02.11.1970
Efri deild: 10. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 336 í B-deild Alþingistíðinda. (256)

59. mál, sala á íbúðum framkvæmdanefndar byggingaáætlunar

Utanrrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Þegar aðstoð hefur verið veitt af hinu opinbera, úr ríkissjóði eða sveitarsjóðum eða hvort tveggja, hefur það verið gert til þess að hjálpa láglaunamönnum og eignalitlu fólki til þess að eignast íbúð. Hins vegar hefur verið ætlazt til þess, að við sölu á þessum íbúðum nyti eigandi íbúðarinnar ekki hagnaðar af þeirri sölu og hún yrði ekki seld nema á svipuðu verði og hún var keypt á, að viðbættum vitaskuld bæði kostnaði við endurbætur, sem fram hafa farið, og þeirri hækkun, sem almennt hefur orðið á vísitölu byggingarkostnaðar að frádreginni hæfilegri fyrningu. Þetta hefur verið framkvæmt þannig við verkamannabústaði og var þannig gert líka í lögum frá 1968 um byggingar framkvæmdanefndar byggingaáætlunar.

En í fyrra, þegar l. um Húsnæðismálastofnun ríkisins voru afgreidd hér á þingi, þá voru ekki tekin inn í frv. þessi ákvæði um byggingar framkvæmdanefndarinnar, vegna þess að l. tóku þá ekki til þeirra framkvæmda — a. m. k. ekki nema þá óbeinlínis. Og það þótti meira við hæfi að setja um þetta sérstök l., og því er þetta frv. fram borið til að tryggja það, að þær íbúðir, sem byggðar hafa verið af framkvæmdanefnd byggingaáætlunarinnar, séu ekki seldar, nema Húsnæðismálastofnunin hafi áður hafnað forkaupsrétti og séu ekki framleigðar nema með leyfi hennar. Síðan eru ákvæði um það, að söluverð slíkrar íbúðar megi ekki vera hærra en kaupverð hennar að viðbættri verðhækkun samkv. vísitölu byggingarkostnaðar og sem svarar endurbótum, sem gerðar hafa verið á sama tíma, og að frádreginni hæfilegri fyrningu þó þannig, að þegar eigandinn hefur átt íbúðina í 10 ár eða lengur, þá megi hann njóta hagnaðar, sem nemur helmingi af söluhagnaði íbúðarinnar, og eftir 20 ár megi hann njóta þeirrar verðhækkunar, sem orðið hefur á íbúðinni að fullu. Þetta er sjálfsagður hlutur. Þetta hefur verið í l. áður, þetta er í hliðstæðum l. og raunar ekkert nýtt í þessu annað en það að endurnýja þau ákvæði, sem um þetta voru áður í gildi.

Auk þess er í frv. gert ráð fyrir því, að þegar íbúðir, sem byggðar hafa verið samkv. ákvæðum l. um útrýmingu heilsuspillandi íbúða, hafa verið seldar einstaklingum, þá gildi um það sömu ákvæði og 1. gr. segir til um. Þetta er efni frv. og raunverulega ekkert annað. Fyrra atriðið er til komið vegna þess, að það var ekki talið við hæfi að taka það inn í l., sem samþ. voru hér á síðasta þingi um húsnæðismálastjórn, og hið síðara vegna þess, að um íbúðir, sem byggðar eru samkv. l. um afnám heilsuspillandi íbúða, er það nokkurn veginn hliðstætt og ekki óeðlilegt og raunar sjálfsagt, að sömu reglur gildi og um íbúðir þær, sem byggðar hafa verið af framkvæmdanefnd byggingaáætlunarinnar, og sem lengi — og alltaf raunar — hafa verið í gildi um verkamannabústaði. Þetta er ofureinfalt mál og þarf ekki frekari skýringa.

Ég vil leyfa mér, herra forseti, að óska eftir því, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til hv. heilbr.- og félmn.