28.01.1971
Neðri deild: 40. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 151 í C-deild Alþingistíðinda. (2506)

184. mál, skólakerfi

Jónas Árnason:

Herra forseti. Ég hef ekki kvatt mér hljóðs til þess að fara að flytja ýtarlega ræðu um þau miklu frv., sem hér liggja fyrir. Ég játa það, að vitsmunir mínir leyfa ekki, að ég fari að flytja ýtarlega ræðu um þetta mál eftir ekki lengri tíma til athugunar, en manni hefur verið veittur síðan málinu var útbýtt. En mér sýnist við lauslega athugun eins og flestum, sem um málið hafa rætt, að frv. horfi til mikilla framfara í skólamálum.

Nei, ástæðan til þess, að ég kveð mér hljóðs, er sú, að ég vildi nota þetta tækifæri til þess að koma á framfæri fsp., sem að vísu er ekki beinlínis bundin þessu máli, sem er til umr. hér, en snertir þó skólamál. Ég hef lengi ætlað að beina þessari fsp. til hæstv. menntmrh. opinberlega og hef rætt málið persónulega við hann, en það hefur dregizt að beina fsp. þessari til hans opinberlega af ástæðum, sem hæstv. ráðh. eru kunnar. En fsp. er þessi:

Hvað líður reglugerð um skólakostnað, þ.e.a.s. um fyrirkomulag á greiðslum vegna skólakostnaðar?

Skólastjórar og aðrir þeir, sem bera ábyrgð .í rekstri skóla, hafa lengi beðið eftir slíkri reglugerð og þeir hafa vænzt þess, að hún mundi binda endi á ófremdarástand, sem lengi hefur ríkt í þessum efnum. Á þingi Sambands ísl. barnakennara í júnímánuði s.l. var samþ. harðorð ályktun um þetta mál og það var einnig rætt ýtarlega á skólastjóraþinginu í sumar. Í þeirri ályktun, sem ég nefndi, var þess getið, að það virtist háð duttlungum tiltekins manns, hvernig og hvenær þessar greiðslur væru inntar af hendi. Skólastjórum kemur að vísu saman um, að þetta sé hinn dyggasti embættismaður, en þeim finnst sumum, að hann sé kannske stundum óþarflega dyggur fjármálaráðuneytinu á kostnað menntmrn.

Handahófið í þessu efni veldur skólastjórum miklum erfiðleikum. Þegar þeir eru til að mynda að gera áætlanir um kennslustundafjölda samkvæmt beztu vitund um greiðsluskyldu ríkisins í því sambandi, þá er það næstum segin saga, að sú viðmiðun, sem þeir hafa tekið, er af hálfu rn. úrskurðuð röng, kvótinn, sem svo er kallaður, kennslustundakvótinn miðaður við nemendafjölda, er úrskurðaður allur annar og oft miklu lægri, en skólastjórarnir hafa áætlað og greiðslur fyrir umframkennsluna lenda þá á viðkomandi sveitarsjóðum og forráðamenn þeirra eru þá ekki alltaf útbærir á féð og standa fast á því, að ríkissjóði beri að greiða það. Þetta orsakar svo stöðugt styrjaldarástand, getum við sagt, milli oddvita og sveitarstjóra annars vegar og svo rn. hins vegar og í miðjum þessum átökum standa svo skólastjórarnir og sæta ámæli beggja fyrir óráðsíu.

En oddvitar og sveitarstjórar og aðrir slíkir, sem bera ábyrgð á fjárhag skólanna, eru reyndar ekki öfundsverðir af sínum hlut og fá margir heldur betur að kenna á handahófinu í þessum efnum, ekki aðeins að því er varðar kostnað af kennslu, heldur einnig ýmsa aðra kostnaðarþætti skólahaldsins. Þetta mun að vísu nokkuð misjafnt, jafnvel eftir landshlutum, því að mér skilst, að sumir skólar eða sveitarfélög hafi ekki undan miklu að kvarta í þessu efni. En það, sem ég segi hér, er miðað við Vesturland, þar sem ég er kunnugastur og ég ber reyndar þess fsp. fram að tilmælum skólastjóra og annarra forráðamanna skóla í þeim landshluta.

Varðandi þátttöku ríkisins í kostnaði vegna aukakennslu og eftirlits og launa starfsfólks, annars en kennara, hafa framlög varðandi þennan kostnað yfirleitt komið mánaðarlega, skilst mér, en aldrei þó fyrr en langt hefur verið liðið á viðkomandi mánuð. Og það hafa verið óskir skólastjóranna og virðist ekkert geta verið því til fyrirstöðu, að þessar greiðslur séu greiddar á reikning skólanna í upphafi hvers mánaðar, eins og tíðkast um launagreiðslur yfirleitt. En segja má, að, að undanförnu hafi alveg keyrt um þverbak að því er varðar greiðslur á framlögum ríkisins vegna kostnaðar af viðhaldi húsa og tækja, heilbrigðisþjónustu og akstri nemenda á milli heimila og skóla, — ég er hér sem sé fyrst og fremst að tala um heimavistarskólana, sveitaskólana þar efra. Ég get nefnt það sem dæmi, að ég ræddi við forráðamenn eins skólans í Vesturlandskjördæmi í fyrradag og þá stóðu málin þannig, að greiðslur og gjaldfærðir reikningar vegna þeirra kostnaðarliða, sem ég var að nefna, námu fyrir s.l. ár 3 millj. kr., en það var ekki kominn einn eyrir af framlagi ríkisins, sem á að vera, samkvæmt lögboðnu prósentuhlutfalli, tæpar 2 millj. Svipaða sögu hafa fleiri forráðamenn skóla þar að segja.

Viðkomandi skólayfirvöld og viðkomandi sveitarfélög hafa að sjálfsögðu haft af þessu mikla erfiðleika og gífurlegan kostnað vegna lána, sem þau hafa orðið að taka, oft með ærnum vöxtum að sjálfsögðu, sem nema tugum og jafnvel hundruðum þúsunda, til þess að halda skólastarfi gangandi. Þeir sem þarna eiga hlut að máli, vænta þess, að með nýrri reglugerð verði nú ráðin bót á þessu, þannig að í framtíðinni geti greiðslur vegna þessara kostnaðarliða átt sér stað ársfjórðungslega helzt — og ekki sjaldnar, en á hálfs árs fresti, svo að úr sögunni verði þeir erfiðleikar og sá gífurlegi aukakostnaður, sem viðkomandi sveitarfélög hafa orðið að taka á sig vegna þess handahófs og óvissu, sem ríkt hefur í þessum efnum að undanförnu. Ég vildi sem sé nota þetta tækifæri til þess að koma fram þessum óskum eða sjálfsögðu kröfum viðkomandi skólayfirvalda.