28.01.1971
Neðri deild: 40. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 157 í C-deild Alþingistíðinda. (2509)

184. mál, skólakerfi

Gísli Guðmundsson:

Herra forseti. Þegar ég kvaddi mér hljóðs í gær um þetta mál, var það eiginlega til þess að bera fram nokkrar fsp., sem mér komu í huga, til hæstv. menntmrh., á meðan ég hlýddi á þær umr., sem fram fóru í gær. Ég geri ráð fyrir því, enda sýnist mér umr. hafa verið hagað svo, að hér sé jöfnum höndum til meðferðar bæði frv., sem á dagskránni eru um hin almennu skólamál, þ.e.a.s. frv. til laga um skólakerfi og frv. til l. um grunnskóla. Ég verð að segja eins og fleiri, að það er aðeins örskammt, 1—2 dagar, síðan ég sá fyrst þessi frv. og hef ekki átt þess kost fyrr að fá vitneskju um, hvers efnis þau væru og þess vegna hefur mér ekki unnizt tími til að kynna mér til hlítar efni þeirra, sérstaklega hins mikla frv. um grunnskóla, eða grg., sem fylgja þeim, aðeins gripið niður á nokkrum stöðum, þar sem mér sýndist, að fjallað væri um mikilsverð atriði. Hins vegar sé ég, að um frv. þetta hafa fjallað á síðasta stigi kunnir og merkir skólamenn og ég geri ráð fyrir því, að þeir hljóti að hafa margt gott til mála að leggja, sem koma muni fram í þessum frv. og sumt af því hef ég þegar gert mér grein fyrir, að muni vera til bóta, eins og XIV. kafli frv. um grunnskóla, sem fjallar um ráðgjafar— og sálfræðiþjónustu í skólum. Hins vegar vil ég fresta því að svo stöddu að láta í ljós almennt álit á þessum málum, þangað til ég hef kynnt mér þau betur.

Ég vil í fyrsta lagi spyrja hæstv. menntmrh. að því, hvort hann telji ekki miður farið, að í n., sem fjallað hefur um þessi mál og skýrt er frá, að hafi verið skipuð, skuli ekki hafa verið skipaðir neinir skólamenn, sem reynslu hafa af barnaskólum og unglingaskólum utan Reykjavíkur, —hvort hann telji það ekki miður farið, enda þótt nm., sem skipaðir voru, séu allir út af fyrir sig mætir menn. Hægt hefði verið t.d. að hafa eitthvað fleiri menn í n. :En mér hefur sýnzt, að það hefði ekki verið illa til fallið, að í þessari n. hefðu verið einhverjir af þeim svæðum í landinu, þar sem skórinn kreppir mest að í þessum málum. Það á t.d. við þær skólanefndir og við þá kennara, sem nú starfa við húsnæðilausa heimavistarskóla eða farskóla. Segja má, að úr þessu megi bæta, það sé hægt að senda málið til umsagnar eða leita álits um málið. Það er raunar ekki alveg sama að gefa skriflega umögn um málið og að starfa í n. og fylgjast með öllu, sem þar fer fram. Ég hef heyrt það og má vera, að hæstv. ráðh. hafi tekið það fram í gær, að frv. hafi verið send ýmsum aðilum, e.t.v. formönnum skólanefnda og oddvitum sveitarstjórna og bæjarstjórum víðs vegar um land. Ég hef heyrt, að þetta sé svona. En þá vil ég spyrja hæstv. ráðh.: Hefur ekki verið gert neitt meira, hefur ekki verið óskað umsagnar þessara aðila um frv.?

Ég get alveg tekið undir það, sem hv. 1. þm. Vestf. sagði í gær, að það þurfi að vanda vel setningu þessara laga. Þau eiga ekki eingöngu að vera lög fyrir höfuðborgina eða kannske fjölmennustu kaupstaðina í landinu, heldur á þetta að vera löggjöf fyrir landsmenn alla. Og þar á að taka tillit til aðstæðna hvarvetna á landinu, eftir því sem það er hægt í einum lögum.

Ég vil í öðru lagi spyrja hæstv. ráðh. um það, hvort frv. hafi verið sent til umsagnar einhverjum öðrum aðilum en þeim, sem ég nú hef nefnt, sem sé skólanefndarformönnum og e.t.v. sveitarstjórnum, —- hvort það hafi verið sent einhverjum öðrum aðilum, t.d. stéttarsamtökum eða einhverjum slíkum samtökum í landinu og ef svo er, hvort einhverjar upplýsingar liggi fyrir um skoðun þeirra á vissum atriðum í þessu máli og spyr um þetta að gefnu tilefni.

