28.01.1971
Neðri deild: 40. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 166 í C-deild Alþingistíðinda. (2512)

184. mál, skólakerfi

Gísli Guðmundsson:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð. — Ég vil leyfa mér að þakka hæstv. ráðh. fyrir þau svör, sem hann gaf við fsp. nokkrum, sem ég bar fram í minni ræðu, enda þótt ég telji þau ekki vera öll eins glögg og ég hefði kosið. Það er skiljanlegt, að sum gögn þessa máls hafi ráðh. ekki við höndina og sé ekki reiðubúinn til að gefa þau svör, sem á þeim byggjast. En ég vil þá vænta, að þau komi síðar, eins og t.d. svar við spurningunni um áætlaðan kostnað við aðstoð við nemendur samkv. 8. gr. frv. um skólakerfi.

Ég held, að það hafi ekki verið neinn misskilningur hjá mér í sambandi við hinn óskipta grunnskóla, því að í 4. gr. frv., sem ráðh. vitnaði til, stendur: „Grunnskóli getur verið ein stofnun.“ Hitt er svo rétt, að samkv. ákvörðun menntmrn. er hægt að skipta þessari miklu stofnun í fleiri einingar, eins og það er orðað. Nú má vera, að það orð byggist á einhverju orðakerfi, sem notað er í frv. En hér stendur, að grunnskóli geti verið ein stofnun, þannig að hér er sem betur fer ekki um neinn misskilning að ræða hjá mér í þessu efni.

Ýmis af svörum hæstv. ráðh. gefa að sjálfsögðu tilefni til umr., en ég ætla ekki að lengja þær með því að fara að ræða þessi svör hvert út af fyrir sig, enda verða sjálfsagt nóg tilefni til þess að ræða þessi mál.

Ég hef dálitla löngun til þess að láta ljós mitt skína, eins og sá hv. þm., sem talaði hér áðan, en ég held, að það verði nú lítið úr því, enda mun sú týra, sem ég get brugðið á loft, ekki lýsa langt yfir menntasviðið. En mér finnst þetta dálítið hranalegt orðalag, sem hv. þm. notaði og notar ekki fyrstur manna, því að maður sér þetta a.m.k. í hverri viku í einhverju dagblaðinu, þetta um „málfræðistaglið“, og mig langar til þess, þótt það þyki kannske ekki rétt, að segja það, að ég held, að margt af þessu, sem sagt er um hið svokallaða „málfræðistagl“ kennaranna, sé, svo að ekki sé meira sagt, nokkuð fljót hugsað. Það getur vel verið, að ýmsir kennarar leggi meiri áherzlu á málfræði, en ástæða væri til. Það hvað kennarar leggja mesta áherzlu á, fer oft eftir því, hverju þeir hafa sjálfir mestan áhuga á, en það má vera, að það sé ekki altaf rétt af þeim að láta það ráða eingöngu. Ég held, að málfræðikennsla margra kennara hér á landi hafi verið og sé ekkert stagl, heldur fremur það, sem hv. þm. vildi áðan nefna lifandi kennslu. Vissulega er málfræði og getur verið í höndum kennara, sem með hana kann að fara, lifandi námsgrein og það verð ég að segja úr minni ekki mjög löngu reynslu sem nemandi í ýmsum skólum, að þá þekkti ég ýmsa, sem kenndu málfræði og fóru með það, sem einhverjir vilja sjálfsagt kalla „stagl“, en mér þótti mikil unun á að hlýða. Þetta fer nokkuð eftir því, hvernig hæfileikum kennarinn er gæddur til þess að kenna. En málfræði held ég, að sé óhjákvæmilegt að kenna í skólum landsins. Ég held, að við hljótum að verða sammála um það, við hv. 4. landsk. þm., að það sé viðkunnanlegra, að þeir, sem eru búnir að vera 9 ár í grunnskóla, viti, hvort orð er nafnorð eða sögn. Ég held, að við hljótum að verða sammála um, að það sé æskilegt, að þeir, sem eru búnir að vera allan þann tíma í skóla, geti munað eftir öllum fallbeygingum og tíðum í mæltu máli, þó að það megi kannske eitthvað fækka tíðunum frá því, sem hefur verið í málfræðibókum, eins og þær eru þar uppsettar, frekar „konstrúeraðar“ en raunverulega til í málinu. En því verða menn að gera sér grein fyrir, að lykillinn að því að læra sum önnur tungumál er að kunna nokkuð í íslenzkri málfræði. Ef menn ekki kunna undirstöðuatriðin í íslenzkri málfræði, verður ákaflega erfitt að læra málfræði hins erlenda máls.

Stafsetningarkennslan, y–ið og z hafa lengi verið ásteytingarsteinar. Ég man það, að þegar ég var í skóla, þá var mér fyrst sagt að skrifa z, svo að skrifa ekki z og seinast að skrifa z. Það voru svona miklar breytingar á reglugerðum um stafsetningarkennslu. En ég hefði haldið, að það, sem ætti að leggja til grundvallar við stafsetningarkennslu, væri þetta gamla, góða, sem hefur verið orðað svo, að menn eigi að vera sendibréfsfærir. En að vera sendibréfsfær er að kunna að skrifa, svo og að kunna að stafsetja orðin.

Þetta, sem ég er nú að segja, kemur kannske ekki mikið þessu máli við og ég fór að hafa orð á þessu bara af því, að ég er orðinn leiður á þessu stagli um „málfræðistagl“, sem maður er alltaf að lesa í blöðunum og nú er komið hér inn í þingsalinn. Það er skemmtilegt að kunna dálítið í því að skrifa z, því að í því felst þekking á uppruna málsins, en mér hefur aldrei fundizt skipta mjög miklu máli, hvort við lærum z eða ekki. Hitt veit ég um y, að t.d. Fjölnismenn tóku upp að sleppa því og þetta gerði líka Björn Ólsen, en almenningi í landinu þótti þetta svo ljótt áferðar, að y varð ofan á. Og fjarskalega held ég, að við kynnum báðir, hv. þm. og ég, illa við öll orðin í þessu mikla frv. hérna, sem skrifuð eru með y, ef þau væru ekki skrifuð þannig.

Hv. þm. sagði, að það að vera að liða tunguna sundur í parta eða annað þess háttar málfræðistagl, það væri hliðstætt og að dæma útlit ungrar stúlku eftir innyflunum. Ýmsir læknar hafa sagt mér, að það fari ákaflega mikið eftir innyflunum, hvernig útlit ungra stúlkna er og kann svo að vera einnig um málfræðistaglið, að það sé ekki úr vegi að kynna sér eitthvað um innyflin í því.