10.02.1971
Efri deild: 47. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 85 í C-deild Alþingistíðinda. (2475)

203. mál, Hagstofnun launþegasamtakanna

Flm. (Ólafur Björnsson):

Herra forseti. Við hv. 6. þm. Sunnl. höfum leyft okkur á þskj. 346 að flytja frv. til l. um Hagstofnun launþegasamtakanna, og skal því nú fylgt úr hlaði með fáeinum orðum.

Eins og fram kemur í grg. fyrir þessu frv., var hugmyndin um það að koma á fót stofnun af því tagi, sem hér um ræðir, fyrst sett fram fyrir nokkrum árum á þingi Bandalags starfsmanna ríkis og bæja. En þó að fullkomin eining væri um málið þar á þinginu, fékk það ekki þær undirtektir á öðrum vettvangi, að það næði fram að ganga að því sinni. Við flm. frv. teljum, að hér sé um svo mikilvægt málefni að ræða, ekki einvörðungu frá hagsmunasjónarmiði launþegasamtakanna, heldur einnig þjóðarheildarinnar, að hefjast beri nú þegar handa um það að koma slíkri stofnun á fót og beri löggjafar— og fjárveitingavaldinu að leggja sitt af mörkum í því efni, svo sem frv. gerir ráð fyrir.

Skal frv. nú fylgt úr hlaði með því að ræða fyrst þá hliðina, sem snýr að launþegasamtökunum, en í öðru lagi þá, sem teljast verður þó öllu mikilvægari frá sjónarmiði okkar, sem um málið fjöllum hér, eða þá, sem snýr að hagsmunum þjóðarinnar í heild.

Eins og fram kemur í grg., verður hagsmunabarátta launþegasamtakanna, ef litið er á þau sem heild, ekki háð með árangri í nútíma iðnvæddu þjóðfélagi, eins og íslenzka þjóðfélagið er, nema þau taki í þjónustu sína tækni nútímaþekkingar á sviði efnahagsmála. Slíks var auðvitað ekki í sama mæli þörf í bernsku verkalýðshreyfingarinnar, þegar vinnudeilur voru yfirleitt staðbundnar og einangraðar. Nú er hins vegar um að ræða að jafnaði samninga milli heildarsamtaka launþega og vinnuveitenda og jafnvel ríkisvaldsins, þar sem ekki er einvörðungu samið um kaup og kjör, heldur ýmsa aðra þætti efnahagsmála, þannig að slíkir samningar verða grundvallaratriði þess efnahagskerfis, sem þjóðfélagið býr við. Í nágrannalöndum okkar verja launþegasamtökin, ekki sízt verkalýðssamtökin, miklum fjármunum til sérfræðilegrar aðstoðar á sviði efnahagsmála, svo sem minnzt er á í grg. fyrir frv. Íslenzk launþegasamtök hafa hins vegar ekki talið sig þess umkomin, bæði sökum fjárskorts og e.t.v. að einhverju leyti vegna ónógs skilnings á kröfu tímans í þessu efni, að sjá sér fyrir slíkri aðstoð nema að mjög takmörkuðu leyti.

Það er engin tilviljun, að hugmyndin um Hagstofnun launþegasamtakanna hefur fyrst komið fram innan BSRB. En samkvæmt lögum frá 1962 um kjarasamninga opinberra starfsmanna skal kjaradómur m.a. hafa hliðsjón af afkomu horfum þjóðarbúsins, eins og lögin orða það, þegar það fellur í hans hlut að úrskurða um kjör opinberra starfsmanna. En þess er ekki að vænta, að samtökin telji það viðunandi, að ríkisvaldið og sérfræðingar þess hafi um það eindæmi að meta, hverjar afkomu horfurnar séu. Af því, sem ég hef þegar sagt, leiðir, að öðrum launþegasamtökum er það ekki síður nauðsyn að eiga kost þeirrar aðstoðar, sem hér um ræðir. Þetta ber ekki að skilja svo, að það sé hlutverk efnahagsmálasérfræðinga að segja launþegasamtökunum fyrir verkum eða marka stefnu þeirra. Hagfræðin er nú einu sinni tækni, en ekki .stjórnmála— eða efnahagsmálastefna. Þá tækni má nota í þágu hvaða markmiða sem er í þessum málum, á sama hátt og flugtæknina má jafnt nota til þess að fljúga til Washington eða Moskvu. En án þessarar tækni verða hvorki gerðar skynsamlegar tillögur um skipan slíkra mála né framkvæmd þeirra.

