15.03.1971
Efri deild: 63. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 79 í C-deild Alþingistíðinda. (2463)

17. mál, meðferð ölvaðra manna og drykkjusjúkra

Fjmrh. (Magnús Jónsson) :

Herra forseti. Ég get fullkomlega tekið undir allt, sem hér hefur verið sagt um hið alvarlega ástand í áfengismálum og nauðsyn úrbóta í þeim efnum og stend hér ekki upp til þess að mótmæla því, sem menn hafa sagt um þau atriði. Ég hef sjálfur fyrir ekki mörgum árum síðan átt sæti í n., sem fjallaði um þau mál og var kjörin af Alþ. Hún skilaði allítarlegu áliti um ástandið í þeim efnum og nauðsyn úrbóta, þannig að ég hygg ekki, að neinn efist um það, að ég hafi persónulega fyrir mitt leyti einnig áhuga á því, að úr þessum vanda verði leyst.

Ég verð hins vegar að segja það, að ég tel þetta frv. út af fyrir sig enga lausn á þessum vanda og hef aldrei talið það neina sérstaka lausn á honum að áskilja einhverja tiltekna prósentu af áfengishagnaði til lausnar vandanum. Ég álít, að slíkar aðferðir eigi yfirleitt ekki að hafa í sambandi við ákvarðanir Alþ. um lausn á einu né neinu vandamáli, heldur verði það að gerast eftir sérstökum áætlunum. Hv. flm., 11. þm. Reykv., skýrði hér frá, fyrir hverju væri gert ráð í l. um meðferð ölvaðra manna og drykkjusjúkra til úrbóta í þessum efnum. Vitanlega ber brýna nauðsyn til þess að gera um það áætlanir, hvaða framkvæmdir þar eiga að sitja í fyrirrúmi og með hve miklum hraða auðið verði fjárhagsins vegna að ráðast í þær framkvæmdir, nákvæmlega með sama hætti og gert er með flestar ríkisframkvæmdir aðrar. Við skulum taka sjúkrahús, sem eru algerlega hliðstæð þessum atriðum, sem við erum hér að ræða um. Það hefur engum dottið það í hug að fara að taka ákveðna prósentu af ríkistekjum og segja, að það skuli renna til sjúkrahúsa og efnislega séð verð ég að lýsa algerri andstöðu minni við allar slíkar ákvarðanir, sem ekki eru miðaðar við tilteknar áætlanir, sem metið verði af Alþ. hverju sinni, hvort hægt sé að ráðast í með hliðsjón af mati og vali milli mikilvægis hinna einstöku framkvæmda. Það er ekkert, sem bendir sérstaklega til þess, nema þær 4–5 millj., sem á milli standa, hvort það sé hægt að leysa þetta mál hér með 12 millj. kr. framlagi í fjárl., eins og það er núna og sem hv. frsm. meiri hl. réttilega gat um, að hefði verið hækkað um þriðjung á þessu ári, eða að það leysist fremur með 16—17 millj., sem kynnu að fást með einhverju tilteknu frv. svo sem því, sem hér liggur fyrir. Þess vegna álít ég, að það sé eina raunhæfa lausnin á þessu máli og sýni fullkomlega jafnmikinn velvilja þeirra manna, sem að því standa, að leggja til, samtímis og þeir benda á hinn alvarlega vanda, sem hér er við að fást, að máli sem þessu sé vísað til ríkisstj. með það í huga, að það verði efnislega tekið þar til meðferðar, með hverjum hætti verður leystur hinn brýni vandi, sem hér er vissulega fyrir hendi í sambandi við þessa sjúklinga, sem vitanlega eiga ekki aðeins um sárt að binda sjálfir, heldur er einnig þjóðfélagslegt vandamál, að þessi drykkjusýki skuli vera til og allar þær afleiðingar, sem af henni eru.

Ég lýsi mjög eindregnu fylgi mínu við þá till., sem meiri hl. n. gerir og ég fyrir mitt leyti skýri hana svo og skil, að í henni felist viljayfirlýsing um það, að þessi mál verði tekin til rækilegrar athugunar, ekki til þess að gera það háð áfengisgróða hverju sinni, hvað verði látið af hendi rakna til þessara framkvæmda, sem l. gera ráð fyrir, heldur með það í huga, að það verði gerðar ákveðnar áætlanir um það, hvernig komið verði upp þeim stofnunum, sem gert er ráð fyrir í l. og taldar eru nauðsynlegar til þess að leysa úr þessu vandamáli. Þetta taldi ég rétt, að kæmi fram, af því að minnzt er á afstöðu mína í sambandi við þetta mál og að sjálfsögðu skiptir það miklu máli, hvaða viðhorf fjárveitingavaldið hefur í því efni hverju sinni, en ég vek athygli á því, að það er að sjálfsögðu ekki vald fjmrh., sem kemur hér til, eins og hv. flm. málsins sagði hér áðan, heldur vald Alþ. hverju sinni, hvað það vill láta af hendi rakna af því fé, sem til ráðstöfunar er í það og það skiptið, til þessara vandamála umfram önnur, sem við á hverjum tíma verðum að gera upp á milli. Ég hins vegar efa ekki, að hér er um að ræða fullkominn og einlægan áhuga hv. flm., 11. þm. Reykv., sem hér talaði áðan, á málinu og er því á engan hátt að mótmæla einu né neinu af því, sem hann sagði, en aðeins að lýsa þessu viðhorfi mínu, að ég tel, að prósentureikningur í þessu sambandi eigi ekki rétt á sér, heldur eigi að taka þetta mál öðrum tökum og þá ekki með það í huga að draga úr, heldur með það í huga að vinna skipulega að þeim verkefnum, sem brýnast er að leysa á þessu sviði sem öðrum.