27.01.1971
Neðri deild: 39. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 140 í C-deild Alþingistíðinda. (2500)

184. mál, skólakerfi

Sigurvin Einarsson:

Herra forseti. Það er ekki ætlun mín að fara að ræða þau tvö frv. efnislega, sem hér hefur verið talað fyrir, að þessu sinni, heldur vil ég vekja athygli á því, að hér er um mál að ræða, sem snerta námsferil íslenzks æskufólks á komandi tímum. Og þetta snertir svo að segja hvert einasta heimili í landinu á einn eða annan hátt. Þess vegna er hér um mjög stór mál að ræða og vandasöm. Ég tel því, að það sé ákaflega mikil nauðsyn á því, að það gefist tóm til þess að athuga þessi mál, ekki bara tóm fyrir alþm. að athuga þau vel, heldur tóm fyrir forustumenn menntamála víðs vegar um landið, foreldra og forustumenn sveitarfélaga, áður en þau verða að lögum.

Ég er ekki með þessu á nokkurn hátt að gagnrýna verk þeirra ágætu manna, sem hafa undirbúið þessa væntanlegu löggjöf. Ég efast ekkert um, að þeir hafa unnið vel. Ég vil segja, að það sé skilyrði fyrir því, að þessi lög komi að því gagni, sem allir vilja, að þau komi, að þau séu athuguð rækilega af því fólki, sem á að búa við þau. Og fólk býr við mjög misjafnar aðstæður á margan hátt víðs vegar um landið. En fyrst og fremst legg ég til og tel sjálfsagt, að kennarar og skólastjórar og forustumenn menntamála í héruðum landsins fái send þessi frv. til athugunar og að þeir fái nógan tíma til að athuga þau. Af þessum ástæðum er það, sem ég lít svo á, að á þessu þingi megi ekki afgreiða þessi mál. Ef það verður gert samt, þá held ég, að það verði hætt við mistökum og flausturslegri afgreiðslu. Og það má ekki eiga sér stað. Að vísu getur menntmn., sem þessi mál koma fyrir, sennilega sent málin til umsagnar. En ég vil beina þeirri fsp. til hæstv. menntmrh. nú strax, hvort hann telji það ekki eðlilegt, að slíkt tóm gefist til þess að athuga þessi mál, að þau verði ekki afgreidd á þessu þingi, heldur væntanlega á næsta þingi. Ég býst við, að kennurum þyki full ástæða til að bera ráð sín saman um þessi mál og félagssamtök þeirra ásamt félagssamtökum sveitarfélaga vilji segja sitt álit á þeim og þurfi að gera það. En það er ekki neitt tækifæri til þess fyrir þessa aðila, ef á að koma þessum málum gegnum þetta þing.

Það er síður en svo, að ég vilji hindra málið. Ég vil með þessari till. minni eða hugmynd minni leggja áherzlu á það, að þau verði afgreidd á sem allra beztan hátt frá öllum sjónarmiðum. Ég á sæti í þeirri n., sem væntanlega fær þessi frv. og ég mun leggja þar áherzlu á þetta einnig. En áður en málið fer til 2. umr., vil ég gjarnan spyrja hæstv. menntmrh., hvort honum finnist þetta ekki eðlilegt og vilji stuðla að því, að þessi vinnubrögð verði höfð á afgreiðslu málanna.