Nú er það svo, eins og kunnugt er, að stjórnvöld vilja gjarnan hafa friðsamlega sambúð við launþegasamtökin. Slíkt þarf ekki alltaf að vera af góðvilja einum sprottið í þeirra garð, heldur er það augljóst, að með tilliti til þess mikla valds, sem launþegasamtökin hafa yfir að máða, torveldar það stjórn allra efnahagsmála, ef ekki er hægt að hafa við þau friðsamlega sambúð. Oft á tíðum hefur það borið við að undanförnu, að af hálfu ríkisvaldsins hefur beinlínis verið óskað eftir því, að launþegasamtökin gerðu ákveðnar tillögur, um lausn efnahagsmála og ég hygg það sé rétt með farið hjá mér, að þess sé skemmst að minnast, að slíkt átti sér m.a. stað á s.l. hausti. Þess er varla von, að launþegasamtökin leiti þá í því efni á náðir t.d. hagdeildar Seðlabankans eða Efnahagsstofnunarinnar og leiti tillagna þaðan. Jafnvel kjararannsóknanefnd, sem launþegasamtökin eiga aðild að — þó að ekki sé nema gott um störf hennar og hlutverk að segja, þá getur hún ekki gegnt því hlutverki, sem hér er um að ræða, vegna þess að kjararannsóknanefnd lýtur sameiginlegri yfirstjórn atvinnurekenda og launþega, þannig að frá henni getur auðvitað ekkert komið nema það, sem þessir aðilar eru sammála um. Þess vegna verður það gjarnan svo, að þegar slíkar tillögur á að gera af hálfu launþegasamtakanna, sezt einhver góður og gegn maður oftast nær vafalaust niður í horn og semur óskalistann út úr höfðinu á sér um það, hvað eigi að gera. En vegna þess að slíkt byggist, sem varla er von til, ekki á staðreyndum efnahagslífsins, vill gjarnan vera svo, ef þessar tillögur á að skoða niður í kjölinn, að þar stangar e.t.v. hvað annað, dæmið gengur ekki upp, þannig að slíkar tillögur er þá ekki hægt að taka alvarlega. En ef til þess kæmi, að slíkri stofnun sem hér er lagt til væri komið á fót, væri um gerbreytta aðstöðu að ræða í því efni.

Ég dvelst svo ekki lengur við þá hlið málsins, sem að hagsmunum launþega samtakanna snýr, en mun snúa mér, að því, sem snertir hagsmuni þjóðarheildarinnar. Því að væri hér einvörðungu um að ræða hagsmunamál launþegasamtakanna, mætti segja sem svo, að það sé þeirra að meta það, hvort slíkri stofnun skuli komið á fót og standa straum af kostnaði við hana án framlaga af almannafé. En að mínu áliti hníga einnig sterk rök að því, að stofnun sem þessi gæti átt mikilvægu hlutverki að gegna til almenningsheilla.

