18.02.1971
Efri deild: 50. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 206 í C-deild Alþingistíðinda. (2594)

212. mál, Stýrimannaskólinn í Reykjavík

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason) :

Herra forseti. Gildandi lög um Stýrimannaskólann í Reykjavík eru frá árinu 1966. Engu að síður er nú orðið tímabært að endurskoða þá lagasetningu. Þess vegna skipaði menntmrn. á s.1. sumri þriggja manna n. til þess að endurskoða lögin og voru skipaðir í n. þeir Jónas Sigurðsson skólastjóri, formaður, Sigurður J. Briem fulltrúi í menntmrn. og Garðar Þorsteinsson stýrimaður, tilnefndur af Farmanna– og fiskimannasambandi Íslands. Hefur n. þessi samið þetta frv. og er það flutt eins og n. gekk frá því.

Aðalbreytingarnar, sem felast í þessu frv. miðað við gildandi lög, eru fólgnar í því, að felld er niður upptalning á námsefni fyrir einstök próf. Telur n., að slík upptalning eigi betur heima í reglugerð, enda sé nauðsynlegt að hafa svigrúm til breytinga á námsefni í sérskóla eins og Stýrimannaskólanum, án þess að til lagabreytingar þurfi að koma. Þá er í frv. gerð nokkur breyting á inntökuskilyrðum í skólann. Ákvæðum gildandi 1. um almenn inntökuskilyrði er haldið, en í þessu frv. er þess jafnframt krafizt, að umsækjendur hafi lokið gagnfræðaprófi eða hliðstæðu prófi. Jafnframt er heimilað að halda námskeið við skólann fyrir þá, sem ekki hafa gagnfræðapróf eða hliðstætt próf. Skal námskeið þetta standa í minnst fjóra mánuði og námsgreinar vera stærðfræði, eðlisfræði, íslenzka, enska og danska. Á námsefnið að vera miðað við það, sem kennt er til gagnfræðaprófs í þessum greinum. Standist nemandinn lokapróf þessa námskeiðs með tilskilinni einkunn, veitir það rétt til setu í 1. bekk, ef öðrum almennum inntökuskilyrðum er jafnframt fullnægt. Fram að þessu hafa menn komið í Stýrimannaskólann með mjög misjafna bóklega undirstöðumenntun, allt frá barnaprófi til stúdentsprófs. Þar sem inntökuskilyrði um bóklegan undirbúning hafa fram að þessu ekki verið nein, hefur í aðalatriðum orðið að miða námsefni við þá, sem minnsta undirbúningsmenntun hafa haft. Þess vegna hefur farið of mikill tími í námsefni, sem nemendur hefðu átt að vera búnir að læra í öðrum skólum. Sú skipan, sem þetta frv. gerir ráð fyrir, ætti að geta brúað, a.m.k. að nokkru leyti, bilið milli þeirra, sem misjafnan undirbúning hafa. Við það vinnst, að meiri tími verður til ráðstöfunar fyrir sérgreinar skólans, sem þegar er byrjað að kenna í 1. bekk. Engu að síður verður námið erfitt fyrir þá nemendur, sem takmarkaðan bóklegan undirbúning hafa í stærðfræði, eðlisfræði og tungumálum, svo að aðkallandi er orðið að lengja námstímann fyrir þá og enn fremur að auka námsefnið, bæði fyrir farmenn og fiskimenn.

Ef þetta frv. nær fram að ganga, eins og ég vona fastlega, er gert ráð fyrir því, að námsefni 2. bekkjar farmannadeildar og 2. bekkjar fiskimannadeildar verði samræmt, þannig að sömu skipstjórnarréttindi fáist eftir nám í þessum deildum. Er þessi skipan ráðgerð, með hliðsjón af því, að hér á landi eru nánari tengsl milli farmanna og fiskimanna en hjá öðrum þjóðum. Hér er sama skólanum ætlað að mennta báða aðilana, en annars staðar eru yfirleitt sérstakir skólar fyrir hvora aðilana um sig. Ráðgert er, að námsefni og námstími í 2. bekk framhaldsdeildar og 2. bekk fiskimannadeildar verði sá sami, 7 1/2 mánuður, en nú er aðeins um 6 mánaða nám að ræða í 2. bekk framhaldsdeildar, en 7 1/2 mánaðar nám í 2. bekk fiskimannadeildar. Réttindi eru hin sömu, þ.e.a.s. skipstjórnarréttindi á fiskiskipum, af hvaða stærð sem er og hvar sem er og skipstjórnarréttindi á kaupskipum allt að 400 rúmlestum í innan— og utanlandssiglingum, eða sams konar og fiskimannapróf upp úr 2. bekk veitir nú. Þá verða undirstýrimannsréttindi á kaupskipum og varðskipum ekki tímabundin, eins og nú á sér stað. Skipstjórnarréttindi á hverja tegund skipa munu þó ekki verða veitt nema eftir ákveðinn siglingatíma á viðkomandi skipategund, þannig að ekki yrðu veitt skipstjórnarréttindi á fiskiskipum nema eftir ákveðinn siglingatíma á slíkum skipum og ekki réttindi á kaup— eða varðskipum nema eftir ákveðinn siglingatíma á þeim skipum. En til þess að þessi skipun geti komizt á, þarf jafnframt að gera breytingar á lögum um atvinnuréttindi skipstjórnarmanna nr. 52 frá 1968. Ef þetta frv. nær fram að ganga, mundu væntanlega verða gerðar till. um breytingar á þeim lögum.

Ég held, að allir þeir, sem láta sig Stýrimannaskólann og menntun skipstjórnarmanna nokkru skipta, séu sammála um, að ákvæði þessa frv. séu til verulegra bóta frá þeirri skipan, sem nú gildir. Þess vegna leyfi ég mér að vænta þess, að hið háa Alþ. taki þessu máli vel og afgreiði það nú þegar á þessu þingi.

Að svo mæltu leyfi ég mér, herra forseti, að óska þess, að málinu verði að lokinni þessari 1. umr. vísað til 2. umr. og hv. menntmn.