31.03.1971
Neðri deild: 79. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 183 í C-deild Alþingistíðinda. (2537)

300. mál, niðursuðuverksmiðja á Siglufirði

Eyjólfur K. Jónsson:

Herra forseti. Mér þykir það mjög leitt, að um þetta mál skuli spinnast deilur á síðustu dögum þingsins. Ég hafði vonazt til þess, að frv. þetta næði fram að ganga. En vel kann svo að fara vegna þeirrar andstöðu, sem komið hefur fram af hálfu 5. þm. Norðurl. v., að ekki verði unnt að koma frv. fram. Mér er ljóst, að um það eru skiptar skoðanir, hvort heppilegra væri, að þetta fyrirtæki væri hreint ríkisfyrirtæki eða í formi hlutafélags, eins og hæstv. ráðh. hefur lagt til. Ég tel þó ýmislegt styðja þá skoðun, að heppilegra sé, að þetta fyrirtæki sé í formi hlutafélags og skal færa rök fyrir því, án þess að ég beinlínis vilji taka afstöðu til þess, hvort formið sé heppilegra.

Rökin fyrir því, að betra sé, að fyrirtækið sé í hlutafélagsformi, eru t.d. þau, að ríkið leggur þarna fram óafturkræft framlag, það leggur fram hlutafé, eitt mesta hlutafé í fyrirtæki á Íslandi — þau eru sjálfsagt teljandi á fingrum annarrar handar þau fyrirtæki, sem hafa 30 millj. kr. hlutafé. Þegar fyrirtækið tæki til starfa í þessu formi, yrði það ekki eingöngu skuldlaust, það ætti allar sínar fasteignir og vélar, heldur líka vafalaust talsvert lausafé, vegna þess að ég tel ekki undir neinum kringumstæðum, að þessar eignir verði metnar á 30 millj. kr. Venjulega er það svo í íslenzkum atvinnurekstri, að eigið fé er e.t.v. 20–30% af heildarfjármagni, en lánsfé 70—80%. Miðað við það hlutfall ætti þetta fyrirtæki að geta fengið lánað á eðlilegan hátt — eftir venjulegum lánaleiðum — hvorki meira né minna en t.d. 70 millj. kr. til stórfelldra endurbóta og uppbyggingar og gæti þá lagt út í margháttaðan annan rekstur en þann, sem nú er þar, t.d. vinnslu á grásleppuhrognum og ýmiss konar vinnslu aðra.

Eins og ég sagði áðan, þá er það kannske ekki aðalatriðið, hvort þetta fyrirtæki sé í hlutafélagsformi eða ríkisrekið. Hitt er aðalatriðið, að fyrirtækið verði styrkt fjárhagslega og það á að gera með þessu frv. mjög rausnarlega, vil ég segja og það á að vera hægt að tryggja öruggan og góðan rekstur þessa fyrirtækis með þeim hætti, sem ráðh. hefur hér lagt til.

Ég hef leitazt við það nú s.l. daga að ná samkomulagi um, að þetta frv. næði fram að ganga, m.a. við hv. 5. þm. Norðurl. v. Því miður hefur hann ekki verið til viðræðu um það að gera breyt. á frv. T.d. orðaði hann, að það væri óeðlilegt, að ríkissjóður hefði heimild til að selja hlutabréf sín síðar. Honum var boðið, að sú málsgr. yrði niður felld og aðrar breyt. gerðar, eftir því sem þurfa þætti. En ég harma það sem sagt, að þetta frv. virðist ekki ætla að ná fram að ganga á þessu þingi. Það má segja, að það sé kannske ekki eins alvarlegt, vegna þess að fyrirtækið hefur nú verkefni fram á haust til að vinna úr þeirri síld, sem það þegar á. En vissulega hefði verið hægt að undirbúa meiri rekstur á vetri komanda og næsta ári, ef þetta fyrirtæki hefði haft yfir svo miklum fjármunum að ráða sem frv. gerir ráð fyrir, þ.e.a.s. að vera algjörlega skuldlaust, þegar það hæfi starfsemi, hefði verulega sjóði af eigin fé og ætti þá alla lánamöguleika eftir. Þetta hefði verið geysilega mikill ávinningur, og vona ég, satt að segja, að einhver ráð verði að koma frv. fram.