Ein meginorsök þess vanda, sem við hefur verið að etja í efnahagsmálum Íslendinga frá upphafi síðari heimsstyrjaldar og til þessa, hefur verið sú, að ekkert samræmi hefur verið á milli þróunar teknanna og þá fyrst og fremst kaupgjaldsins, sem launþegasamtökin hafa úrslita áhrif á, annars vegar og hinnar almennu efnahagsmálastefnu, sem ákvörðuð er af ríkisvaldinu, hins vegar. Engri ríkisstj., sem á þessu þriggja áratuga tíma bili hefur setið að völdum hér á landi, hefur tekizt að koma til leiðar því samstarfi við launþegasamtökin, sem slíkt gæti tryggt. Afleiðingin hefur svo orðið örari verðbólguþróun, en í nokkru Evrópulandi öðru og margvísleg önnur vandamál. Innlenda verðlagið hefur hækkað miklu meira, en í helztu viðskiptalöndunum. Af því hefur leitt hallarekstur útflutningsatvinnuveganna, halla í utanríkisviðskiptum, erlenda skuldasöfnun, gjaldeyrisskort og önnur vandræði. Úrræðið, sem gripið hefur verið til, svo að ekki komi til stöðvunar útflutningsins, hefur svo verið síendurteknar gengislækkanir, stundum að vísu dulbúnar, eins og þegar bátagjaldeyririnn var innleiddur á sínum tíma . Og sem annað dæmi um dulbúna gengislækkun má nefna yfirfærslugjaldið í tíð vinstri stjórnarinnar. Alltaf hafa þessar ráðstafanir verið gerðar í fullri andstöðu við launþegasamtökin, sem svarað hafa svo með því að knýja fram hærra kaupgjald, sem eytt hefur hagnaði útflutningsatvinnuveganna af gengislækkununum. Þá hefur ný gengislækkun orðið óhjákvæmileg og svo koll af kolli.

Það er vissulega hægt að halda öllu fljótandi um stundarsakir með slíkum einhliða aðgerðum stjórnvalda, þó að gerðar séu í trássi við launþegasamtökin, en ekki heldur nema um stundarsakir, því að fyrr eða síðar kemur að því, að hinar sífelldu gengislækkanir eyðileggja trú fólksins á gildi peninganna, en með því er grundvellinum kippt undan því, að efnahagskerfið sé starfhæft og öngþveiti óðaverðbólgu heldur innreið sina. Ég tel mig ekki gera mig sekan um neitt trúnaðarbrot, þó að ég segi það hér, að ég hef a.m.k. allt s.l. ár, bæði innan míns flokks og á opinberum vettvangi, ekki dregið neina dul á þá skoðun mína, að þessi hefðbundnu úrræði hafi nú gengið sér til húðar og leita verði nýrra, ef forðast á algera upplausn efnahagskerfisins. EFTA–aðildin gerir þetta enn meira aðkallandi en fyrr, því að vegna hennar verður misræmi milli innlends og erlends verðlags, sem þyrfti því að lagfærast skjótar en ella, ef samkeppnin frá EFTA—löndunum á ekki að leggja iðnaðinn fyrir heimamarkaðinn í rúst. En hvaða úrræði eru þá fyrir hendi? Eru til aðrar einhliða ráðstafanir, en gengislækkanir, sem hægt er að framkvæma í trássi við launþegasamtökin? Það má vera. En hverjar eru þær? Á að lögbinda allt kaupgjald? Hver vill gera sig að talsmanni fyrir því?

Nú fara kosningar í hönd og næstu mánuðir, þegar stjórnmálaflokkarnir biðla til kjósenda, verða skemmtilegir tímar fyrir hinn óbreytta borgara.

„Klippt og kembd og þvegin

komin er hún á stallinn,

hafra, mjólk og heyin

henni gefur karlinn,“

kvað eitt af góðskáldum okkar um uppáhaldshryssu sína. Já, það þarf ekki að efa, að vel verður kjósendum séð fyrir kembingunni og þvottinum a.m.k. Næstu mánuðina skemmtir þeim fjölmennur, margraddaður kór, þar sem tenórarnir syngja annars vegar lof framtaki, frelsi og einstaklingshyggju, en hins vegar þruma svo bassarnir áætlunarbúskap, skipulagningu og vinstri stefnu. Það er svo kannske önnur hlið á málinu, sem ég skal ekki fara út í hér, að þessi glamuryrði bæði tenóranna og bassanna eiga rót sína að rekja til hugmyndafræði, sem tilheyrir liðinni öld, en ekki nútímaþjóðfélagi.

