28.01.1971
Neðri deild: 40. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 161 í C-deild Alþingistíðinda. (2510)

184. mál, skólakerfi

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason) :

Herra forseti. Mig langar með örfáum orðum til þess að svara fsp., sem til mín hefur verið beint. En fyrst vil ég taka fram í tilefni af ræðu hv. þm. Ingvars Gíslasonar, að fullorðinsfræðslan, sem hann nefndi svo, hefur verið mjög til athugunar í menntmrn., hjá sérfræðingum þess og nefndum, sem um skólamál hafa fjallað að undanförnu. Þessi n., sem þessi frv. samdi, ræddi þetta mál einnig, en einróma niðurstaða varð sú, að ákvæði um það, sem við köllum fullorðinsfræðslu, ættu ekki heima í sömu lagabálkum og fjallað er um skólakerfi og skyldunám eða fræðsluskyldu, heldur væri eðlilegt að fjalla með sérstökum hætti um það mál, en til þess að úr framkvæmdum gæti orðið um skipulagsbundna og varanlega fullorðinsfræðslu, þarf á lögum að halda. Eftir að störfum þessarar n. er nú lokið, hefur rn. til athugunar að skipa nýja n. til þess að taka fullorðinsfræðslumálin til sérstakrar athugunar og geri ég ráð fyrir, að sú n. verði skipuð innan tíðar, en hún mundi fá aðra samsetningu heldur en sú n., sem falið var það verkefni að semja lög um skólakerfi eða grunnskóla, þ.e.a.s. semja ný fræðslulög, enda eru verkefnin á sviði fullorðinsfræðslunnar með mjög öðrum og ólíkum hætti en það verkefni, sem þeim skólum, sem annast eiga skyldunámið, er ætlað að sinna.

Hv. síðasti ræðumaður, Gísli Guðmundsson, beindi til mín nokkrum fsp., sem ég skal reyna að svara í örfáum orðum. Hann harmaði það, að í n., sem samdi þessi frv., skyldu ekki hafa verið skólamenn, sem væru nákunnugir skólahaldi utan Reykjavíkur. N. var þannig saman sett, að í henni áttu sæti æðstu embættismenn ríkisins á sviði skólamála, menn sem höfðu nána þekkingu á skólamálum langstærsta fræðsluhéraðsins, Reykjavíkurborgar, þ.e. formaður fræðsluráðs Reykjavíkurborgar og fræðslustjóri þess og svo menn, sem höfðu nána sérþekkingu á þeim tveimur skólastigum, sem hér var um að ræða, þ.e. barnaskólum og gagnfræðaskólum. Auðvitað má segja, að æskilegt hefði verið, að í n. hefði einnig átt sæti skólamaður utan Reykjavíkur, en þá hefði hann beinlínis þurft að flytja til Reykjavíkur. Hér var um svo mikið og samfellt starf að ræða og svo þungt fundahald, að ógerningur hefði verið, að maður búsettur utan Reykjavíkur hefði starfað í n. sem fullgildur nm. Þess vegna var ekki að þessu ráði horfið, en því hins vegar treyst, að embættismenn ríkisins, svo sem t.d. fræðslumálastjóri, hefðu að sjálfsögðu ekki síður nákvæma þekkingu á skólahaldi utan Reykjavíkur, þ.e. í dreifbýli, heldur en í þéttbýli.

Hv. þm. spurði, hverjum frv. hefði verið sent til umsagnar. Því miður hef ég ekki hjá mér listann yfir þá, sem frv. var sent, að vísu ekki til umsagnar, heldur upplýsingar. Frv. hefur verið sent milli 300 og 400 aðilum. Það hefur verið sent öllum skólastjórum á landinu, öllum skólanefndum og miklum fjölda samtaka kennara, almannasamtaka og annarra aðila, sem ætla mátti, að hefðu áhuga á því að kynnast því máli, sem hér hefur verið um að ræða. Þetta hefur verið gert til upplýsingar og í því skyni að kynna málið sem bezt. Þeir aðilar, sem finna hjá sér hvöt til þess að láta í ljós skoðun á málinu í heild í einstökum atriðum, geta það að sjálfsögðu á grundvelli þess. En ég er sammála því, sem kom fram hjá ýmsum hv. þm. í gær, að hér er um að ræða mál, sem alveg er nauðsynlegt, að sem flestir aðilar í þjóðlífinu fái sem nánust kynni af. Þess vegna hefur þessi dálítið óvenjulega aðferð verið viðhöfð, að dreifa málinu út um allt land til þeirra aðila, sem ætla má að áhuga hafi á málinu.

