11.03.1971
Neðri deild: 60. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 177 í C-deild Alþingistíðinda. (2530)

247. mál, innflutnings- og gjaldeyrismál

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason) :

Herra forseti. Það er rétt hjá hv. þm., að samkv. gildandi lögum hafa Landsbanki og Útvegsbanki rétt til þess að taka lán erlendis með veði í eigin eignum án nokkurrar sérstakrar heimildar frá ríkisvaldinu. Í þessu frv. er gert ráð fyrir því, að hinir fimm gjaldeyrisviðskiptabankar skuli lúta sömu reglum og nú gilda um alla aðra aðila, opinbera aðila jafnt sem einkaaðila, að því er snertir lán til lengri tíma en eins árs. Það er nauðsynlegt að gera þessa breytingu, þegar gjaldeyrisbönkum er fjölgað um þrjá, ekki hvað sízt þegar einkabönkum er veitt heimild til þess að verzla með gjaldeyri, þá er ekki eðlilegt, að þeir hafi sams konar heimild til lántöku erlendis og stóru ríkisbankarnir tveir hafa haft. Þannig stendur á því, að þessum lagaákvörðunum er breytt.

Hitt er einnig alveg rétt, sem hv. þm. sagði, að það hefur komið gjaldeyrisviðskiptabönkunum gömlu að miklu gagni að hafa heimild til bráðabirgða lántöku erlendis, þegar sérstaklega hefur staðið á og ég tel alveg sjálfsagt, að þau yfirvöld, sem fjalla um lántökuheimildir allra opinberraaðila og einkaaðila, sýni skilning og lipurð í því efni. Reynist banki hafa þörf fyrir sérstaka yfirdráttarheimild eða lántöku erlendis í lengri tíma en til eins árs, þá tel ég eðlilegt og sjálfsagt, að á það sé litið af skilningi með hliðsjón af reynslu undanfarinna ára og áratuga.