Svo að maður víki að tenórunum, þá er kenning þeirra sú, að eigingirnin sé æskilegasti hvati mannsins til dáða og öllum sé heimilt að ota fram sínum tota, ef það ekki beinlínis brjóti í bága við refsilöggjöfina. Þetta gat átt við á þeim tímum, þegar hver bjó að sínu, eins og Bjartur í Sumarhúsum og afkoman var komin undir árangri baráttu mannsins við náttúruöflin. En það á ekki að sama skapi við, þegar menn fara að búa í sambýli. Þá er félagshyggja, a.m.k. að vissu marki, óhjákvæmileg. Svo að maður víki að bössunum og slagorðum þeirra, þá virðist sú hugmyndafræði, sem þar liggur fyrst og fremst að baki, vera hinar steinrunnu kenningar Marxismans, sem einnig er arfur frá síðustu öld. En þetta liggur nú kannske utan við það verkefni, sem hér er um að ræða og ekki þarf að draga í efa, að hér verður sungið.

En þá kem ég að hinni hliðinni, þeirri sem snertir hafrana, mjólkina og heyin. En ég óttast, að þar komi skuturinn til að liggja eftir. Hvernig á að leysa hin aðkallandi vandamál, sem við blasa að loknum kosningum og snerta lífsafkomu hvers einasta þjóðfélagsborgara? Hversu vel sem raddböndunum er beitt við framsögn áður nefndra glamuryrða, verður enginn nær um það, hvernig söngvararnir hugsa sér að leysa þessi aðkallandi vandamál. Hvað á að taka við að loknu verðstöðvunartímabilinu? Á að halda verðstöðvuninni áfram og ef svo er, hvernig á að afla fjár til þess, þar sem fyrir því hefur ekki verið séð nema til 1. september? Eða á að reka ríkissjóð með stórfelldum halla á tímabilinu og láta hann taka lán í Seðlabankanum? Vera má, að einhverjir líti þá lausn hýru auga, en hagfræði hefur það ekki verið talin hingað til.

Ef verðstöðvuninni verður hætt, þá yrði það spurning, sem vissulega snertir mjög hagsmuni almennings, hvernig leysa eigi þann vanda, sem leiðir af þeim verðhækkunum, sem þá hljóta að verða þegar í stað. Nú eru kjarasamningar lausir, eins og kunnugt er, á hausti komanda og enginn gerir öðru skóna en að einhverjar talsverðar kaupgjaldshækkanir eigi sér þá stað. Að vísu er verð á útflutningsafurðum hagstætt sem stendur, en hin langvarandi og erfiða kaupdeila á togaraflotanum bendir þó til þess, að útgerðin telji sig ekki geta tekið á sig miklar kostnaðarhækkanir. Já, það er hrollvekja að hugsa til þeirra vandamála, sem blasa við, þó að sennilega verði eftir föngum reynt að taka upp léttara hjal í þeim efnum, a.m.k. fram að kosningum. Og hvað sem öðru líður, þá gerum við flm. þessa frv. okkur ljóst, að samþykkt þess mundi ekki flytja nein fjöll í þessu efni og ná út af fyrir sig skammt til lausnar þeim geigvænlegu vandamálum, sem fram undan eru.

En ef sú skoðun mín er rétt, að þær einhliða ráðstafanir, sem til þessa hafa verið gerðar, hafi gengið sér til húðar og ef sú leið er ekki talin fær né heppileg, að lögbinda kaupgjald, verður ekki séð, að unnt sé að forða upplausn í efnahagslífinu, nema náð verði einhverju samkomulagi við launasamtökin. Vissulega verður sú leið ekki auðveld, jafnvel þó að hægt væri að skapa stjórnmálaleg skilyrði fyrir slíku, en sú hlið málsins verður ekki rædd hér.

