01.04.1971
Efri deild: 85. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 107 í C-deild Alþingistíðinda. (2483)

203. mál, Hagstofnun launþegasamtakanna

Björn Jónsson:

Herra forseti. Þar sem ég stend nú að sameiginlegu nál. með hv. frsm. n., tel ég það ekki viðeigandi eða efni til, að ég fari að upphefja neinar stórfelldar deilur um einstök atriði í sambandi við málið, en ég vildi þó aðeins segja nokkur orð um það, sem hann nefndi misskilning af hálfu Alþýðusambandsins á samanburði kjararannsóknan. og Hagstofnun. Þegar þetta er metið, verðum við að hafa hvort tveggja í huga, hvernig kjararannsóknan. hefur unnið og eins hitt, hvernig starfsemin hefur farið þar úr hendi og hverju mætti þar breyta og bera það síðan saman.

En sannleikurinn er sá, að kjararannsóknan. hefur ekki aðeins unnið að rannsóknastörfum, sem báðir aðilar hafa staðið að, eins og rannsókn kaupgjalds og skýrslugerð um vinnutíma og mat á breytingu á kaupi og annað því um líkt, sem hefur verið eins konar rútínuverk, sem þarna hefur verið unnið, en sem ég tel, að geti allt eins átt sér stað hjá einhverjum af þeim öðrum stofnunum, sem fyrir eru í landinu, t.d. Hagstofu Íslands og hefði þar verið tekið upp fyrir ekki mjög löngu síðan, ef sú stofnun hefði haft til þess fjármagn og starfskraft. Ég tel, að það væri vel hægt að hugsa sér, að þessi þáttur í störfum kjararannsóknan. væri falinn t.d. Hagstofunni, en eftir stæði þá það, sem öðrum þræði hefur verið hlutverk kjararannsóknan., þó að um það hafi ekki gilt nein ákveðin skráð l. eða reglur að veita samtökunum hverjar þær upplýsingar, sem hún hefði getað unnið að, um tölfræðileg efni, sem launamál varða og gert þannig aðila vinnumarkaðarins hæfari til þess að taka sínar ákvarðanir í sambandi við kjaramálin. Það er þess vegna ekkert því til fyrirstöðu af hálfu kjararannsóknan. og hefur reyndar verið praktíserað í verulegum mæli, að vinna einmitt að þeim þáttum, sem getið er um í hugmyndinni um Hagstofnun launþega.

Það er rétt að geta þess líka í þessu sambandi, að svo hefur verið háttað starfsemi kjararannsóknan., að af tveim sérfræðingum, sem þar hafa unnið, hefur annar raunverulega verið valinn af launþegasamtökunum og hinn af hálfu vinnuveitenda. Þess vegna hefur verið opin leið að fá leiðbeiningar hjá þessum starfsmönnum í þeirri veru, að þar væri raunverulega um aðila að ræða, sem bæri að bera hag viðkomandi sérstaklega fyrir brjósti og hygg ég, að þá sé komið inn á mjög líkt, eða sama svið og Hagstofnun launþega er ætlað að vinna.

En hvað um það. Um kjararannsóknina gilda ekki l. að öðru leyti en því, að það er ákveðið með sérstökum l., af hverjum kostnaður við störf stofnunarinnar skuli greiddur. Hins vegar hafa það verið óskráð lög og samkomulag frá upphafi, hvernig starfseminni hefur verið hagað og auðvitað má vel hugsa sér að gera þar breytingar á, eins og hv. frsm. gat um. Um hitt, að það sé annar misskilningur Alþýðusambandsins, að þarna sé hugsuð einhvers konar þvingun á því, hvaða aðilar í launþegahópnum vinni saman í Hagstofnun launþega og eigi aðild að henni, þá er það að vísu rétt, að enginn er, skyldaður til þess samkv. l., en ef frv. er samþykkt óbreytt, felur það þó að mínu viti í sér óbeina þvingun, þar sem það er gert að skilyrði fyrir því, að samtökin njóti þeirrar fjárhagslegu aðstoðar, sem frv. felur í sér, að þar sé um ákveðið samstarf að ræða. Þetta er engin bein þvingun, það er alveg rétt og enginn er skyldaður til þess að sæta því, en hins vegar hygg ég, að þið sjáið, að þarna er ekki val um það, að geta haft sína eigin stofnun, eins og Alþýðusambandið hefur — hafði að minnsta kosti á undanförnum árum — fremur kosið. Það er ekkert val um það, að fá aðstoð hins opinhera til þess, heldur aðeins á milli þess að fá enga aðstoð eða hafa samtök með þeim samtökum, sem þarna er rætt um. Þetta vildi ég aðeins láta koma fram, en eins og ég sagði, þá er þetta ekki til þess flutt að vekja deilur um málið. Ég er nál. alveg sammála og þeirri afgreiðslu, sem hv. fjhn. hefur orðið ásátt um.