Hv. þm. spurði, hvort ég væri ánægður með heitið grunnskóli. Það er ég ekki, ég segi það alveg hreinskilnislega. En hitt verð ég líka að játa, að hvorki höfundum frv. né heldur mér, hefur dottið neitt annað orð í hug, sem betra er. En ég tel sjálfsagt, að þeirri leit, sem framkvæmd hefur verið að góðu orði á þeim skóla, sem hér er gert ráð fyrir að koma á fót, verði haldið áfram. Ég dró jafnvel um skeið í nokkurn efa, að orðið grunnskóli væri nógu góð íslenzka, en eftir að vísindamenn á því sviði höfðu fellt þann úrskurð, að hér væri um góða íslenzku að ræða, þá var þeim efa kippt úr huga mér. En ég játa fúslega, að ég hefði gjarnan kosið, að það hefði tekizt að finna annað orð en þetta, sem hér er notað. Eitt af verkefnum n. eða Alþ. er að sjálfsögðu að halda áfram þessari leit og taka afstöðu til þessa.

Hv. þm. spurði, hvers vegna gert væri ráð fyrir því, að þessi 9 ára skóli væri samfelldur, hvers vegna væri verið að fella saman barnaskóla og unglingaskóla, eins og hér væri gert ráð fyrir. Hér er um dálítinn misskilning að ræða af hans hálfu. Það er skýrt tekið fram í 4. gr. frv., að skólinn þarf ekki að vera samfelldur. Honum má skipta í tvö eða jafnvel fleiri stig, ef henta þykir og er á valdi menntmrn. að ákveða það að fengnum till. hlutaðeigandi skólanefnda eða fræðsluráða.

Hann varpaði fram spurningunni, hvort það væri í samræmi við tímana eða komandi tíma að skylda börn og unglinga til skólagöngu. Þetta mál hefur verið rætt mjög rækilega hér og annars staðar. Alls staðar hefur niðurstaðan orðið sú, að eðlilegt sé að hafa fræðsluskyldu, hvergi nokkurs staðar hefur verið horfið inn á þá braut að víkja frá þessari reglu, sem gilt hefur í menningarlöndum um langt skeið. Um okkur hér á Íslandi mætti segja, að um mörg undanfarin ár hefur yfirleitt verið um 9 ára skólagöngu að ræða. Eins og ég tók fram, hafa um það bil 9 af hverjum 10 unglingum á landinu stundað nám í ekki 8 ár, eins og skólaskyldan var, heldur í 9 ár. Það má gera ráð fyrir því, að þetta hefði haldið áfram, þó að við hefðum ekki breytt þessu og má segja, að ákvæði skólaskyldunnar séu fyrst og fremst sett vegna þeirra 10–20% nemenda, sem af einhverjum ástæðum hafa ekki notað sér þau skilyrði, sem verið hafa á ókeypis skólagöngu í a.m.k. 9 ár. Svo að það er mín skoðun, að stefna höfunda frv. að þessu leyti sé rétt.

Hv. þm. spurði hvort ríkisstj. mundi beita sér fyrir sérstökum framkvæmdum í þeim skólahéruðum, þar sem skólahús séu í raun og veru ekki fyrir hendi. Um þetta er það eitt að segja, að síaukin áherzla hefur verið lögð á skólabyggingar um land allt á undanförnum árum, eins og sívaxandi fjárveitingar til skólabygginga bera gleggst vitni um. Hins vegar er í einstökum skólahéruðum um þess konar vandamál að ræða, að þau eru mjög erfitt viðfangsefni. Það eru til skólahéruð, þar sem eru einungis um 10 börn á skólaskyldualdri og það eru til skólahéruð, þar sem börnum hefur fækkað á undanförnum árum ár frá ári og fjöldi skólaskyldra barna er kominn niður í 4. Það gefur auga leið, að á vandamálum slíkra héraða verður að taka með álveg sérstökum hætti og eru augu fræðsluyfirvalda vel opin fyrir þessari staðreynd.

Þá spurði hv. þm. að síðustu, hvort ég hefði tiltækar tölur um, hvernig ráðgerður kostnaður vegna aðstoðar við nemendur mundi skiptast á ríki og sveitarfélög. Hér í sæti mínu hef ég þær því miður ekki handbærar, en áætlanir eru til í menntmrn. um þetta efni, og getur hv. þm. að sjálfsögðu fengið aðgang að þeim, ef hann hefur áhuga á og óskar þess.

Síðustu orð mín við þessa umr. skulu vera þau að endurtaka þakkir til hv. þm. fyrir ágætar undirtektir undir meginefni þess máls, sem hér er um að ræða.