Þeir Bjarni Benediktsson og Ólafur Thors höfðu í kringum 1950 forustu um það, að stjórnvöld tóku í þjónustu sína tækni nútíma hagfræði við stjórn efnahagsmála og þeir eiga fyrir það skilið lof. Síðan hafa stjórnvöld notað þessa tækni við mótun stefnunnar í efnahagsmálum og var vinstri stjórnin þar engin undantekning. En afstaða launþegasamtakanna til hennar hefur jafnan verið neikvæð, þannig að hjá þeim hefur jafnvel skapazt sú trú, að þessari tækni hlyti alltaf að vera beint gegn sér og sínum hagsmunum. Jafnvel á tímum vinstri stjórnarinnar, sem hafði það á stefnuskrá að leita samráðs við launþegasamtökin um allar aðgerðir í efnahagsmálum, var hið sama uppi á teningnum. Því eru gengislækkanir og aðrar slíkar efnahagsmálaaðgerðir orðnar það óvinsælar af alþýðu manna, að óvíst má telja, að stjórnmálaleiðtogar þeir, sem að þeim hafa staðið hvað eftir annað, héldu heiðri og sönsum, ef sjálfboðaliðar úr þeirra röðum gerðust ekki til þess að afsaka það fyrir fólkinu, að í raun og veru séu það ekki þeir, sem gera beri ábyrga fyrir þessu, heldur hagfræðingarnir, sem þeir hafi látið blekkjast af. Ekki má skilja þetta svo, að slíkt sé barið út að þeirra undirlagi og vilja. En þó að slíkur áróður sé þeim án efa á móti skapi, þá er hann sennilega óhjákvæmileg undirstaða áframhaldandi fylgis þeirra og valda, þannig að mér dettur í hug í þessu sambandi Strompleikur góðskálds okkar, Halldórs Kiljans, sem margir hv. alþm. fengu að sjá á sínum tíma. Þar voru mæðgur tvær, sem niðursetningur var hjá. Sú eldri, sem húsum réð, kom líki þessa niðursetnings fyrir í skorsteininum hjá sér, en hirti áfram meðgjöfina með honum. Stúlkunni, dóttur hennar, var þetta mjög óhugnæmt og vildi láta fjarlægja líkið úr strompinum, en gamla konan benti henni á, að það væri þetta lík, sem hefði verið undinstaða afkomu þeirra mæðgna fram að þessu. Og svipað á kannske við í því efni, sem hér er. um að ræða, því að það er nú einu sinni svo og það verðum við hagfræðingarnir einnig að gera okkur skiljanlegt, þó að okkur sé þetta auðvitað ekki hugnæmt, að það verður að halda fleirum við trúna, en þeim sennilega tiltölulega fáu þjóðfélagsborgurum, sem lesa blaðagreinar um efnahagsmál eða þarfir þjóðarðbúsins.

Auðvitað er ekki hægt að gefa vonir um það, að samþykkt þessa frv. kippi á skammri stundu í þann lið, að grundvöllur verði fyrir samræmingu launamálastefnu launþegasamtakanna og þeirrar efnahagsmálastefnu, sem rekin er af ríkisvaldinu. Þó að ekki væri um annað að ræða en að grundvöllur væri myndaður fyrir því, að þessir aðilar gætu þó sín á milli talað saman sama mál, þá væri það að mínu áliti mikilvægt spor í áttina til þess, að forðað væri frá því geigvænlega öngþveiti, sem annars virðist blasa við.

