31.03.1971
Neðri deild: 79. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 192 í C-deild Alþingistíðinda. (2543)

300. mál, niðursuðuverksmiðja á Siglufirði

Björn Pálsson:

Herra forseti. Ég ætla mér ekki að blanda mér í þær deilur, sem hér hafa verið. Ég held, að það sé auðvelt að leysa þetta mál, ef einhver vilji er fyrir hendi. Vitanlega er hægt að laga frv. smávegis, ef á þarf að halda og ég hnýt sérstaklega um það hér, að iðnrn. á að skipa þriggja manna n., sem á að semja við ráðh. sjálfan eða ríkisstj. og vinna að stofnun hlutafélagsins og semja um verð á þeim húsum og vélum, sem ætlazt er til, að niðurlagningarverksmiðjan, eða hvaða nafn sem hún fær, kaupi. Mér finnst það dálítið einkennilegt að eiga að tilnefna þá menn, sem eiga að semja við aðilann, sem tilnefnir þá. Það væri eðlilegra, að Alþ. kysi þessa menn. Það er einnig það, að ég álít, að það sé miklu betra, að þetta séu ekki eingöngu menn úr stjórnarliðinu. Það er ekki þar með sagt, að ráðh. skipi menn eingöngu úr sínum flokkum, en þeir hafa a.m.k. vald til þess.

Viðvíkjandi því að stofna hlutafélag og Siglufjarðarbæ sé gefinn kostur á að eiga allt að 20%, þá hef ég ekki beinlínis neitt við það að athuga. Mér er alveg ljóst, að Siglufjarðarbær á engar, 6 millj. til að leggja í þetta. En þarna er ekki um neina skilyrðislausa kröfu að ræða, heldur er bænum aðeins gefinn kostur á hluttöku með framlagi, sem svarar 20%. Mér finnst eðlilegt, að Siglufjarðarbær ætti einhvern hlut, svo að hann hefði a.m.k. atkvæðis— og tillögurétt. Ef hlutafélag verður stofnað, þá hafa þessir menn rétt til að kjósa stjórn, skilst mér, það verður sjálfsagt eins og með önnur hlutafélög og ég get ekki séð, að það sé nein ástæða til að ætla, að fyrirtæki verði verr rekið, þó það verði hlutafélag og sérstök stjórn fyrir því. Nú er ómögulegt að fullyrða um, hvernig menn veljast til þessarar stjórnar. En eðlilegast fyndist mér, að stjórnin yrði skipuð að meira eða minna leyti heimamönnum á Siglufirði. Mér fyndist ekkert óeðlilegt, þó að borgarar á Siglufirði vildu vera þátttakendur þarna, svo þeir hefðu tillögu– og atkvæðisrétt á fundum, því það er mikilsvert fyrir bæjarfélagið, að fyrirtækið sé rekið skynsamlega. Og ég efast ekkert um, að ríkisstj. vilji vinna að því, að svo megi verða. Ég ber enga tortryggni í hennar garð viðvíkjandi því. Og þó að þetta sé gert hlutafélag, þá er ekki þar með sagt, að það þurfi ekki einhvern tíma að leita til ríkisstj. um fyrirgreiðslu við lánútveganir og annað þess háttar. Ég hef ekki ástæðu til að ætla það, hvaða ríkisstj. sem verður, — þessi ríkisstj. verður að sjálfsögðu ekki eilíf, — að hún vinni eigi að því, að leyst sé úr þeim nauðsynlegu verkefnum, sem fyrir kunna að koma.

Þetta frv. fer eigi í nefnd, sem ég á sæti í og þess vegna vildi ég vekja athygli á þessum atriðum. En ég skil ekki, ef vilji er fyrir hendi, að það megi ekki leysa þetta mál, enda lýsti ráðh. því yfir, að hann væri reiðubúinn að fallast á breytingar og ég geri frekar ráð fyrir því, ef frv. verður breytt dálítið, þá muni ég greiða atkv. með því.