27.01.1971
Neðri deild: 39. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 149 í C-deild Alþingistíðinda. (2504)

184. mál, skólakerfi

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Ég þakka þeim hv. þm., sem talað hafa við þessa 1. umr. málsins, fyrir mjög jákvæðar undirtektir þeirra og ég fagna eindregið þeim skilningi, sem þegar í upphafi kemur fram af hálfu málsvara allra flokka á mikilvægi þessa máls, sem hér er um að ræða og einhuga skoðun allra á nauðsyn þess, að málið nái fram að ganga og það fái sem rækilegasta athugun. Að öðru leyti langar mig til að víkja að örfáum fsp., sem til mín hefur verið beint og gefa nokkrar upplýsingar í tilefni af ummælum einstakra hv. þm.

Hv. 1. þm. Austf., Eysteinn Jónsson, vék að verzlunarmenntuninni. Í því sambandi vil ég láta þess getið, að hún var ekki á vegum menntmrn. fyrr en með framkvæmd nýju stjórnarráðslöggjafarinnar, 1. jan. 1970, var áður í öðru rn. En mjög fljótlega, eftir að verzlunarmenntunin hafði verið falin menntmrn., fól það skólastjórum verzlunarskólanna tveggja, sem báðir eru einkaskólar, Verzlunarskóla Íslands og Samvinnuskólans, að semja skýrslu um stöðu verzlunarmenntunarinnar og gera till. um nýskipan hennar. Nú nýlega hefur komið fram ósk um það, eins og mér heyrðist þm. vera kunnugt um, að fleiri aðilar komi hér til og hefur rn. því alveg nýlega ákveðið að skipa formlega n., sem þessir skólastjórar eigi báðir sæti í með öðrum aðilum, til þess að fjalla um stöðu verzlunarmenntunarinnar og gera till. um nýskipan hennar í sambandi við þá allsherjar nýskipan skólakerfisins, sem ráðgerð er með þeim frv., sem hér eru til umr. (Gripið fram í: En hvað með iðnfræðsluna?) Ég skal líka með ánægju svara þessu. Það er starfandi n. til endurskoðunar á öllu tækninámi, sem nú er stundað í landinu og hefur sérstaklega það verkefni að hugleiða tengsl á milli hinna einstöku stofnana, hinna einstöku sviða, þar sem iðn— eða tækninám er stundað, þ.e.a.s. verknámið að einu leyti, iðnfræðslan að öðru leyti og störf Tækniskólans að enn öðru leyti. Jafnframt munu tengslin t.d. við stýrimannaskóla og vélstjóranám koma þarna til athugunar. Ég legg mikla áherzlu á það, að þessi n. skili áliti nú alveg á næstunni, þannig að álit hennar geti komizt í hendur menntmn. þessarar hv. d., þegar hún þarf að fjalla um þessi mál, sem hér er um að ræða. Þetta er alveg fullkomlega réttmæt og skynsamleg aths. Þetta hefur okkur verið ljóst, að það þyrfti að vera fyrir úttekt á verk–, iðn— og tæknináminu til athugunar og hliðsjónar, þegar menn mynda sér endanlega skoðun um skipan fræðsluskyldunnar á framhaldsskólastigunum, sem taka við af skyldunámsstiginu. Ég vil fullvissa þm. um það, að þessi n. mun ljúka störfum alveg á næstunni, jafnvel í byrjun næsta mánaðar, en örugglega á meðan þetta þing enn situr.

Hv. þm. Eysteinn Jónsson ræddi ýtarlega um skólana sem starfsstofnanir og starfsvettvang, og ég vil aðeins í því tilefni taka það fram, að ég er honum alveg sammála um þau grundvallarsjónarmið, sem hann þar lýsti. Það hefur verið stefnt í þá átt hér á landi og í nálægum löndum, sérstaklega á Norðurlöndunum, á undanförnum árum, að skólarnir eru í vaxandi mæli, eins og þeir eiga að vera, að verða starfsstofnanir, en ekki eingöngu stofnanir, sem menn vinna í hluta af sínum starfstíma, en brúa sig svo undir starfið annars staðar. En mér er ljóst, að hér er við marga erfiðleika að etja, ekkert frekar hérna hjá okkur, heldur en í nálægum löndum. Vandamálið er alls staðar fyrir hendi, en stefnan er alls staðar þessi og ég nota þetta tækifæri til þess að láta það í ljós, að í þessu efni er ég alveg sammála þeim grundvallarsjónarmiðum, sem þm. lét í ljós um þetta efni.