Varðandi sjálfan flutning málsins má segja það, að ástæðan til þess, að það erum við hv. 6. þm. Sunnl. og ekki aðrir, sem erum flm., er sú, að við erum sérstaklega tengdir þeim samtökum, sem fyrst hafa hreyft þessari hugmynd. Við höfum að vísu rætt málið við varaforseta Alþýðusambands Íslands, hv. 4. þm. Norðurl. e., en við skiljum vel þá afstöðu hans, að hann vilji ekki á þessu stigi málsins binda sig við málið með því að gerast meðflm. Hins vegar dreg ég það ekki í efa, að bæði sem varaforseti Alþýðusambandsins og sem þm. muni hann skoða þetta mál málefnalega frá öllum hliðum og marka afstöðu sína til þess og sama máli, veit ég, að muni gegna um hv. aðra þdm., þó að við höfum ekki til annarra leitað sérstaklega um meðflutning að málinu.

Varðandi einstakar gr. frv., þá sé ég ekki ástæðu til að ræða þær sérstaklega. Þar er auðvitað um ýmis álitamál að ræða, eins og t.d. varðandi stjórn samtakanna, hvort hana skuli skipa með þeim hætti, sem lagt er til í frv. og gæti það sjónarmið auðvitað komið fram, að óeðlilegt sé að gera ráð fyrir því, að frv. gerir ekki ráð fyrir því, að þessi stjórn hafi nema mjög lítil völd. Að sjálfsögðu mundum við flm. vera til viðtals um einhverjar breytingar á þessu atriði og öðrum tæknilegum atriðum, ef samkomulag um slíkar breytingar væri líklegt til þess að auðvelda framgang málsins, bæði í þessari hv. d. og á öðrum vettvangi.

Ég vil svo aðeins að gefnu tilefni minnast á það, að það mundi vera á misskilningi byggt, ef því væri haldið fram, að hér væri í rauninni um svipað verkefni að ræða eins og kjararannsóknarnefnd gegnir nú. Hlutverk kjararannsóknarnefndar, eins og kunnugt er, er það að leggja sameiginlegt mat á ákveðnar staðreyndir varðandi kjaramálin. Ef þarna væri eingöngu um að ræða upplýsingar um staðreyndir, þá má segja, að það væri eðlilegt, að Hagstofan hefði það með höndum. En þegar um atriði er að ræða eins og t.d. kaupmátt launa, þá má meta það á mjög marga vegu, sem frá vísindalegu sjónarmiði geta allir verið jafn skynsamlegir, hvernig kaupmátt launa skuli meta. Þess vegna er það í sjálfu sér ákaflega þýðingarmikið, ef vinnuveitendur og launþegar geta komið sér saman um sameiginlegt mat á þessum atriðum. Þetta verður auðvitað megin viðfangsefni kjararannsóknarnefndar og vafalaust hefur hún gert mikið gagn, því að ef samkomulag hefur náðst um þessi atriði, þá sparar það, að dýrmætum tíma yrði varið í það, þegar til vinnudeilna kemur, að þrátta um slík atriði. En hlutverk þessarar stofnunar, er í rauninni allt annað, tillögugerð, áætlanir og þess háttar og þar sem kjararannsóknarnefnd er stjórnað sameiginlega, eins og kunnugt er, af vinnuveitendum og launþegum, þá er þess ekki að vænta, að hún geti gegnt því hlutverki, nema þá í alveg sérstökum undantekningartilfellum. Af því að ég hef orðið nokkuð var þessa misskilnings, þá taldi ég rétt að leiðrétta hann nú þegar.

Að lokum getur það verið nokkurt álitamál, til hvaða n. skuli vísa þessu máli. Allshn., fjhn. og heilbr.– og félmn. gætu þar allar komið til álita, - en þar sem ég lít svo á, að hér sé í rauninni fyrst og fremst um almennt efnahagsmál að ræða, þá mundi ég telja eðlilegast, að málinu væri vísað til fjhn., en legg ekki á það neina áherzlu, ef aðrar skoðanir koma fram.