Þá vil ég, þó að það sé ekki neitt stórmál, spyrja hæstv. ráðh. að því, hvort hann sé ánægður með heiti frv. Segja má, að það sé frekar málfræðilegt atriði en efnisatriði, en annað frv. er um það, sem kallaðir eru grunnskólar og hitt um skólakerfi. Hingað til höfum við í íslenzkri löggjöf talað um fræðslulög og við höfum talað um barnaskóla og unglingaskóla eða ungmennaskóla og gagnfræðaskóla. Nú heitir þetta, sem áður hétu barnaskólar og gagnfræðaskólar. — nú heita það grunnskólar, Ósjálfrátt minnir þetta orð „grunnskóli“ mig á danska orðið „grundlov“, sem Danir höfðu um stjórnarskrá sína og getur líka minnt á íslenzk orð eins og grunnhyggni eða grunnfærni. Ég veit ekki, hvað er haft í huga sérstaklega, en grunur minn er sá, að það sé danskan, sem þarna er fyrirmynd og að þetta samskeytta orð sé nú e.t.v. notað í danskri fræðslulöggjöf um slíka skóla. En ég mæli þar ekki af þekkingu. Ég er ekki kunnugur danskri eða yfirleitt útlenzkri fræðslulöggjöf og verð að játa það, að ég er varla gjaldgengur í umr. um svona mál á við lærða menn og sérfróða. Hef það helzt til brunns að bera að hafa sjálfur gengið í skóla og þar á meðal þá skóla, sem nú mundu vera kallaðir grunnskólar, en á minni tíð voru nokkuð með öðrum hætti. Ég vil spyrja hæstv. ráðh., hvort hann sé ánægður með þessi heiti eða þetta heiti sérstaklega, hvort nauðsynlegt hafi verið að breyta heitunum og hvort 1. gr. eða 2. gr. um skólakerfi gefi ekki tilefni til annars nafns, sem sé að þetta sé kallaður skyldunámsskóli, alls staðar þar sem á að vera skólaskylda. Þetta var nú um heiti skólans og er ekki beinlínis efnisatriði heldur, eins og ég sagði áðan, fremur málfræðiatriði eða smekksatriði.

En þá er ég kominn að annarri spurningu um efni málsins og hún er sú, hvort hæstv. ráðh. álítur, — ég veit, að hann hefur nú ekki samið þetta frv., það er samið af n., — hvort hann álitur, að þetta sé heppilegt, að hafa 9 ára samfelldan skóla, þar sem nemendurnir eru allt frá 7 ára börnum upp í 16 ára ungmenni. Hvort það sé heppilegt að hafa þetta fólk allt í sömu stofnun? Áður var þetta aðgreint og það er aðgreint nú í barnaskóla og gagnfræðaskóla eftir aldri. En ég tók ekki eftir því, að sérstök rök fyrir að steypa þessu öllu saman í eina heild undir heitinu grunnskóli kæmu fram í ræðu hæstv. ráðh., en vel má vera, að þau séu í þessari löngu grg., sem ég hef ekki kynnt mér nema að litlu leyti. En ég spyr: Hver eru rökin fyrir því að steypa saman barna— og gagnfræðaskólunum og hafa í sama skóla nemendur allt frá 7 ára aldri og upp í 16 ára aldur? Það má vel vera, að ég taki þau rök gild fyrir mitt leyti, sem færð eru fram fyrir því, en ég óska eftir að fá að heyra þau.

Í sambandi við þetta vil ég einnig koma að öðru atriði, sem er efnisatriði. Mig langar til að spyrja hæstv. ráðh. að því, hvort hann álíti ekki neina hættu á því, að það kunni að vera orðið úrelt í þeim frjálsa heimi, sem nú er að renna upp yfir komandi kynslóðir, beinlínis að knýja ungmenni, sem eru — við skulum segja — 15–16 ára gömul, til þess að vera í skóla, ef þau vilja það ekki? Þar með er ég ekki að leggja dóm á þetta. En eins og oft er sagt: Við lifum á breyttum tímum og þess verður vart, að ungmennin meðal þessarar þjóðar og annarra eru því ekki mjög fylgjandi, að þau séu skylduð til eins eða neins, vilja heldur gera það af sjálfstáðum, ef þau treysta sér til þess. Það er allt annað mál, hvort til eru skólar, sem eru opnir fyrir alla, einnig 15—16 ára unglinga, eða allir eru skyldugir til þess að vera í skólum þessum, þó að þeir kysu heldur að afla sér menntunar, á annan hátt. Og það er vissulega svo, að nú á tímum eru — ja, það mætti kannske segja — ótal möguleikar til þess að afla fræðslu annars staðar en í skólum.

