15.03.1971
Efri deild: 63. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 76 í C-deild Alþingistíðinda. (2462)

17. mál, meðferð ölvaðra manna og drykkjusjúkra

Einar Ágústsson:

Herra forseti. Þetta er nú í annað skipti, sem hv. meiri hl. heilbr–. og félmn. þessarar d. vill vísa þessu frv. til ríkisstj. og ég vil strax lýsa því sem minni skoðun sem 1. flm. þessa frv., að ég sætti mig ekki við þá afgreiðslu, fyrst og fremst vegna þess, að í fyrra skiptið, sem þetta var reynt, gerði hæstv. ríkisstj. ekki neitt til þess að koma til móts við þessa ósk.

Þegar frv. til fjárlaga var lagt hér fram í haust, var framlag til gæzluvistarsjóðs 8.3 millj. kr., eins og það var ákveðið á árinu 1970. Hitt skal viðurkennt, sem kom fram hjá hv. frsm. meiri hl., að í meðförum Alþingis fékkst nokkur lagfæring á þessu. Það er alveg rétt. Hæstv. fjmrh. breytti sinni afstöðu undir meðferð málsins og féllst á, að framlagið yrði hækkað upp í 12 millj. kr. En áður en þessi lagfæring fékkst, hafði ýmislegt gerzt og þeir aðilar, sem hæstv. fjmrh. tekur meira mark á heldur en Ed. Alþ., lagzt á sveif með að hækka fjárveitinguna í þessu skyni. Þar á ég við borgarstjórnina í Reykjavík fyrst og fremst.

Það var 13. september 1970, sem borgarstjórnin í Reykjavík samþykkti shlj. áskorun til yfirvaldanna þess efnis, að framlag til gæzluvistarsjóðs verði tvöfaldað á næsta ári, eða eins og þar segir:

„En ljóst virðist af fjárlagaundirbúningi, að sem stendur er ekki gert ráð fyrir umtalsverðri hækkun á framlagi til gæzluvistarsjóðs á næsta ári.“

Þetta er ályktun Félagsmálaráðs frá 17. september, gerð í tilefni af borgarstjórnarfundi, sem ég var hér að víkja að. Þar segir enn fremur áfram :

„Félagsmálaráð bendir á, að fé sjóðsins hefur undanfarin ár runnið að mestu til rekstrar vistheimilisins að Akurhóli, þannig að uppbygging stofnananna, sem var upphaflegt markmið með stofnun gæzluvistarsjóðs, hefur tafizt stórlega, þrátt fyrir brýna þörf til stórátaks á þessu sviði.“

Bent er á nauðsyn tvöföldunar á framlagi til sjóðsins, þrátt fyrir áætlun um að hætta notkun á fé sjóðsins til rekstrar áður nefnds vistheimilis. Á þessa umsögn féllst borgarráðið í Reykjavík, en formaður þess er hv. 12. þm. Reykv., svo að það mætti þá ætla, að hér yrði tekið rösklega í strenginn og framlagið tvöfaldað. Það varð ekki. Framlagið var ekki tvöfaldað, þrátt fyrir þessa skeleggu yfirlýsingu borgarstjórnar, Félagsmálaráðs og borgarráðs Reykjavíkur. En það var hækkað um tæp 50%, og sett í 12 millj. á þessu ári. Það er betra en ekki. Ég ætla ekki út af fyrir sig að gera lítið úr því, en þó lýsi ég nokkurri óánægju með það, að þeir menn, sem hér austan megin við Austurvöll eru ákveðnir í því, að framlag gæzluvistarsjóðs skuli a.m.k. tvöfaldað, þeir skuli, þegar þeir flytja sig suður fyrir völlinn, sætta sig við það, að það sé aðeins hækkað um 50%. Það finnst mér ekki skelegg frammistaða.

Þessi mál eru mjög erfið úrlausnar, að ég hygg, sérstaklega í Reykjavík. Þess vegna er orðið skammt á milli ályktana í borgarstjórn Reykjavíkur um þessi mál og það er aðeins hálfur mánuður síðan flokksbróðir hv. frsm. meiri hl. fann sig knúinn til þess að hreyfa þessum málum einu sinni enn í borgarstjórninni. Hann lagði fram svo hljóðandi tillögu, með leyfi forseta:

„Borgarstjórn telur, að brýna nauðsyn beri til þess að bæta aðstöðu drykkjusjúklinga í höfuðborginni. Borganstjórnin álítur að skapa þurfi betri aðstöðu, en nú er fyrir hendi til þess að veita drykkjusjúklingum hjúkrunar— og læknismeðferð. Borgarstjórn felur borgarráði að athuga, hvort unnt sé að koma á fót miðstöð í Reykjavík, er veitt geti drykkjusjúklingum slíka meðferð. Enn fremur er bent á, að tilfinnanlega skortir endurhæfingarstöð fyrir fyrrverandi drykkjusjúklinga. Beinir borgarstjórn því til hins nýskipaða endurhæfingarráðs, að það taki mál þetta til athugunar og afgreiðs1u.“

Undir málflutning þessa borgarfulltrúa tóku mjög margir á þessum fundi. En samt varð niðurstaðan ekki sú, að þessi till. yrði samþ., heldur var það önnur till. Hún var borin fram af borgarfulltrúum Sjálfstfl. og ég ætla mér að leyfa þm. að heyra hana líka:

