22.03.1971
Efri deild: 71. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 208 í C-deild Alþingistíðinda. (2597)

212. mál, Stýrimannaskólinn í Reykjavík

Frsm. (Gils Guðmundsson):

Herra forseti. Eins og fram kemur á þskj. 608, hefur menntmn. fjallað um þetta frv. og leggur til að það verði samþ. óbreytt.

Helztu breytingar á gildandi lögum um Stýri­ mannaskólann í Reykjavík, sem í þessu frv. felast, eru þær, sem nú skal greina:

1. Að felld er niður úr lögunum upptalning á því námsefni, sem lesa skal fyrir einstök próf í skólanum. Í staðinn er gert ráð fyrir því, að slík upptalning verði framvegis í reglugerð, svo að auðveldara verði að koma við nauðsynlegum breytingum, eftir því sem tækni og breyttar aðstæður að öðru leyti gera æskilegt og nauðsynlegt.

2. Inntökuskilyrði í skólann eru hert nokkuð, en þó á þann veg, að þeir, sem ekki hafa tilskilinn undirbúning, geta öðlazt hann með því að sækja undirbúningsdeild eða námskeið við skólann. Þessi breyting er talin nauðsynleg til þess að auðvelda kennslu í skólanum og gera kleift að auka þar fræðslu í sérgreinum svo sem óhjákvæmilegt er.

3. Með frv. þessu er samræmt námsefni 2. bekkjar farmannadeildar og fiskimannadeildar á þann veg, að sömu skipstjórnarréttindi fást eftir nám í þessum deildum báðum. Þetta er talið horfa mjög til bóta og því á að fylgja aukin hagkvæmni miðað við þær aðstæður, sem í gildi eru. Þar sem það er æskilegt og enda í mörgum tilfellum nauðsynlegt að yfirmenn á skipum geti nokkuð jöfnum höndum starfað á fiskiskipum og farskipum.

4. Frv. gerir ráð fyrir þeirri breytingu, að skipuð verði skólanefnd við Stýrimannaskólann, en slík n. hefur ekki verið þar við þennan skóla til þessa. Eins og ég sagði telur menntmn., að frv. þetta sé til bóta og leggur til, að það verði samþ. óbreytt.