Ég veit, að í 7. gr. þessa frv. um grunnskóla eru ákvæði um undanþágu. En þau eru ekki sérstaklega miðuð við þetta, sem ég er að tala um, heldur eru þau miðuð við börn, sem sækja einkaskóla, eða börn, sem búa í skólahverfum, sem fengið hafa undanþágu samkv. 5. gr. frv. En í 5. gr. frv. er gert ráð fyrir því, að skólanefnd í skólahverfi geti, ef tilskilin meðmæli berast, fengið undanþágu um tiltekinn tíma frá því að uppfylla að fullu ákvæði 2. gr. og 72. gr. þessara laga um skólaskyldu og starfstíma skóla. Hér mun vera átt við þau skólahverfi, þar sem ekki er aðstaða til þess, að nemendur geti verið 9 mánuði í skóla í 9 ár, eins og hæstv. ráðh. orðaði það í gær. Það er ætlazt til þess, að þar sé hægt að fá undanþágu, eins og verið hefur og ég er ekki að lasta, því að þar sem ekki er möguleiki til þess að halda uppi löngum skóla ár hvert, þá er auðvitað ekki um annað að gera en bjargast eins og bezt verður gert.

En þegar ég fer að tala um þessi skólahverfi, þá er ég kominn að öðru efni, sem ég vildi gjarnan minnast á. Í 13. gr. frv. um grunnskóla segir, að menntmrn. ákveði skiptingu alls landsins í skólahverfi, það ákveði, hvar stofna skuli skóla og hvar heimavistarskóla að fengnum till. hlutaðeigandi fræðslustjóra. Þar segir einnig, að rn. láti gera framkvæmdaáætlun um skólabyggingar fyrir allt landið, er taki til allt að 10 ára tímabils og svo árlega framkvæmdaáætlun, sem fylgi till. til fjárveitinga í fjárl. Ég vil í þessu sambandi leyfa mér að spyrja hæstv. ráðh., hvort hann hafi í huga að beita sér fyrir sérstökum ráðstöfunum til þess að hraða byggingu skóla í þeim skólahverfum, þar sem engin skólahús eru. Það er út af fyrir sig ekki nema gott um það að segja, að gerð sé 10 ára áætlun um byggingu skóla almennt í landinu, því að alltaf þarf nú að byggja eða endurnýja skóla hér og þar, jafnvel þar sem skólar eru. En er það ætlun stjórnarinnar að beita sér fyrir því, að sérstaklega verði hraðað byggingu skólahúsa í þeim skólahverfum, sem engin skólahús hafa og þá með hverjum hætti? En á meðan svo er ekki og á meðan enn eru mörg skólahverfi í landinu, þar sem engin skólahús eru, þá er það náttúrlega alveg tómt mál frá sjónarmiði þeirra, sem heima eiga í þessum landshlutum, að tala um, að allir á aldrinum 7-16 ára skuli sækja skóla 9 mánuði á ári í 9 ár.

Á bls. 59 í grg. frv. um grunnskóla er gerð grein fyrir þeim kostnaðarauka, sem muni verða af samþykkt þessa frv. og sú kostnaðaráætlun er miðuð við sept. s.l. eða sept. 1970. Kostnaðaraukinn er þar talinn 171 millj. kr., þar af 100 millj. í auknum kennslulaunum og er það stærsti liðurinn. Í 7. gr. frv. um skólakerfi segir svo:

„Ríki og sveitarfélögum er skylt að tryggja nemendum, hvar sem er á landinu, sem jafnasta aðstöðu til menntunar samkvæmt nánari ákvæðum, er sett verði í reglugerð.“

Og í 8. gr. segir:

„Nú getur nemandi ekki stundað skyldunám sökum fjárskorts og skal þá veita styrk til þess úr ríkissjóði gegn endurgreiðslu að hálfu frá hlutaðeigandi sveitarfélagi.“

Það er stefna í rétta átt að greiða fyrir nemendum með fjárhagslegri aðstoð, greiða á þann hátt fyrir nemendum, sem verða að fara frá heimili sínu eða dveljast fjarri heimili sínu vegna skólamenntunar. Og 8. gr. fjallar um það mál. Hins vegar hef ég nú gert ráð fyrir því, að þegar að því kæmi, að farið yrði að veita slíkan stuðning, svo að einhverju næmi — ég tel varla þann stuðning, sem nú er veittur í því sambandi — en þegar að því kæmi, þá yrði það hlutverk ríkisins fyrst og fremst eða Þjóðfélagsins að greiða af hendi fjármuni, sem til þessa þarf. Og svo er ráð fyrir gert í frv., sem flutt hefur verið á Alþ. um þetta mál og nefnist frv. um námskostnaðarsjóð, ef ég man rétt, að þarna yrði um að ræða framlag þjóðfélagsins í heild til þess að jafna aðstöðumun þegnanna og til þess að bæta fyrir það, að það býr misjafnlega að þegnum sínum á þessu sviði. Nú er hér gert ráð fyrir, að þessi fjárhagslega aðstoð verði innt af hendi til þess að stunda skyldunámið, ef nemandi getur það ekki sökum fjárskorts, en a.m.k. í þessu frv. er þetta ekki neitt nánar tilgreint, þannig að það sé hægt að átta sig á því, hvenær telja skuli, að nemandi geti ekki stundað skyldunám sökum fjárskorts. En það er gert ráð fyrir því jafnframt, að þetta verði greitt til bráðabirgða úr ríkissjóði, en endurgreitt að hálfu af hlutaðeigandi sveitarfélagi og tel ég, að það þurfi nánari athugunar við. En þess vegna var ég að vitna í kostnaðaráætlunina á bls. 59 í frv. um grunnskóla, að ég sé ekki, að kostnaður við þessa aðstoð sé áætlaður þar. Má vera, að svo sé og þætti mér þá vænt um að fá upplýsingar um það, í hvaða lið áætlunarinnar þessar upphæðir felist. En hvort sem það er eða ekki, þá langar mig til að spyrja hæstv. ráðh. að því, hvort til eru einhverjar áætlanir um það, hvað ríkið muni þurfa að greiða og hvað sveitarfélögin, vegna þessarar aðstoðar við nemendur, ef hann hefur þær upplýsingar á reiðum höndum?

