15.03.1971
Efri deild: 63. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 81 í C-deild Alþingistíðinda. (2464)

17. mál, meðferð ölvaðra manna og drykkjusjúkra

Einar Ágústsson:

Herra forseti. Það verða nú bara örfá orð út af því, sem hæstv. fjmrh. sagði hér. En ég held, að ég hafi nú tekið það fram í minni fyrri ræðu og skal þá gjarnan gera það aftur, að ég efast út af fyrir sig ekkert um það, að hæstv. fjmrh. vill vel í þessum málum. Ég hef aldrei dregið það í efa, að það er rétt, sem hann sagði, að hann var í n., sem athugaði þessi mál rækilega fyrir nokkrum árum. Ég hef nú ekki þetta nál. við hendina, en mig minnir þó, að ein höfuðniðurstaða þess hafi verið sú, að það bæri að rannsaka orsakir drykkjusýki. Frumskilyrðið til þess að vita, hvað maður ætti að gera til varnar áfengissjúkdómum, það væri að þekkja af hverju þeir stöfuðu. En ég er hræddur um, — ég verð þá leiðréttur, ef ég fer rangt með, — að þessi athugun hafi aldrei verið framkvæmd. A.m.k. veit ég, að fyrir nokkru, að ég held eins og tveimur árum, fluttu tveir af meðnm. hæstv. fjmrh. í þessari n. það sem sérstaka ályktun eða till. til ályktunar Alþ., að þessar rannsóknir yrðu látnar fara fram. Það voru þeir Sigurvin Einarsson og Ingvar Gíslason, minnir mig. Ég veit ekki heldur til, að sú till. hafi verið samþykkt eða þessi rannsókn verið látin fara fram.

En víst er um það, að eitthvað hefði þurft að gera frekar í þessum málum, heldur en gert hefur verið og ég hef satt að segja í barnaskap mínum álitið, að það, sem stæði fyrst og fremst í vegi fyrir frekari aðgerðum í þessum málum, væri fjárskortur gæzluvistarsjóðs. Það er kannske misskilningur og auðvitað er sama, hvaðan fjármagnið kemur. En það bara hefur ekki komið, hvorki úr gæzluvistarsjóði né eftir öðrum leiðum. Það er alveg rétt, sem hv. frsm. minni hl. heilbr—: og félmn. sagði hér áðan, að fram undir þetta hafa megintekjur gæzluvistarsjóðs gengið til þess að reka drykkjumannahælið á Akurhóli og á meðan þær hafa farið til þess að verulegum hluta, hefur ekkert fjármagn verið í sjóðnum til eins eða neins, hvorki til rannsókna né bygginga og þess vegna er nú ástandið eins og það er. Ég skal undirstrika það, sem hæstv. fjmrh. sagði, að það er brýn nauðsyn að gera áætlanir um það, hvaða framkvæmdir það eru, sem fyrst á að gera. En hafa þær verið gerðar? Ég veit það ekki. Ég hef ekki séð þær, og ég held helzt, að þær hafi ekki verið gerðar.

Hæstv. fjmrh. taldi, að það væri enginn munur á því, — jú, eitthvað fjögurra millj. kr. munur, — hvort gert væri, eins og gert var í vetur, þegar fjárlög yfirstandandi árs voru ákveðin, að ákveða tillagið 12 millj. á þessu ári, eða fara að, eins og frv. leggur til, af því að út úr því hafi ekki komið nema eins og 4 millj. meira. Í mínum huga er sá mikli munur á þessu tvennu, að eftir till. frv. eru sjóðnum tryggðar tekjur með lagaákvæðum eins og þau væru eftir breytinguna. En núverandi fyrirkomulag er, eins og ég sagði, háð ákvörðunum meiri hl. Alþ. Við skulum segja það, að hann fari nú að taka völdin af hæstv. ráðh. og lagfæra það, sem hann vildi. Það gæti auðvitað vel skeð, en það er þó háð ákvörðunum þeirra, sem hér sitja, hvaða fjármagn fæst til þessara framkvæmda. Ég er alveg fús til þess að líta á það sem viljayfirlýsingu frá hv. Ed. Alþ., að rækileg athugun fari fram á þessu máli. En ég get ekki varizt því, að ég tek þá líka sams konar afgreiðslu síðasta þings sem viljayfirlýsingu. En eftir þeirri viljayfirlýsingu var ekki farið meira en svo, að þegar fjárlagafrv. fyrst sá dagsins ljós, þá var tillagið 8,3 millj. kr. eða það sama og á árinu 1970.

Ég held næstum því, að hæstv. fjmrh. hafi ekki verið inni, þegar ég talaði áðan og þess vegna skal ég endurtaka það, svo að hann heyri, að ég met það við hann, að undir meðferð málsins féllst hann á að hækka þetta framlag upp í 12 millj. Hann sá sér hins vegar ekki fært né aðrir menn úr þingliði stjórnarflokkanna að samþykkja brtt., sem gerð var, um 16 millj. kr. framlag. En það er betra að fá þessa viðurkenningu en ekki. Ég er sízt að gera lítið úr því, en það, sem er meginmál mitt og tilgangur með þessum flutningi, er ekki annað en það, að sjóðnum verði tryggðar fastar tekjur, þannig að hægt verði nú þegar að fara að gera þær áætlanir, sem við erum sammála um, að þurfi til að koma, áður en byggingaframkvæmdir hefjast.