Hv. þm. Sigurvin Einarsson spurði, hvernig málið hefði verið kynnt og hvaða hátt ég hefði hugsað mér á afgreiðslu þessara mála. Um kynningu málsins er það að segja, að eins og hefur þegar komið fram hjá einum hv. þm., Gunnari Gíslasyni, eru málin þegar komin í hendur allra skólastjóra á landinu og allra skólanefnda. Frv. var sent sem handrit í haust og þá var það kynnt sveitarstjórnum og sent til athugunar öllum samtökum kennara og yfirleitt öllum þeim félagssamtökum og embættismönnum, sem talið var eðlilegt að mundu láta sig málið varða. Og síðan var í desembermánuði haldin stór ráðstefna á Hótel Sögu, þar sem embættismenn, höfundar frv., aðrir embættismenn og fulltrúar fjölmargra samtaka, kennarasamtaka, nemendasamtaka, sveitarfélaga og fleiri aðilar komu saman til þess að ræða málin, eftir að hafa haft þau til athugunar í eina 10 daga. Sú ráðstefna stóð heilan eftirmiðdag, þar var skipzt á skoðunum og hún reyndist mjög gagnleg. Í framhaldi af þessari ráðstefnu hafa farið fram sérstakar viðræður við Samband ísl. sveitarfélaga um málið í heild. Þeim er ekki lokið, en niðurstaða þeirra mun að sjálfsögðu verða send menntmn. á sínum tíma . Hins vegar hefur sú kynning, sem þegar hefur átt sér stað og ráðstefnan á Hótel Sögu orðið til þess, að ýmsir aðilar hafa þegar sent aths. eða sent hugmyndir í sambandi við frv. Vil ég þar t.d. nefna þjóðkirkjuna eða biskupsembættið og félag námsstjóra. Þessar till. voru sendar menntmrn. og það mun láta þær ganga til hv. menntmn., þegar eftir að hún hefur fengið málið til meðferðar hér á hinu háa Alþingi.

Hv. þm. Sigurvin Einarsson spurði, hvaða hátt ég hefði hugsað mér um afgreiðslu málsins. Um það vil ég segja, að ég hef auðvitað áhuga á því, að málið fái afgreiðslu sem fyrst, en þó enn meiri áhuga á hinu, að frv. fái sem rækilegasta athugun og góða afgreiðslu.

Hv. þm. Magnús Kjartansson nefndi það, að auðvitað væri ekki nóg að samþykkja góð og vel samin frv. eins og þau, sem hér er um að ræða, í kjölfar þess yrði að fylgja aukið fjármagn. Ég vil aðeins taka fram, að mér, er að sjálfsögðu ljós þessi staðreynd og ríkisstj. hefur gert sér grein fyrir því, að nái þessi frv. fram að ganga, hljóta fjárveitingar til þess skólahalds, sem þau fjalla um, að breytast mjög verulega frá því, sem nú er og er reiðubúin að leggja til við Alþ., að nauðsynlegar fjárveitingar verði veittar.

Hv. þm. Gunnar Gíslason ræddi sérstaklega um ákvæði frv. um jöfnun aðstöðu nemenda í dreifbýli og þéttbýli. Hann lagði áherzlu á, að hér mætti ekki verða um bókstafinn einan að ræða og vil ég aðeins undirstrika, að ríkisstj. er auðvitað ljóst, að hér er fyrst og fremst um fjárhagsatriði að ræða og er reiðubúin til þess, ef Alþ. samþykkir frv., að draga sjálfsagðar ályktanir af því, ef Alþ. samþ. þau tiltölulega skýru ákvæði, sem um þetta eru í frv. og gerir sér algerlega ljóst, að það kallar á aukið fé.

Hv. þm. Hannibal Valdimarsson ræddi alveg réttilega um nauðsyn þess að taka í skólahaldi ekki aðeins tillit til þarfa og óska nemenda, sem hafa hagnýtar bóknámsgáfur, heldur einnig hinna, sem hafa verknámsgáfur. Um þetta vil ég aðeins segja, að eitt meginatriði þess nýja skólakerfis, sem hér er gert ráð fyrir, er og á að vera aukinn sveigjanleiki kerfisins frá því, sem áður hefur verið. Í þessu tel ég tvímælalaust, að felist viðurkenning á því atriði, sem hann einmitt lagði mikla áherzlu á, að það þarf að haga skólastarfinu eftir því, um hvers konar nemendur er að ræða,— miða við þarfir og hæfileika nemendanna og eins, að hverju þeir stefna í lífi sínu, í námi sínu og starfi. Á þessu held ég, að sé fullur skilningur hjá höfundum frv. og þeim, sem koma til með að bera ábyrgð á framkvæmd þess, ef að lögum verður.

Að svo mæltu vil ég aðeins leyfa mér að endurtaka þakkir mínar til hv. þm. fyrir góðar undirtektir við mikilvægt mál.