24.03.1971
Neðri deild: 68. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 209 í C-deild Alþingistíðinda. (2602)

212. mál, Stýrimannaskólinn í Reykjavík

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Þetta frv. er komið frá hv. Ed., sem samþ. stjórnarfrv. óbreytt með shlj. atkv. að fengnum einróma meðmælum hv. menntmn.

Það hefur þótt tímabært að endurskoða gildandi lög um Stýrimannaskólann, þó þau séu ekki ýkjagömul, þ.e.a.s. frá árinu 1966. Meginástæða þess, að rétt þótti að endurskoða lögin nú, er sú, að nauðsynlegt hefur þótt að breyta inngönguskilyrðum í skólann.

Í Stýrimannaskólann koma menn með mjög misjafna bóklega undirstöðumenntun, allt frá barnaprófi eingöngu til stúdentsprófs. Og þar sem inntökuskilyrði um bóklegan undirbúning hafa engin verið, þá hefur orðið að miða námsefnið að verulegu leyti við þá, sem minnsta undirbúningsmenntun hafa haft og hefur því of mikill tími farið í nám, sem menn ættu að hafa getað verið búnir að læra í öðrum skólum. Þess vegna er nú hert á inntökuskilyrðum og þau ákveðin gagnfræðapróf eða hliðstætt próf auk gömlu ákvæðanna um sjón, heyrn, málfæri og sundkunnáttu og sjúkdóma. Ætti þetta að geta gert það kleift, að skólinn helgaði sig í mun ríkara mæli, en nú á sér stað þeim sérgreinum, sem stýrimenn þurfa sérstaklega að hafa kunnáttu í.

Auk þessa er gert ráð fyrir að samræma námsefni 2. bekkjar farmannadeildar og 2. bekkjar fiskimannadeildar, þannig að sömu skipstjórnarréttindi fáist að loknu námi í báðum þessum deildum. Þetta er lagt til með tilliti til þess, að miklu nánari tengsl eru hér á landi milli farmanna og fiskimanna, en hjá öðrum þjóðum. Hér er sami skólinn bæði fyrir farmenn og fiskimenn, en víðast hvar annars staðar eru sérstakir skólar fyrir farmenn og sérstakir skólar fyrir fiskimenn. Gert er ráð fyrir því, að námsefni og námstími í 2. bekk farmannadeildar og 2. bekk fiskimannadeildar verði framvegis sá sami, 7 1/2 mánuður árslega, en núna er hann 7 1/2 mánuður í 2. bekk fiskimannadeildar, en aðeins 6 mánuðir í 2. bekk farmannadeildar. Réttindin yrðu hin sömu, þ.e.a.s. skipstjórnarréttindi á fiskiskipum af hvaða stærð sem er og hvar sem er og skipstjórnarréttindi á kaupskipum allt að 400 rúmlestum í innanlands— o:g utanlandssiglingum, eða sams konar réttindi og fiskimannapróf upp úr 2. bekk veitir nú. Þá er og felld niður sú upptalning á námsefni, sem er í gildandi lögum. Þykir ástæðulaust að hafa ákvæði um námsefni beinlínis í lögum, heldur eiga það að vera reglugerðarákvæði.

Að svo mæltu leyfi ég mér, herra forseti, að leggja til, að þessu máli verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. menntmn.