28.01.1971
Neðri deild: 40. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 167 í C-deild Alþingistíðinda. (2513)

184. mál, skólakerfi

Jónas Árnason:

Herra forseti. Ég verð nú að segja, að mér heyrðist hv. síðasti ræðumaður beinlínis leggja sig fram um að misskilja það, sem ég var að segja. (GíslG: Ekki viljandi.) Einmitt viljandi, vegna þess að ég þekki hv. þm. að það miklum vitsmunum, að þetta getur ekki staðizt, — hann telji í alvöru, að ég hafi með ræðu minni hér áðan lagt til, að málfræðikennslan væri bara með öllu afnumin. Það var síður en svo. Ég tel, eins og hann, að málfræðikennsla hafi mikla þýðingu, bæði að því er snertir móðurmálið sjálft og að sjálfsögðu sem undirstaða kennslu í öðrum tungumálum. En ég ítreka það, sem ég sagði áðan, að þessu á að vera lokið á þeim aldri, þegar börnin taka barnaskólapróf eftir núverandi kerfi. Það á ekki að vera að eyða tíma í þetta endalaust. Hann sagði líka, að árangurinn í þessu færi að sjálfsögðu eftir kennaranum og góðir kennarar, áhrifa miklir, gætu gert þetta svo lifandi, að enginn þyrfti að kvíða. Ég segi það alveg eins og það er og nú tala ég sem gamall nemandi, að reynsla mín af íslenzku kennurum varð, að því er snertir tilfinninguna mína fyrir máli og allt slíkt, þeim mun hastarlegri sem þeir voru harðari og ákveðnari kennarar. Ég veit um ungan mann, sem byrjaði t.d. að fást töluvert við skriftir, áður en hann fór í menntaskóla, hafði sýnt töluverða tilhneigingu til þess að skrifa og hafði eitthvert næmi kannske til þess. En þegar hann kom í menntaskóla, lenti hann í höndunum á svo harðsnúnum íslenzku kennurum, að þeim tókst svona á hálfum vetri að drepa með öllu tilhneigingu piltsins til skrifta og varð á þessu snöggur stanz og ekkert áframhald fyrr en löngu, löngu seinna, eftir að hann var kominn úr skóla og undan áhrifum þessara mögnuðu og áhrifamiklu íslenzku kennara.

Ég skal fúslega viðurkenna, að það er rétt, að það fer töluvent eftir innyflunum, hvernig ungar stúlkur líta út. En mér finnst líka , að það sé hægt t.d. að eyðileggja tilfinningu ungs fólks og skilning á miklum bókmenntaverkum eins og t.d. Háfamálum og Völuspá, þegar mestur tíminn fer í það að greina þetta sundur í frumlag og andlag og annað slíkt. Og á þessu þyrfti náttúrlega að verða breyting og hefur orðið nokkur breyting. Já, það hefur orðið nokkur breyting á þessu. En ég tel, að hún þurfi að verða enn þá meiri og allt þetta, sem ég nefni stagl, verði úr sögunni.

Um fagurfræðilegt viðhorf okkar til ýmissa bókstafa, eins og t.d. y annars vegar og svo þessa stafs, sem við köllum i hins vegar, ætla ég ekki að ræða. Við hrykkjum að sjálfsögðu við, ef við læsum þetta frv., sem hér liggur fyrir og það væru engin y þar, vegna þess að við erum vanir þeim. En við mundum hrökkva ílíka við, ef við hefðum verið vanir hinum stafnum og sæjum allt í einu y komið í staðinn fyrir hann alls staðar. Þetta fer að sjálfsögðu eftir vananum, en ekki, held ég, fyrst og fremst eftir einhverju listrænu útliti stafanna, þó að segja megi, að y sé fegurri stafur en i. En það fer líka meiri pentsverta í hann.

Hæstv. forseti minnti mig á, að ég mætti hér aðeins gera aths., svo að ég mun ekki orðlengja þetta frekar. En ég vænti þess, að þm. hafi ekki misskilið þetta, sem ég sagði áðan, að ég tel að sjálfsögðu, að málfræði sé nauðsynleg undirstaða í kennslu móðurmálsins, en aðeins undirstaða, grunnur. Það á ekki alltaf að vera að bauka við grunninn, það á að byggja eitthvað ofan á smám saman. (Gripið fram í.) Jú, einmitt, málfræðin á að vera sá grunnur, sem við byggjum ofan á, til þess að vel standi og ég ítreka það, sem ég sagði áðan, að þetta mætti allt saman gjarnan takast til athugunar og íslenzku kennarar fái meira frjálsræði til þess að kenna móðurmálið, hið lifandi mál.

Já, það hefur verið drepið hér á stafsetningu. Margt það fólk, sem ég hef kynnzt á lífsleiðinni og talað hefur fagurt mál, hefur stundum sent mér línu, eins og við nefnum. Og þá hefur stafsetningin á þessu verið slík, að þetta fólk hefði ekki staðizt nein próf, ekki einu sinni barnaprófið. En svo hef ég hins vegar kynnzt nemendum, sem voru svo fátækir að því er varðar orðaforða og skilning á móðurmálinu yfirleitt, að þeir hefðu að mínum dómi átt að fá núll í íslenzku, þó að þeir hefðu hins vegar getað fengið tíu í stafsetningu, af því að þeir voru það vel að sér í hinum dauða bókstaf, en þá vantaði tilfinningu fyrir málinu sjálfu. Og þarna liggur höfuðmeinið. Við erum smám saman að drepa tilfinningu unga fólksins fyrir móðurmálinu. Við erum að drag, úr orðaforða þess með þessu stagli eða við erum a.m.k. að sleppa þeim tækifærum, sem við höfum til þess að auka þennan orðaforða. Kennararnir ættu að hafa meir tíma til þess að rabba við þetta fólk um bókmenntir og þá, eins og ég sagði áðan, fyrst og fremst hinar fornu bókmenntir okkar o.s.frv. (Gripið fram í.) Já, að sjálfsögðu er hún misjöfn. En það breytir engu um það, að, að öðru jöfnu á árangurinn að verða meiri, ef menn hafa meiri tíma til þess að gefa sig að verkefninu og í þessu tilviki að auka tilfinninguna fyrir málinu.

Ég vil aðeins drepa á það að síðustu, að ég held, að þessu fyrirkomulagi, sem hefur verið, ráði helzt þeir menn, sem fara að leggja þetta fyrir sig sem íþrótt, það sem ég nefni stagl. Oft á tíðum, þegar ég hef kynnzt kennara, sem mér finnst ekki hafa verið sérlega fær um íslenzku kennslu, þá verð ég var við það frá nemendum sama kennara, að hann býsnast einhver skelfingar ósköp yfir því, ef einhverjum nemenda verður á að segja „mér langar“ í staðinn fyrir „mig langar“. En hins vegar leggur hann þeim mun minni áherzlu á það að auðga málið almennt. Það eru sárafá atriði, sem menn binda sig við og þykjast þar með vera að kenna íslenzku. Af því að þeir hafa getað vanið nemendur t.d. af því að segja „mér langar“ og kennt þeim að segja „mig langar“, þá telja þeir sig hafa náð einhverjum sérstökum árangri í íslenzku kennslu. Í raun og veru er hér ekki um annað að ræða, en tæknilegt atriði og á ekkert skylt við lifandi móðurmálskennslu.