10.03.1971
Neðri deild: 59. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 70 í C-deild Alþingistíðinda. (2451)

32. mál, orkulög

Vilhjálmur Hjálmarsson:

Herra forseti. Það má segja, að okkur sé að fara fram hér á hv. Alþ., hvað snertir afgreiðslu mála. Ég held, að það hafi verið í sjötta sinn, sem flutt var hér í vetur till. um strandferðaskip til farþegaflutninga og hún var samþ. í Sþ. fyrir fáum dögum. Og ég hygg, að þetta sé í þriðja eða fjórða sinn, sem flutt .er frv. í þá stefnu, sem það frv. markar, sem hér er til umr. og ég held, að þetta sé í fyrsta skipti, sem það er afgreitt úr n., en um það þori ég þó ekki að fullyrða. En það tel ég einmitt mjög vel farið, að mál fái afgreiðslu, þó að ég geti auðvitað ekki gert kröfu til þess frekar en aðrir þm., að mál séu afgreidd á þá lund, sem ég helzt hefði óskað.

N. hefur klofnað um þetta mál, og meiri hl. n. leggur til, að því verði vísað til ríkisstj. Ég er því mjög ósamþykkur og ég hygg, að ég mæli þar fyrir munn okkar allra flm. Við lítum að vísu svo á, að framhaldsáætlun um dreifingu raforku um sveitir hefði þurft að vera búið að gera fyrir löngu. Það hefur verið til mjög mikils óhagræðis að hafa ekki áætlun um framkvæmdirnar, jafnvel þó að framkvæmdahraðinn hefði verið hinn sami, því að í mörgum tilvikum þurfa menn beinlínis að vita það, hvers þeir eiga von, svo að þeir geti hagað sér eftir því með sínar eigin persónulegu aðgerðir til þess að afla raforku fyrir sig til lengri eða skemmri tíma . En nú tjóar ekki að sakast um orðinn hlut í því efni, og meiri hl. n. vitnar til þess, að yfirlýsing hafi komið fram frá ráðh. um það, að nú sé unnið að slíkri áætlunargerð. Við flm. lítum svo á, að þetta breyti í sjálfu sér engu um nauðsyn þess að samþykkja þetta frv. hér. Í yfirlýsingu hæstv. ráðh. um þetta efni eru að mig minnir nánast engin ákveðin stefnumörk um það, hvenær ljúka skuli rafvæðingu landsins og ekki heldur ákveðin mörk um það, hversu langt skuli gengið. En í þessu frv. er sett ákveðið tímamark og einnig það mark, að rafvæða landsbyggðina alla með einum eða öðrum hætti, annaðhvort með beinum aðgerðum af hálfu ríkisvalds eða þá ábeinum með stuðningi við einstaklinga.

Hv. frsm. minni hl. vék hér að þeim upplýsingum, sem fram hafa komið í ræðu rafmagnsveitustjóra á Búnaðarþingi. Og í bréfi frá rafmagnsveitustjóra ríkisins til iðnn. Ed. í sambandi við annað frv. um raforkumál, komu fram þær upplýsingar, að á vegum Rafmagnsveitna ríkisins hefur verið gerð frumáætlun um að ljúka rafvæðingu landsins á tilteknum tíma. Ég hef ekki getað komið auga á það, að hæstv. ríkisstj. eða iðnmrn. hafi gert neitt með þessa frumáætlun, heldur hefur nú verið sett af stað ný frumathugun á vegum Orkustofnunarinnar, og að því er ég bezt veit, látið eins og áætlun rafmagnsveitnanna væri ekki til.

Með tilliti til þessa, sem ég hef nú drepið á, leggjum við flm. þessa frv. mjög mikla áherzlu á, að það verði samþ. Og við teljum það alveg tímabært og eðlilegt, að Alþ. marki ákveðna stefnu í þessu máli, þrátt fyrir þær yfirlýsingar, sem hér hafa komið fram og ekki eru fyllilega skýrar að ýmsu leyti, eins og ég hef þegar vikið að. Við teljum það mjög nauðsynlegt, að frv. verði samþ. og Alþ. marki stefnuna á þann hátt, að rafvæðingunni verði endanlega lokið.

Þó að dregizt hafi nokkuð meðferð málsins hér á þingi, þá væri enn eðlilegur tími til þess að ljúka áætlun um dreifinguna og áætlun um fjáröflun, áður en þing kemur saman í haust, þannig að Alþ. í haust geti endanlega fjallað um þetta mál og lagt þá síðustu hönd á undirbúning þess að ljúka rafvæðingunni í heild innan ákveðinna tímamarka.