22.10.1970
Neðri deild: 4. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 120 í C-deild Alþingistíðinda. (2491)

22. mál, verkfall stýrimanna, vélstjóra o.fl.

Landbrh. (Ingólfur Jónsson) :

Herra forseti. Það, sem við segjum, er nú tekið alveg orðrétt upp á band og þá þurfum við náttúrlega ekki að vera að þræta um það, hvað hafi verið sagt. Ég sagði, að mönnum fyndust þessi laun há og það væri erfitt að meta það, hvort laun stýrimanna og yfirmanna á skipunum og vélstjóranna væru of há samanborið við aðrar stéttir. Ég sagði, að það væri eðlilegt, að vélstjórar, sem ynnu á farskipunum, væru ekki ánægðir með það, að vera á lægri og lakari kjörum, en vélstjórar, sem vinna í landi. Og ég segi það aftur, að mér finnst það eðlilegt, að þeir vilji hafa a.m.k. svipuð kjör. En ég tók það fram, að hitt væri miklu erfiðara að meta, vegna þess að við hefðum ekki aðrar hliðstæðar stéttir til samanburðar.