„Borgarstjórn Reykjavikur telur að brýna nauðsyn beri til þess að bæta aðstöðu drykkjusjúklinga í höfuðborginni. Borgarstjórn vekur athygli á, að samkv. lögum um meðferð ölvaðra manna og drykkjusjúkra er geðsjúkrahúsum ríkisins skylt að reka starfsemi sem hér greinir:

1. Móttökudeild, sem annist meðferð og framkvæmi á sjúklingum nauðsynlegar rannsóknir

2. Sjúkrarými til skammtímameðferðar.

3. Lækningastöð fyrir þá, sem ekki þarfnast innlagningar.

4. Eftirmeðferð fyrir þá, sem hafa verið lagðir inn.

5. Hæli til meðferðar þeirra, sem ekki er talið, að verði veitt meðferð á annan hátt.“

Geðsjúkrahús ríkisins hefur aðeins að litlu leyti getað tekið upp þessa starfsemi vegna aðstöðuleysis í sambandi við húsnæði og starfsfólk og ber brýna nauðsyn til úrbóta í þessu efni. Borgarstjórn telur ekki nú efni til þess að álykta um einstakar stofnanir umfram þær ályktanir, sem þegar hafa verið gerðar, en felur heilbrigðismálaráði og félagsmálaráði o.s.frv., eins og þar segir, að tilnefna tvo menn til að kanna þetta einu sinni enn.

En sem sagt, niðurstaða borgarstjórnar Reykjavíkur, sem er alveg rétt að mínu mati, er sú, að það sé hlutverk ríkisins að sjá um þessi atriði, sem þarna voru talin upp og gæzluvistarsjóði hefur með l. frá 1964, verið falið þetta verkefni. Það er þess vegna fjárskortur gæzluvistarsjóðs, sem stendur fyrst og fremst í vegi fyrir því, að ástand þessara mála sé skárra, heldur en raun ber vitni, því að mér vitanlega hafa l. frá 1964 út af fyrir sig ekki verið gagnrýnd. Það er aðeins það, að ekki hefur verið hægt að framkvæma þau.

Ég held því, að það sé fyllilega réttmæt krafa allra þeirra, sem láta sig þessi mál varða, að framlag gæzluvistarsjóðs verði ákveðið þannig, að það haldi nokkurn veginn verðgildi sínu, þrátt fyrir óðadýrtíð, sem geysað hefur í landinu. Það var ekki lítið fjármagn 1964, 7.5 millj. kr., en það er orðið lítið í dag og 12 millj. í dag er lítið og það er lægra hlutfall af áfengisgróðanum heldur en þá var tiltekið. Ég vil þess vegna mjög fastlega skora á þá hv. alþm., sem áhuga hafa fyrir því að koma á bættri skipan þessara mála, að samþykkja þetta frv. eða eitthvert annað lagaákvæði, sem tryggi það, að gæzluvistarsjóði séu tryggðar þessar tekjur, en það sé ekki látið á vald hæstv. ríkisstj. og hæstv. fjmrh. hverju sinni að ákveða þetta tillag. Þegar 2.5% af áfengissölunni þykir orðið of hátt tillag til gæzluvistarsjóðs, vegna þess að þær byggingar og sú aðstaða, sem hann á að sjá um, sé komin, þá sé ég ekki annað en mjög auðvelt sé að breyta l. á ný og verja þá fjármagninu til einhvers annars, sem þá verður meira aðkallandi. Það er ekkert nema fyrirsláttur; að það sé einhverjum erfiðleikum bundið að ákveða svona tillag sem hundraðshluta af tekjustofninum. Þetta er gert í fjölda, fjölda mörgum tilvikum og það er mjög auðvelt. Sérstaklega er það auðvelt, þegar einn aðili á í hlut, sem á að taka við fjármagninu.

Hv. 5. landsk. minntist á það, að við hefðum átt kost á því að skoða okkur um á Litla-Hrauni ekki alls fyrir löngu. Það er alveg rétt, að við fórum þangað. Það var .lærdómsrík för og ég veit að hann er eins og ég, ekki síður ákveðinn í því eftir förina en áður, að það þurfi að bæta um í áfengismálunum. Það er t.d. mjög hryggileg staðreynd, að menn koma þarna aftur og aftur, vegna þess að þeir verða sömu sjúkdómunum að bráð, áfengissjúkdómunum ekki sízt og þeir hafa raunverulega í ekkert hús að venda í engan stað að fara. Þess vegna er okkur það auðvitað enn ljósara heldur en áður, hver þörf er á því að koma áfram þessum málum. Mér finnst því niðurstaða hv. 5. landsk. þm. hæpin, að hann vilji ekki samþykkja þetta frv., vegna þess að hann hafi ekki enn þá gert sér það ljóst, hver hlutur gæzluvistarsjóðs eigi að vera í lausn þessa máls, því að ég tel það alveg vafalaust, að hann meini það ekki þannig, að hlutur gæzluvistarsjóðs eigi að vera eitthvað minni heldur en t.a.m. þær 16.6 millj. kr., sem þetta frv. mundi hafa úthlutað gæzluvistarsjóðnum á þessu ári, miðað við sölu s.l. árs að vísu. Því ég hef ekki aðrar tölur við að miða.

Það er þýðingarlaust að halda hér langar ræður um þetta mál. Það skal ég heldur ekki gera. Ég hef oft rætt þetta mál úr ræðustóli og skal láta máli mínu lokið að svo stöddu, en ég er ósamþykkur því, að málinu verði nú vísað til hæstv. ríkisstj.