Að ýmsu leyti er þetta frv. til l. um grunnskóla einungis rammalöggjöf, þó að ýmislegt sé þar nákvæmlega tiltekið, svo að ekki virðist þurfa að gera það nánar, eins og t.d. helgi— og frídagar. Það er vendilega fram tekið í frv., hverjir þeir skuli vera á hverju skólaári. En um kennsluna sjálfa, það sem á að gera í þessum mikla 9 ára grunnskóla, sem stendur 9 mánuði ár hvert, eru ákvæði í 63. gr. frv. Þar segir, að námsskrár skuli kveða á um „þjálfun og notkun móðurmálsins og fræðslu um íslenzkar bókmenntir og menningu, undirstöðukennslu í stærðfræði, kennslu í erlendum málum og séu forsendur fyrir vali þeirra annars vegar að varðveita tengslin við uppruna þjóðarinnar og norræna menningu, en hins vegar að opna Íslendingum leið til samskipta við sem flestar þjóðir, fræðslu um umhverfi og umheim — um landafræði, samfélagshætti og sögu, kennslu í frumatriðum líffræði, efnafræði og eðlisfræði, uppfræðslu í trúarbrögðum og almennri siðfræði, þroskun fagurskyns og listhneigðar, kennslu í heilsufræði og líkamsrækt, kennslu í handiðum og heimilisrækt. Að öðru leyti ákveður menntmrn. námsefni grunnskóla, magn þess og skipan á námsár.“

Þetta ákvæði um sjálfa kennsluna í grunnskólanum er eitt af því, sem nánast verður að kalla rammaákvæði og má vera, að það sé ekki mjög breytt frá núverandi fræðslulögum. Það mun því fara eins og fyrr, að það fer mjög eftir því, hvernig fræðslumálastjórnin er og hvernig hún starfar, hvað kennt verður í þessum skóla með hinu nýja nafni.

Ekki er ég nú reiðubúinn til þess að gera till. um breytingar á orðum þessarar 63. gr., en þó finnst mér, að þarna hefði getað verið rétt að nefna námsefni eins og félagsfræði, en vera má, að það eigi að felast í orðunum „samfélagshættir“, en það er notað þarna í b–lið. Ég las upp þessa gr. aðeins til þess að vekja athygli á þessu, að enda þótt svona löggjöf verði sett, sem væntanlega verður til bóta frá því, sem nú er, þá er það samt ónnið, sem fræðsluyfirvöldin hljóta að vinna á sínum tíma, að ákveða í nánari atriðum, hvað kenna skuli, því að þetta, að tala t.d. um fræðslu um umhverfi og umheim, það er nokkuð víðfeðmt. (Gripið fram í: Er það ekki landafræði?) Ja, það gæti líka verið stjörnufræði o.fl. Stjörnufræði er nú kennd í menntaskóla. Ég legg engan dóm á það, hvort stjörnufræði eigi að vera þarna eða ekki, en allt þetta þarf að ákveða miklu nánar og það er kannske allt málið og það, sem allt veltur á í lokin. Hvort gagn verður að þessum grunnskólalögum eða ekki. Hvernig tekst að ákveða nánar námsefnið og svo auðvitað að fá nemendurna til þess að læra það eða tileinka sér það á einhvern hátt.

Nú ætla ég ekki að hafa um þetta fleiri orð. En mér þætti vænt um, ef hæstv. ráðh. gæti upplýst mig um a.m.k. eitthvað af því, sem ég hef verið að spyrja um, eða bent mér á það í grg., ef mér hefur sézt yfir það þar og aðstoðað mig þannig við að gera mér grein fyrir þessu merkilega máli.