24.03.1971
Efri deild: 73. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 83 í C-deild Alþingistíðinda. (2469)

278. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Flm. (Oddur Andrésson):

Herra forseti. Frv. það til breyt. á l. nr. 51 1964 um tekjustofna sveitarfélaga á þskj. 550, sem hér er til 1. umr. í hv. þd., lætur frekar lítð yfir sér, en er þó í eðli sínu stórmál, sem nauðsynlegt er, að nái sem fyrst fram að ganga. Frv. gerir ráð fyrir nokkurri rýmkun á möguleikum sveitarstjórna til útsvarsálagningar og þó einkanlega sveitarstjórna landbúnaðarsveitarfélaga, sem hafa nytjar landsins að undirstöðu gjaldstofns. Það gerir ráð fyrir, að sveitarstjórnir fái heimild til að leggja útsvar á tekjur, sem myndast af fasteignum innan umdæmisins og aðstöðugjöld taka ekki til. Má þar t.d. nefna húsaleigu og hlunnindatekjur.

Faseignaskattur er lagður á allar fasteignir og hann er tekjustofn fyrir sveitarfélög. En þess ber að gæta, að við fasteignamat eru ýmsir fastir útgjaldaliðir miðaðir, t.d. sýslusjóðsgjald að 1/3 og gjald til almannatrygginga einnig að 1/3. Fasteignaskattur er samkv. l. sem hér segir: Í fyrsta lagi 2% af virðingarverði byggingarlóða. Sá skattur er náttúrlega fyrst og fremst fyrir þéttbýlið, kaupstaðina. Í öðru lagi 1% af verði húsa og annarra mannvirkja og í þriðja lagi 1/3% af virðingarverði túna, garða og reita og erfðafestulanda. Þarna er ekki tiltekið um hlunnindi. Þau hafa nú að vísu verið sérmetin víða og það er gert ráð fyrir, held ég, í væntanlegu fasteignamati, að það verði sértiltekið og þá væri e.t.v. athugandi að tiltaka sérstakan fasteignaskatt vegna þeirra.

Það veldur landbúnaðarsveitarfélögum miklum erfiðleikum við útsvarsálagningu, nú eftir að margar jarðir og kostaríkar eru í eigu manna búsettra í öðru sveitarfélagi, er taka til sín leigu fyrir landsnytjar eða nýta þær sjálfir í einni eða annarri mynd, án þess að styrkja það sveitarfélag, sem þær eru í. Þess eru dæmi, að í sveitarfélagi með 34 lögbýli eru allt að 30 í eigu annarra, en ábúenda að nokkru eða öllu leyti og þar af eigendur margra búsettir í öðrum sveitarfélögum. Í mörgum tilfellum koma slíkar tekjur, sem myndast af þessum býlum, hvort sem þær eru beinar eða óbeinar, hvergi til skatts eða útsvarsálagningar. Dæmi eru til, að árstekjur af einni slíkri jörð geti verið allt upp undir 1 millj., en þegar margir eigendur eru að slíkri eign getur það skipzt æði mikið niður. En ef eigendurnir nýta sjálfir jörðina að einhverju leyti, þá kemur það hvergi fram sem tekjur og fellur þess vegna algerlega undan skattgreiðslum.

Eitt af vandamálum landbúnaðarins í dag er ásókn fjársterkra einstaklinga í kaupstöðum eftir jörðum og þá sérstaklega hlunnindajörðum. Þetta frv., ef að lögum verður, ætti heldur að hamla gegn slíkri þróun. Á aðalfundi Stéttarsambands bænda hefur oft verið rætt um að fá fram breytingar á l. um tekjustofna sveitarfélaga og á aðalfundi þess 29.–30. ágúst sl. var samþykkt eftirfarandi till., sem ég vil lesa upp með leyfi hæstv. forseta:

„Aðalfundur Stéttarsambands bænda 1970 felur stjórn sambandsins að vinna að því, að breytt verði l. um tekjustofna sveitarfélaga, þar sem þess verði m.a. gætt, að sveitarfélögunum verði tryggður tekjustofn með skatti og útsvari af fasteignum, þar með töldum hlunnindum og tekjum af þeim, enda þótt þær séu í eigu manna búsettra utan sveitarfélagsins og ekki nytjaðar af íbúum þess.“

Þetta frv., sem hér er, er þess vegna í beinu áframhaldi af þessari till.

Mér er það ljóst, að umrædd lög, sem breytingar fara fram á með þessu frv., eru mjög viðkvæm og í miklum tengslum við lög um tekju– og eignarskatt, svo erfitt mun sennilega reynast að fá málið afgreitt á þessu þingi, en ég vænti þess, að hv. n., sem fær málið til meðferðar, sinni því af alúð og afgreiði það svo fljótt sem verða má.

Að svo mæltu vil ég leggja til, að málinu verði vísað til 2. umr.. og ég held, að það sé heilbr.— og félmn., sem mun helzt eiga að taka við því.