammála um góðar hugmyndir og viljum allir koma þeim fram. En vandi okkar er að raða þeim og með afstöðu okkar til þessa máls, þá vildi ég taka það fram, að við erum að benda á þá stóru hópa, sem hafa ekki fengið úrlausn og það er meginverkefni okkar nú á þessu sviði að finna lausn fyrir þessa hópa. Þetta er kjarni málsins, sem ég vildi, að menn tækju eftir og ég vænti þess, að það verði reynt að finna lausn á vandamáli þessara hópa, en hæstv. ráðh. hefur þegar lýst yfir, að nú sé unnið að því.